Kannski verður hann drepinn (BJ)

Pistlar


Hillary Clinton er sérstæð kona. Enginn þarf að efast um að hún sé vel gefin, hún er kappsfull og á auðvelt að koma fyrir sig orði. Hins vegar má spyrja sig hve góð dómgreind hennar er. Bæði hún og Bill virðast vera sannfærð um að þau eigi heilagan rétt á forsetaembættinu. Obama hafi stolið því frá þeim með því að vera svertingi. Því „hver hefði áhuga á honum ef hann væri hvítur?“ eins og Geraldine Ferraro, stuðningsmaður Hillary orðaði það svo smekklega.


Bill Clinton var að mörgu leyti gallagripur, sem langaði til þess að feta í fótspor Kennedys í Hvíta húsinu. Ekki með því að skilja eftir sig neina tímamótalöggjöf heldur með því að ná að sofa hjá einhverri annarri en konunni sinni í Hvíta húsinu. Helst sem flestum. Sú saga er heldur dapurleg en kom okkur eiginlega ekkert við. Ef hann hefði einfaldlega svarað því á sínum tíma að hann virti spurningar um sitt einkalíf ekki svars þá hefði hann aldrei lent í því að fulltrúadeildin ákærði hann fyrir meinsæri. En Clinton hjónin eiga ómögulegt með að viðurkenna að þau geri eitthvað rangt.


Þó að ég játi fúslega að mér hefur alltaf verið heldur lítið um Clinton hjónin gefið er tvennt sem mér hefur þótt jákvætt við þau. Það fyrra var eigingjarnt af minni hálfu. Þegar Hillary Clinton kom á kvennaráðstefnu á Íslandi var ákveðið að hún og hennar fylgdarlið fengju aðeins upplýsingabæklinga frá Heimi hf. Ástæðan var sú að ég hef aldrei viljað leyfa auglýsingar frá nektarbúllum í okkar blöðum. Keppinautarnir höfðu hins vegar ekki þennan standard. Það var talið óæskilegt að Hillary og fylgdarlið læsu bæklinga með auglýsingum frá Club Clinton sem þá starfaði í miðbæ Reykjavíkur.


Seinna skiptið var þegar Clinton hjónin heimsóttu Davíð Oddsson eftir að hann veiktist sumarið 2004. Það fannst mér fallegt af þeim, vinarbragð alls ekki gert í eiginhagmuna- eða auglýsingaskyni.


Það var mikið áfall fyrir Hillary þegar Obama gaf kost á sér og fékk mikið fylgi í prófkjörum og forkosningum. Hjónin hafa beitt ýmsum brögðum til þess að klekkja á Obama. Bill líkti honum við Jessy Jackson, svartan prest sem bauð sig fram í prófkjörum en náði ekki miklum árangri. Þegar stuðningsmenn Obamas kvörtuðu sagði Bill að þeir beittu hann (þe Bill) kynþóttafordómum. Hjónin hafa ítrekað gert lítið úr reynslu Obama sem jafnist ekki á við reynslu Hillary. Henni varð það á að segja að hún hefði lent í skothríð í Bosníu. Svo sagði hún að henni hefði orðið á mismæli. Það virðist, uh ... líkleg skýring.


Undanfarnar vikur hefur verið augljóst að Hillary myndi tapa. Fyrstu viðbrögð hennar voru að bjóða Obama að verða varaforsetaefni sitt. Henni fannst það algerlega eðlilegt að sá sem hefði færri kjörmenn yrði forsetaefni.


Það skrítna er að henni finnst það enn. Bandarískir fjölmiðlar hafa reynt að hlífa henni, því satt að segja var málflutningurinn orðinn brjóstumkennanlegur og smám saman hefur sviðsljósið horfið af henni. Morgunblaðið virðist að vísu halda að baráttan sé enn spennandi, en það segir meira um Morgunblaðið en stöðuna í kosningunum.


Á föstudaginn var bárust fréttir af því að Bill teldi að best væri fyrir Hillary að verða varaforsetaefni Obamas. Sama dag var Hillary spurð hvers vegna hún héldi áfram vonlausri baráttu. Hún svaraði: „You know my husband did not wrap up the nomination in 1992 until he won the California primary somewhere in the middle of June, right? We all remember Bobby Kennedy was assassinated in June in California. You know, I just don’t understand it and there’s lot of speculation about why it is.“


Það er nefnilega það. Bobby Kennedy var drepinn. Kannski verður Obama líka drepinn. Meinti Hillary þetta? Líklega ekki, en orðavalið var óheppilegt.


Best hefði verið að biðjast afsökunar, en afsökunarbeiðni þýðir mistök. Clinton hjónunum verða ekki á mistök. Nú hefur Hillary ráðist á kosningavél Obamas fyrir að hafa rangtúlkað orð sín. Kosningastjóri Obamas hafði sagt að orðin væru óviðeigandi. Einhvern veginn finnst manni það ekki mjög sterkt til orða tekið. En af því að Hillary er betri frambjóðandi og Kennedy var drepinn („ég benti bara á sögulega staðreynd, “ sagði Hillary) þá var þetta allt mjög vel við hæfi að mati þeirra hjóna.


Á endanum breytir þetta engu. Obama verður frambjóðandi Demókrata. Það er ekkert víst að hann vinni McCain. En ætli Hillary verði varaforsetaefni eftir þetta? Ég er ekki alveg viss um að maður vildi hafa varaforseta sem ,,mismælir'' sig svona oft.Benedikt Jóhannesson

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.