Tuggur metta ekki munna (JGH)

Pistlar


Það er að renna upp fyrir fólki að gamlar tuggur metta ekki munna.  Það hefur enga þýðingu fyrir fólk, sem er að fara á höfuðið, að heyra í Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra koma með frasa um að auka þurfi upplýsingagjöfina í þjóðfélaginu, slá þurfi skjaldborg utan um heimilin, efla þurfi ráðgjafastofur, lengja þurfi í lánum, bæta þurfi greiðsluaðlögun og þessar endurteknu klisjur um að „skoða málin“. Þolinmæði fólks er á þrotum. Það vill aðgerðir. Það vill stýrivexti niður í 0,5% til að hleypa nýju lífi í fyrirtækin og styrkja þannig heimilin og ríkissjóð. Það vill sjá raunvexti húrrast niður og að hugsað sé um fleiri en sparifjáreigendur. Það vill sjá bankana endurfæðast. Það vill sjá kröftugan 50 milljarða niðurskurð á fjárlögum sem ekki tekst að ná nema lækka laun ríkisstarfsmanna. Undan niðurskurði fjárlaga verður ekki komist. Það verður erfiðasti biti ríkisstjórnarinnar. Margir hallast núna að því að vandinn sé svo mikill að stjórnmálamenn ráði ekki við hann – enginn stjórnmálamaður; hvað þá sú ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sem kynnt verður til sögunnar um helgina. Blöðrurnar verða margar á Nasa þegar Jóhanna stígur þar á stokk um helgina. En burðug verður ekki hina nýja stjórn. Hugsið ykkur; hún ætlar að lenda ESB-málinu með því að senda það til Alþingis. Þetta var heilagasta mál Samfylkingar í kosningabaráttunni og Vinstri grænir mótmæltu því kröftuglega. Samt keyrði Samfylkingin á þessu máli í kosningabaráttunni. Og útkoman? Jú, Samfylkingin myndar nýja ríkisstjórn með Vinstri grænum en ætlar í annað stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokk og Framsókn um ESB-málið. Er nú líklegt að þessir flokkar faðmi Samfylkinguna að sér og dragi hana að landa í þessu máli? Þetta er svo ódýr redding að þorri fólks er orðlaus. Þetta er hvorki boðlegt né vænlegt til samstöðu og langvarandi samstarfs. Þessi stjórn getur ekki komið sér saman um neitt - nema jú að setjast að völdum. Hún er langt frá því að vera samhljóma. Hún verður sprungin um áramótin.Bæði Samfylking og Vinstri grænir hömruðu á því í kosningabaráttunni að innleysa þyrfti veiðiheimildir hjá útgerðum landsins og koma þeim til fólksins, í hendur þjóðarinnar. Þetta var sett inn í ýmsa skrautlega pakka en algengasta orðalagið var „fyrningaleið“ og að „taka þyrfti á sægreifunum.“ Þetta friðaði kommana í pósthólfi 101 og var bara nokkuð vænlegt til að veiða atkvæði. Menn þreyttust samt ekki á að benda flokkunum tveimur á að sjávarútvegurinn skuldaði næstum 500 milljarða og þar af væru um 250 milljarðar vegna þess að útgerðir hefðu keypt kvóta af öðrum útgerðum til að fækka fyrirtækjum í sjávarútvegi og hagræða í greininni. Það væri útilokað að hjóla í sjávarútveginn undir þessum kringumstæðum og bankakerfið myndi hrynja ef útgerðir landsins færu á hausinn. Eftir allt bramboltið ætlar ný stjórn að ýta þessu máli frá sér og bíða að sinni. Sem betur fer, segi ég. En svona tuggur fyrir kosningar eru ekki boðlegar.Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra er vinsælasti stjórnmálamaður landsins. En sú spurning verður áleitnari með hverjum deginum á meðal almennings hvort hún ráði við það erfiða verkefni að leiða nýja ríkisstjórn. Er hún rétta manneskjan til að stappa stáli í þjóðina við þær aðstæður sem núna eru? Hún var að minnsta kosti ekki foringjaleg daginn eftir kosningarnar þegar Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Jakobsdóttir sóttu hana heim og sjónvarpsfréttamaður náði tali af henni þar sem hún nánast faldi sig á bak við hálfopna hurðina og sagði fælin að ekkert væri að frétta. Takið eftir: Við erum að ræða um leiðtoga þjóðarinnar sem hafði unnið kosningasigur um nóttina. Þetta sló mig ekki vel.Þegar búsáhaldabyltingin var gerð á Austurvelli var hrópað eftir nýju Íslandi. Það fór mest í taugarnar á fólki að upplýsingum væri haldið leyndum og hve úrræðaleysi stjórnvalda væri algjört. En það hefur ekkert breyst. Að vísu þagnaði Austurvöllur um leið og Vinstri grænir komust í stjórn, enda var það séð fyrir. Stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gerði ekkert og var máttlaus eftir bankahrunið. Minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur ekki heldur gert neitt til að endurreisa atvinnulífið. Og sannið þið til; meirihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, sem kynnt verður með lúðrablæstri og litríkum blöðrum um helgina, mun heldur ekki gera neitt.Frasarnir um upplýsingagjöfina, ráðgjafastofurnar, lánalengingar og skjaldborgirnar láta ekki eins vel í eyrum og áður. Atvinnulífið verður að komast í gang. Gamlar tuggur metta ekki munna.Jón G. Hauksson


jgh@heimur.is


 

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.