Þjóðarblómið (BJ)

Pistlar

Ég sé að þessa dagana eru allir að keppast við að útnefna þjóðarblómið. Ég ætla að taka þátt í þessum leik og kýs lúpínuna. Lúpínan nær að skjóta rótum þar sem annar gróður á erfitt uppdráttar og þekur gróðurvana holt. Mér finnst hún falleg. Auðvitað veit ég að margir hafa horn í síðu hennar. Hún er nýbúi.


Þegar fyrst var farið að planta lúpínu hér á landi var hugmyndin sú að hún myndi ná að brjóta holt og hæðir undir gróður í um það bil 15 ár Síðan átti hún að draga sig í hlé, ganske pænt, og gróður herraþjóðarinnar átti að taka við. Ekki gat það hljómað miklu betur. Gastarbeiter að þýskri fyrirmynd sem átti svo að hverfa á brott þegar uppbyggingunni væri lokið. En margt fer öðruvísi en ætlað er. Lúpínan fór að lifa sínu eigin lífi og neitaði að víkja. Þetta verður til þess að margir ráðast að henni með offorsi hvar sem er og reyna að uppræta hana með öllu, vilja endanlega lausn lúpínuvandans. Sumir halda að lúpínuseyði lækni öll mein og ekki hef ég á móti því að menn geri sér af henni drykk ef þeir trúa því að hún geri sér gott. Ég hef enga sérstaka trú á því. En mér finnst samt ósköp fallegt að sjá fjallshlíðar skrýddar lúpínunni. Hún myndi sóma sér vel sem þjóðarblóm, falleg, harðger og berst fyrir tilverurétti sínum.


Nú í vikunni héldu Demókratar flokksþing sitt eins og vel æft leikrit. Kerry var útnefndur forsetaframbjóðandi eins og menn hafa vitað frá því í febrúar. Allir voru með vel æfðar ræður og samstaðan er mikil. Flestir flokksmenn höfðu óttast að frambjóðandanum sjálfum kynni að fatast flugið, en hann flutti ræðu sem hreif marga. Daginn eftir höfðu einhverjir lesið ræðuna og sáu að margt vantaði í hana. Það er svo gott að vera á móti, sérstaklega forseta eins og Bush sem hefur svo margt á móti sér. En hvað ætlar Kerry að gera sjálfur? Verði hann forseti er þarf hann að leysa vandann sem Bush hefur búið til. Það skiptir Bandaríkjamenn og heimsbyggðina alla miklu máli. Þó að það sé góð pólitík að vera bara á móti er það vingulslegt að vera ekki með neinu. Það skiptir þó minnstu upp á fjöldafylgið eins og menn hafa kynnst hér á landi.


Það er algeng klysja að Bush hafi unnið kosningar í Bandaríkjunum á svindli. Það er rangt. Hann fékk að vísu minnihluta atkvæða, en þannig er kerfið í Bandaríkjunum að svo getur farið. Munurinn var lítill í Flórída, en nokkur stórblöð tóku sig saman eftir að Hæstiréttur hafði úrskurðað að kosningin væri lögleg og töldu öll atkvæði sem umdeild voru í dómsmálunum einu sinni enn. Niðurstaðan varð þessi skv. NYT 12. nóv. 2001 :„WASHINGTON -- A study commissioned by The New York Times, The Washington Post and other news organizations has concluded that George W. Bush would have maintained his lead in Florida and captured the presidency last year if either of two limited recounts - one requested by Al Gore, the other ordered by the Florida Supreme Court - had been completed. The study showed that if the two limited recounts had not been stopped - the first by Florida county and state election officials and the second by the U.S. Supreme Court - Bush would have held his lead over Gore, with margins ranging from 225 to 493 votes, depending on the standard."


En auðvitað er það einkennilegt að vilja hafa forseta sem ekki hefur fylgi meirihluta kjösenda. Þar þyrftu Bandaríkjamenn að taka sig á.


Hér á landi tekur um þessar mundir við forseti sem 57,5% þjóðarinnar höfnuðu.Benedikt Jóhannesson

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.