Flugturn í FL Group (JGH)

Pistlar


Sagan er einhvern veginn þannig að það var verktaki hér í den sem byggði flugturn úti á landi fyrir Flugmálastjórn. Þegar hann rukkaði fyrir verkið gat hann ekki sundurliðað kostnaðinn heldur skrifaði bara á nótuna: „Eitt stykki flugturn.“ Menn brostu – en sagan lifði, hvort sem hún er sönn eða skreytt. Það breytir engu, hún er góð. Þegar ég gluggaði í ársreikning FL Group sem tilkynnti í vikunni mesta tap Íslandssögunnar, 67,3 milljarða, varð mér litið á rekstrarkostnað fyrirtækisins. Hann var 6,2 milljarðar króna. Og viti menn; þar er „eitt stykki flugturn“ innanborðs. Það er liðurinn „annar rekstrarkostnaður“. Hann er 2 milljarðar! Sagt og staðið. Afgangstala – ekkert útskýrt frekar. Rétt sí svona eins og þetta séu blýantar, strokleður, tölvur, málverk og þið vitið...svona annar kostnaður. Eitthvað smælki. En hjá FL Group er hann 2 milljarðar.Það þarf ekki mörg orð um að hluthafar hljóta að spyrja stjórn félagsins að því á aðalfundinum hvernig „flugturninn sundurliðist“ – hvað sé innifalið í þessum öðrum kostnaði. Það er allt að því súrrealískt að hafa „annan rekstrarkostnað“ upp á 2 milljarða. Og takið eftir; við erum að tala um annan rekstrarkostnað fjárfestingarfélags í Síðumúlanum sem er með um 36 manns í vinnu og skrifstofan er opin frá 9 til 17. Að vísu hlýtur að hafa verið unnnið eitthvað á kvöldin og nóttunni hjá félaginu. Það hefur stundum mátt sjá ljósin kveikt á skrifstofunum á kvöldin. En varla er þessi annar rekstrarkostnaður FL Group rafmagnskostnaður – þó reikningarnir séu að verða ansi háir hjá Orkuveitunni í seinni tíð.Mörg fyrirtæki á Íslandi yrðu stolt af því að geta sagst vera með 2 milljarða í tekjur á ári. Kostnaðurinn yrði væntanlega laun, hráefni, skrifstofuhúsgögn, tölvur, afskftir, vextir og annar kostnaður.Þegar ég lærði bókfærslu, fjármál og reikningshald í Viðskiptadeildinni í gamla daga hjá Valdimar Hergeirssyni, Árna Vilhjálmssyni og Stefáni Svavarssyni þá gat það stundum verið álitamál hvernig ætti að bókfæra einstaka færslur – eitthvað smælki – og þá var mjög þægilegt að setja það á reikninginn annar kostnaður. Oftast snerist þó vandamálið um það hvort það ætti að eignfæra hlut eða afskrifa, eftir hvaða reglum, hvernig ætti að fara með birgðir og meta birgðir. Ég man t.d. eftir einhverri reglu sem hét FIFO „First in – First out“ í birgðahaldi. Annari reglu sem hét LIFO „Last in – first out“. Ég hélt alltaf að þetta væru heiti á alþjóðlegum samtökum í boltanum, eins og FIFA og EUFA. Á þessum árum var FIDE mikið í fréttum en þar kom Friðrik Ólafsson skáksnillingur við sögu og fleiri góðir menn.Annars stingur fleira í stúf í 6,2 milljarða rekstrarkostnaði FL Group. Þar er lögfræðikostnaður og ráðgjöf vegna fjárfestinga upp á 1,3 milljarða króna. Bíddu, það var þá. Þarf ekki aðeins að staldra hér við. Að greiða lögfræðingum og ráðgjöfum úti í bæ 1,3 milljarða króna fyrir að láta mann tapa 67,3 milljörðum. Það heitir að vera flottur á því. Ég er ekki viss um að þessir lögfræðingar og ráðgjafar vilji fá nöfn sín sundurliðuð.Þegar ég sá þennan lögfræðikostnað hjá FL Group hélt ég fyrst að ég væri að lesa ársskýrsluna hjá Sir Paul McCartney sem er með stóð lögfræðinga í kringum sig þessa dagana vegna dýrasta skilnaðar sögunnar.En hverjir eru það svo að lokum sem greiða þennan „annan rekstrarkostnað“ hjá FL Group upp á 2 milljarða. Þeir heita víst hluthafar. Og þeir (ekki forstjórinn) eru víst með einhverja menn í vinnu sem heita endurskoðendur.Er nú ekki rétt að endurskoðendurnir sundurliði þennan „annan kostnað“ aðeins nánar fyrir aðalfundinn. Annars hljómar þetta bara eins og á hinum fjölmörgu bílaverkstæðum Badda í gamla daga: Viltu nótu? Já.....-  humm og ha og vandræði.....Nú og hvað á ég að skrifa á hana? Hafðu það í þetta skiptið


„Eitt stykki flugturn, takk.“Jón G. Hauksson


[email protected]


 

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.