Minningabrot (BJ)

Pistlar


Að undanförnu hafa óvenjumargir þekktir Íslendingar látist. Ég ætla að rifja upp kynni af þremur þeirra.


Jón S. Guðmundsson íslenskukennari kenndi mér tvö ár í Menntaskólanum í Reykjavík. Hann kenndi lengur en nokkur annar við Menntaskólann og betur en flestir. Þegar allt er talið mun Jón hafa kennt næstum hálfa öld við skólann. Ég man aldrei eftir að hann hafi verið kallaður annað en Jón Gúmm, ekki í háðungarskyni heldur vegna þess að hann var Guðmundsson. Á fyrsta ári, eða í þriðja bekk eins og það heitir í MR, var Jón umsjónarkennari sem þýddi að hann gekk um ganga og gætti að því að mættu samviskusamlega og stundvíslega í tíma. Ég gerði hvorugt mjög vel en ekki man ég til þess að Jón hafi neitt agnúast út í mig þess vegna. Þó var hann afar ógnvekjandi og strangur á svip þegar hann kíkti í gegnum kýraugun á stofunum í gamla skólahúsinu.


Stafsetningin í 3. bekk MR er löngu orðin landsfræg fyrir hversu knúsuð hún var. Raðað var saman einkennilegum orðum þannig að þau mynduðu skiljanlega setningu en þannig myndi enginn tala eða skrifa. Á fyrsta prófi, en þau voru tíð, fékk ég 2,5. Ég kunni ekki reglur um zetu. Eftir að ég tók mig til og lærði þær var ég hinum megin í einkunnaskalanum. Á jólaprófinu las Jón upp æfinguna sem við skrifuðum niður. Hann las mjög skýrt þannig að ef menn höfðu fulla heyrn gátu þeir nánast heyrt bæði fjölda n-a og ypsilon í orðum. Eftir þetta þótti mér alltaf vænt um hann.


Jón kenndi okkur Q-bekkingum íslensku síðustu tvo veturna. Hann kunni efnið utan að og gat þulið það upp eins og ekkert væri. Samt man ég aldrei til þess að okkur þætti kennslan staglkennd. Þvert á móti hafði maður áhuga á því sem sagt var. Eftir því sem við færðumst nær stúdentsprófum var Jón ljúfari og var held ég í miklu uppáhaldi hjá öllum bekkjarbræðrum mínum sem á annað borð hlustuðu í tímum.


Hann sagði mér það þegar ég hitti hann eftir að hann hætti loks að kenna að hann hefði tekið að sér lestur hæstaréttardóma til útgáfu. Og fengi hærri laun en áður við kennsluna. „Ég veit ekki hvað kollegar mínir segðu ef þeir vissu þetta,“  sagði hann og kímdi.


Gunnar Örn Gunnarsson listamann þekkti ég lítið en hitti hann þó tvisvar. Við fórum nokkrir til hans austur fyrir Þjórsá til þess að skoða málverk. Hann átti sæg af málverkum í stórri skemmu. Hann vildi selja þau til þess að hreinsa hugann sagði hann. Gömlu myndirnar voru býsna líflegar en sumar ekki fyrir viðkvæmar sálir. „Þetta er frá Kobba kviðristu tímabilinu mínu“ sagði hann og glotti. Seinni árin var hann farinn að mála sakleysislegar myndir og hugurinn greinilega orðinn hreinn.


Ég valdi mynd sem mér þótti skemmtileg, góðlegasta andlitið á lérefti. Þegar ég kom heim með hana fylltust heimilismenn skelfingu og vildu helst forðast myndina. Á henni er andlit á stjörnu eða tígli. Svolítið stórkallalegt, en ekki illilegt fannst mér. Svo vandist fólk myndinni og hún komst upp á vegg. Ég held að fleirum en mér finnist vænt um hana núna.


Þegar við hittumst aftur rúmu ári síðar mundi Gunnar vel eftir myndinni. „Æskuminning,“ sagði hann. „Flugdreki með andliti máluðu á.“ Mér fannst það passa vel og nú hafði ég líka fengið skýringu á uppruna myndarinnar.


Geir Gunnarsson alþingismaður hafði orð á sér fyrir að vera heiðarlegur maður. Það atvikaðist svo að við lentum saman í stjórn Skipaútgerðar ríkisins árið 1991. Í stjórninni voru þrír menn, tveir kommar og ég. Geir var skipaður til fjögra ára af Ólafi Ragnari held ég og Kristinn H. Gunnarsson af Steingrími Sigfússyni. Þeir voru ósnertanlegir þegar Halldór Blöndal varð samgönguráðherra og vildi taka til í Skipaútgerðinni.


Það var augljóst að ég gat ekkert gert einn í stjórninni og ákvað að hringja í Geir og biðja hann að hitta mig í fjármálaráðuneytinu. Ekki veit ég hvers vegna því að þar var ég enginn húsráðandi, en hef líklega treyst því að Friðrik Sophusson myndi ekki henda mér út. Þar sagði ég Geir að við yrðum að stöðva lekann úr ríkissjóði í gegnum Skipaútgerðina en hann var að meðaltali milljón króna á dag. Það jafngildir um tveimur milljónum núna.


Fundurinn var ekki langur. Ég hlýt að hafa talað við Geir einhvern tíma áður þó að ég muni það ekki. Að minnsta kosti vissi hann hver ég var og tók mér afar vel. Enda fór það svo að hann stóð með mér í öllu því sem fylgdi, en tæplega þremur mánuðum seinna var búið að selja eða leigja öll skip Skipaútgerðarinnar og í raun leggja starfsemina niður.


Okkar fyrsti fundur var í nóvember ef ég man rétt. Mánuði seinna hitti ég Geir í sjötugsafmæli Snæbjörns Jónassonar frænda míns sem var vegamálastjóri. Þá kom Geir til mín og sagði að nú yrði ég að fara að drífa mig og vera með plan. Um þetta leyti hafði ég gert upp hug minn um að skynsamlegast væri að ræða við Samskip um að félagið tæki við rekstrinum og mun hafa imprað á því við Geir. Hann tók því vel.


Síðasti fundur stjórnarinnar fjallaði um ýmis konar frágangsmál. Þar kom meðal annars fram erindi frá starfsmönnum um að fyrirtækið veitti hundrað þúsund króna styrk til árshátíðar. Ég gerði það af skömmum mínum að koma ekki með tillögu um afgreiðslu á erindinu heldur lagði það fyrir stjórn til umræðu. Kristinn tók fyrstur til máls og japlaði fram og til baka um umsóknina en endaði á því að erfitt væri að fallast á svona styrkbeiðni. Ég kom þá inn í og sagðist sammála Kristni að við ættum að hafna beiðninni.


Kristinn samsinnti því strax, en Geir sá hvert ég ætlaði og sagði ekkert þangað til að ég botnaði setninguna og sagði að sjálfsagt væri að fyrirtækið greiddi þessa síðustu árshátíð að fullu. Geir studdi það og leiddist ekkert að Kristinn hefði verið plataður.


Ég hitti Geir stundum eftir þetta og reyndi hann alltaf sem sama heiðursmanninn.


Benedikt Jóhannesson

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.