Beðið eftir Þórarni Eldjárn (BJ)

Pistlar

Þegar Þórarinn Eldjárn gaf út fyrstu kvæðabók sína, Kvæði, þá varð hann á svipstundu költ-skáld fyrir stóran hóp. Ekki það að hann væri alveg óþekktur. Hann hafði ort Þú er sjálfur Guðjón í menntaskóla og var með vinsælan skemmtiþátt í útvarpi. Samt var örugglega langt síðan táningur gat þulið upp mörg erindi úr nýútkominni ljóðabók á balli og annar gripið inn í og lokið bálkinum. Síðan hafa margir beðið eftir því að Þórarinn fylgdi þessari fyrstu bók eftir með öðru meistarastykki. Með skáldsögunni Baróninn gæti biðin endað hjá mörgum.Kvæði voru að ýmsu leyti stílbrot þegar þau komu út árið 1974. Þetta voru ljóð í bundnu máli, raunveruleg kvæði með stuðlum og höfuðstöfum. Flest skáld höfðu ort órímað og atkvæðalaust í áratugi. Stuðlakveðskapur var ekki nema fyrir gamla neftóbakskarla í afdölum. Þórarinn var reyndar afkomandi einhverra slíkra í Svarfaðadal, án þess að ég kunni á þeim sérstök deili. Pabbi hans hafði að sögn ort svæsnar klámvísur á yngri árum sem stuðningsmenn hans flögguðu, a.m.k. eftir að þeir komust á þriðja glas. Ekkert kann ég úr þeim, enda ekki þannig dálkur.


Það var annað sem einkenndi Kvæði. Kvæðin voru ekki einhver tilfinningavæmnisvella heldur sögur af einhverju skemmtilegu. Sveinbjörn Egilsson, Grettir og Glámur, Möve hjólið voru öll tekin fyrir með eftirlegum hætti. Svo eftirminnilegum að menn kyrjuðu hástöfum: „Sveinbjörn átti stöng og stökk, hann stökk og flaug um loftin dökk.“ ... „Margt eitt fól þó stökkvi á stöng er stefnan bæði lág og röng.“ Hjá mér og mínum félögum var enginn vafi á því að þarna var okkar maður kominn. Við vildum allir renna á Möve gegnum lífið.


Við biðum einkennilega spenntir eftir næstu bók. Það er örugglega ekki hægt að skýra það svo nokkur skilji, að tvítugir piltar hafi beðið spenntir eftir kvæðabók. Þannig var það nú samt. Þess vegna var erfitt að uppfylla væntingarnar. Ef maður á ekki von á neinu kemur allt manni á óvart. Hluti af snilldinni er að standa sig umfram væntingar. Næsta bók var ... satt að segja man ég ekki nákvæmlega hvað hún var. Ekki beinlínis vonbrigði, eiginlega ekki neitt. Hún hét Erindi.


Reyndar ekki. Í millitíðinni kom út bók sem hét Disneyrímur. Þórarinn hafði þá ánetjast einhverjum afskaplega leiðinlegum skandinavískum sósíalrealisma sem gekk út á það að endur mættu ekki vera berrassaðar og yrðu að eiga sitt eðlilega fjölskyldulíf þar sem foreldrar ælu upp börnin sín. Þórarinn gekk sem sé á hólm við fornvin minn Andrés Önd. Svíar, sem eru svo vitlausir að vita ekki einu sinni hvað Andrés heitir og kalla hann Kalle Anka, höfðu komið þeirri grillu inn hjá Þórarni að það væri nauðsynlegt að kveða þennan draug niður. Og Þórarinn kvað:


Nemur löndin Andrés önd,


argvítugur steggur.


Dauða hönd á dal og strönd


disneyvélin leggur.


Af Kvæðum komu út margar útgáfur. Mín bók er 3. útgáfa. Af Disneyrímum hefur vonandi ekki komið út nema ein útgáfa. Ég held að ég hafi fengið stærstan hluta upplagsins í jólagjöf. Árum saman varð ég að gefa rímurnar þegar mér var boðið svo seint í afmæli að mér gafst ekki tími til þess að kaupa neitt. En það gerði ekkert til því að ég átti heima úti í Ameríku og það skildi enginn íslensku. Ég lét þess getið að höfundurinn væri „a very talented young Icelandic poet.“ Sem í sjálfu sér var engin lygi. Mér er sagt að á Íslandi hafi verið kvartað undan því að Þórarinn réðist að barnavininum Walt Disney. En ég fylgdist ekkert með því. Andrés var vinur minn frá blautu barnsbeini, en ég geng samt ekki um berrassaður og eignaðist börn sem kalla mig pabba en ekki frænda.


Svo gaf Þórarinn út smásögur sem voru sumar ágætar en aðrar bara svona la la. Galli Þórarins er að honum finnst það mjög fyndið ef fólk ber ættarnöfn, sérstaklega asnaleg ættarnöfn eins og „Proppé“ eða „Briem.“ Hann hefur sjálfur búið til ættarnafnið Kjögx. Af einhverjum ástæðum höfðaði söguhetja Kort Kjögx ekki til mín. Kannski er það fyndið að skrifa Jón Sveinsson, Nonni aftur og aftur, en nægir það til þess að halda uppi heilli bók? Reyndar finnst mér þegar ég skrifa þetta núna að  þetta verði aftur fyndið þegar það er skrifað nógu oft, en ég fattaði það ekki þá.


Þórarinn hefur ort fjöldann allan af barnaljóðum. Mörg frábærlega sniðug og skemmtileg. En samt vantar alltaf svolítið á að hann hafi náð alla leið. Skrifað mjög góða skáldsögu sem mann langaði til þess að lesa. Alla.


Nú er ég að lesa nýjustu bók Þórarins, Baróninn. Og ég er ekki frá því að nú hafi honum tekist það sem ég hef beðið eftir í 30 ár. Baróninn er lífleg og áhugaverð saga. Þórarinn lætur barón koma inn í íslenskt þjóðlíf og hitta menn sem voru til. Benedikt Gröndal og Einar Benediktsson eru sjálfum sér líkir, þó að þeir hafi kannski ekki átt nákvæmlega þessi samskipti við hinn dularfulla barón, sem var til og kom til Íslands skömmu fyrir aldamótin 1900, átti hér stutt og eftirminnilegt ævintýri þangað til hann hvarf aftur með dularfullum hætti.


Dag skal lofa að kvöldi, mey að morgni og bók þegar maður er búinn að lesa hana. Ég er ekki búinn með Baróninn. En ég hef það á tilfinningunni að biðinni eftir Þórarni sé lokið.Benedikt Jóhannesson

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.