Undir áhrifum (BJ)

Pistlar

Í Lesbók Morgunblaðsins var um helgina opna þar sem átta listamenn sögðu frá því hverjir hefðu verið áhrifavaldar í lífi sínu. Greinin var skemmtileg og varð til þess að ég fór að hugsa: „Hverjir skyldu hafa verið áhrifavaldar í mínu lífi?“


Spurningin er alls ekki einföld. Ekki þarf að efast um að foreldrar, systkini og ýmsir nánir ættingjar hafa áhrif á mann. Sama gildir um daglega samverkamenn. Þess vegna ákvað ég að líta framhjá þessum hópi að mestu. Þá byrjaði leikurinn.


Í barnaskóla bar maður virðingu fyrir kennurum, lengst af að minnsta kosti, en enginn þeirra var áhrifavaldur. Helst Sigfús Halldórsson. Eitthvert mesta tónskáld þjóðarinnar þurfti að kenna smákrökkum teikningu. Hann var fínn kall sem fékk sér öðru hvoru sopa í pyttlu sem hann geymdi í bakherbergi. Ég hugsa að öllum hafi þótt vænt um hann. Sumum er ég alveg búinn að gleyma, ég man ekki hvað fólk sem kenndi mér í heilan vetur hét. Fyrir nokkrum árum hitti ég mann sem sagði mér það að hann hefði kennt mér í Menntaskóla. „Já, já,“ sagði ég, „Einar, er það ekki.“ En það var ekki svo, hann hét allt annað. Stundin varð vandræðaleg og mér datt í hug hvernig það hefði orðið hjá Stanley þegar hann var búinn að eyða heilu ári í að leita að dr. Livingstone í svörtustu Afríku og segir svo þegar hann sér loks hvítan mann: „Dr. Livingston, I presume,“ og maðurinn hefði svarað „Nein, ich bin Herr Meckelhoff.“


Jón Guðmundsson íslenskukennari í Menntaskólanum var eftirminnilegur og hafði örugglega varanleg áhrif. Mann langaði til þess að skrifa „rétt“ eftir hans kennslu. Mér fannst hann hvetjandi kennari. Það voru fleiri fínir kennarar, en höfðu kannski ekki teljandi áhrif. Ég gekk aldrei í Háskólann hér. Einn stærðfræðikennarinn minn í Wisconsin, Charlie heitinn Johnson, sýndi mér hvernig hægt er að búa til stærðfræðilíkön af heiminum. Hann hafði áhrif. Þangað kom líka gestafyrirlesari sem breytti hugsanagangi mínum: Moshe Rubinstein. Moshe er kennari við UCLA og hefur oft komið til Íslands og haldið námskeið. Hann hefur þann sjaldgæfa eiginleika að geta þjálfað menn í að hugsa.


Einn kennarinn minn í Flórída, Dev Basu, sagði einhvern tíma: „Það þarf einfaldan lykil til þess að opna margar skrár.“ Hann hafði lag á að setja hugsun sína fram á einfaldan og auðskilinn máta. Ég hefði örugglega getað lært meira af honum. Hann dó fyrir nokkrum árum á Indlandi, gamall, blindur og vansæll. Það var gaman að vera í Flórída að því leyti að þangað komu flestir af þekktustu tölfræðingum heims á þeim tíma. Einn þeirra, David Blackwell, var mikill séntilmaður og hann opnaði huga minn fyrir því að þeir sem mest vita eru oft hógværastir yfir þekkingu sinni. Hann byrjaði oft svör við spurningum á þann hátt að segja: „Ég veit ekki mikið um þetta ... “ og gaf svo einfalt og skilmerkilegt svar við spurningunni, þannig að ekki þurfti að spyrja frekar. Annars eru margir stærðfræðingar mjög sérstæðir og ekki vel til þess fallnir að vera öðrum fyrirmyndir.


Ég varð svo ekki fræðilegur stærðfræðingur og þess vegna voru það helst þeir sem höfðu áhrif á almenna hugsun sem ég get talið áhrifavalda.


Önnur svið eru fjölmörg þar sem maður hefur séð snilligáfu. Í listum eru margir stórsnillingar sem hafa snortið mann djúpt. En ekki beinlínis haft varanleg áhrif. Þórbergur hefur reyndar örugglega áhrif á þá sem lesa góðu bækurnar hans. Hann skrifaði góðan stíl og kenndi margt um stíl. Hann ætti að vera öllum skyldulesning. Ritgerðirnar Einum bent, öðrum kennt og Úr verum ættu allir sem hafa atvinnu af því að skrifa að lesa árlega. Camus hafði mikil áhrif á mig með Útlendingnum, Hamsun með Pan og Viktoríu, Kafka, Karen Blixen. Meistarinn og Margaríta er sérkennileg og áhrifamikil saga, ef maður er rétt stemmdur þegar maður les hana. Í menntaskóla las ég bækur eftir Willy Sörensen, Dana sem skrifaði súrrealískar sögur. Ég hefði viljað geta skrifað eins og allir þessir menn. En hvort þeir höfðu áhrif, það er ég ekki viss um.


Í tónlist voru Bítlarnir óumdeilanlega meistarar og Lennon meistari meistaranna. Svo eltist maður og fann töfra Brams, Verdis og Wagners. Samt hafa allir þessir líklega frekar gert mér lífið ánægjulegra fremur en mótað mig.


Stjórnmálamenn hafa verið mitt áhugamál frá blautu barnsbeini. Margir þeirra eru stórkostlegir ræðumenn og sumir náð frábærum árangri. Maður gerir örugglega of mikla kröfu til stjórnmálamannanna, en stefnufesta og orðheldni er sjaldnast eiginleiki pólitíkusa. Ég er of mikill púrítani til þess að geta talið þá áhrifavalda, þó að ég sé hrifinn af mörgum á ákveðnu sviði eða stuttu tímabili.


Í viðskiptalífinu hef ég lært af mér reyndari mönnum. Ég get nefnt Árna Vilhjálmsson, Hörð Sigurgestsson og Benedikt Sveinsson sem hafa hver á sinn hátt kennt mér ýmislegt, oftast án þess að reyna það sérstaklega. Sigurður B. Stefánsson er sjaldgæfur snillingur. Allir hafa þessir menn náð að leysa erfiðar þrautir með mjög farsælum hætti. Það er eftirsóknarverður eiginleiki.


Líklega hef ég þó enga sérstaka fyrirmynd sem ég horfi til og hugsa með mér: „Svona vil ég vera.“ Það eru margir sem ég sé og hugsa: „ Svona vil ég ekki vera.“ Mér datt það í hug hvort það væri virkilega svo að ef ég væri staddur á himnum og mætti velja mér að vera hver sem er, hvort ég myndi virkilega velja mig. Það finnst mér ólíklegt, því að sennilega hefði ég ekki tekið eftir mér þaðan.  Samt finn ég engan sem ég hefði frekar viljað vera.Benedikt JóhannessonFleiri pistlar

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.