Gunnar ekki í klíkunni (JGH)

Pistlar


Ég hef aldrei litið á mig sem klíkukarl þó eflaust hafi ég verið í einhverjum klíkum um ævina. Það voru klíkur í gaggó; aðallega í kringum þá sem reyktu. Það voru klíkur í menntó; listaklíkur og bridgeklíkur. Ég var í mjög litlum bekk í menntó, þar var ekki hægt að mynda neinar klíkur. Eftir á sé ég að bekkurinn var klíka og stóð þétt saman þegar að honum var vegið. Við litum samt á okkur sem bekkjarfélaga en ekki klíkufélaga.Ólafur Jóhannesson, fyrrum forsætis-, dóms- og kirkjumálaráðherra, sagði eitt sinn um Vísis-klíkuna undir forystu Þorsteins Pálssonar, þáverandi ritstjóra Vísis, að hún væri Vísis-Mafía. „Mafía er hún og mafía skal hún heita,“ sagði Ólafur þegar gengið var á hann í umræddum útvarpsþætti þar sem hann lét þessi orð falla. Óli Jó var dæmdur fyrir þessi orð sín; fékk dóm sem ráðherra þó ekki hefði hann sagt af sér í pólitík fyrir vikið. Þjóðin skildi vel hvað Óli Jó var að fara með því að segja mafía. Það fannst öllum þetta saklaust, hann væri að meina klíku og þetta væri klíkan í kringum þá á Vísi en blaðið var mjög hart í fréttaflutningi af Geirfinnsmálinu og skrifaði Vilmundur heitinn Gylfason á þessum tíma nokkra snarpa og eitraða pistla í Vísi um Óla Jó, Klúbbinn og Geirfinnsmálið. Þetta var allt ein stór klíka í kringum Klúbbinn og Framsóknarflokkinn að hans hans mati.Gunnar er ekki „í klíkunni“, stóð í Mogganum. Mér var brugðið. Gunnar Svavarsson, foringi krata í Hafnafirði og formaður fjárlaganefndar, ekki í klíkunni og ætlar ekki að bjóða sig fram til alþingiskosninga. „Í klíkunni“ merkti í klíku Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Hann var ekki í náðinni hjá henni og átti ekki kost á ráðherrastól. Ágúst Ólafur Ágústsson, varformaður Samfylkingar, var heldur ekki „í klíku“ Ingibjargar Sólrúnar. Hann er líka að hætta í pólitík. Raunar er ekki alveg komið á hreint hvort Ingibjörg Sólrún fari fram af heilsufarsástæðum og sé sjálf í klíkunni. Mér finnst að Gunnar Svavarsson, sem aðeins hefur setið í um tvö ár á þingi, hefði átt að láta betur á ráðherrastólinn reyna. Kannski geta sumir orðið ráðherrar án þess að fá djobbið í gegnum klíkuskap, ég held samt ekki.Ég hef að minnsta kosti einu sinni verið ráðinn í vinnu í gegnum klíkuskap. Ég fékk vinnu hjá pabba  í byggingarvinnu, sumar eftir sumar. Handlangaði, skrapaði timbur og steypti. Æskufélagar mínir öfunduðu mig. „Þetta er nú meiri klíkuskapurinn,“ sögðu þeir. „Ég er í klíkunni,“ svaraði ég hróðugur. Ég var ekki sá eini sem fékk sumarvinnu í gegnum klíku í gamla daga. Það virtust allir unglingar fá vinnu í gegnum klíku. Pabbi þinn þekkti mann sem þekkti mann sem þekkti mann og þú fékkst vinnu sem sendill, á bensínstöð, í malbikinu, í byggingarvinnu eða annars staðar. Börn fóru í sveit í gegnum klíkuskap, þótt aldrei hafi verið talað um barnaþrælkun á þessum tíma.Klíkuskapur heitir núna gott tengslanet. Allir þekkjast, þú varst með þessum í barnó, gaggó, menntó, háskólanum og boltanum. Síðan fórstu í Lions, Rotary, Kiwanis, Oddfellow og Frímúraregluna. Þú átt frændgarð og ert frændi einhvers ágæts manns, sem svo aftur er frændi þinn. Sagði ekki Kári klónari að allir Íslendingar væru skyldir í sjöunda- eða áttunda lið. Það merkir að við Íslendingar erum ein stór klíka.Flokksræðið á Íslandi er klíkuskapur. Flokkarnir eru sterkar klíkur. Núna gengur fólk aftur í flokka til að fá vinnu í gegnum klíku. Þeir hafa ráðið í stöður og veitt bitlinga út og suður. Núna er rætt um að ráða seðlabankastjóra. Enginn hefur nokkra trú á öðru en að hann verði ráðinn í gegnum klíkuskap, þ.e. ef viðkomandi er „í klíkunni“ – sem Gunnar Hafnfirðingur er ekki í.Engan klíkuskap! Það á að auglýsa stöðuna, segir Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður viðskiptanefndar. Fyrst átti umsækjandi að vera með meistarapróf í hagfræði. Sniðið fyrir klíkukarlinn, sagði fólk. Núna er Álfheiður að baksa með þetta seðlabankafrumvarp fram og til baka og niðurstaðan er að umsækjendur mega vera með „tengdar greinar“, t.d. dæmis viðskiptafræði, rekstrarhagfræði, fjármálaverkfræði, fjármálastærðfræði, tölfræði við hagrannsóknir, fjármálafræði, viðskiptalögfræði og fleira. Það endaði auðvitað sem öll flóran. En þegar ráðið verður í stólinn verður þú að vera í klíkunni.Klíkur hafa þau einkenni að hleypa ekki nema útvöldum inn í klíkurnar; annars er ekkert varið í að vera í klíku. Þess vegna finnst sumum að klíkur leggi sig í einelti.Ég ætla svo að hringja í Kaupþing og kaupa nokkra bíla af þeim. Gera bankanum stóran greiða með því að losna við bílana. Það er ekki oft sem maður getur gert fátækum banka greiða. Annars hefðu bílarnir ryðgað niður. Mér leiðist samt klíkuskapur, það er þegar ég er ekki í réttri klíku eða kemst ekki í réttu klíkuna. Ég er Íslendingur.Jón G. Hauksson


[email protected]


 

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.