Er það satt? Snæfellsáss? (BJ)

Pistlar


Best að segja það strax. Í þessum pistli kem ég ekki út úr skápnum sem Evróvision-aðdáandi. Samt horfði ég á mestallan þáttinn á laugardaginn. Eftir það er ég í sjokki. Hvers vegna á að banna súludans í Kópavogi þegar efnt er til semi-pornsýningar í sjónvarpi allra landsmanna? Hins vegar gerði ég á sunnudag svolítið merkilegt. Ég gekk á Snæfellsjökul.


Fyrst söngvakeppnin. Flestir virtust telja að sjóvið skipti miklu meira máli en flutningurinn. Það voru bara Íslendingar sem voru með kjóla sem létu tágrannar konur líta út eins og þær væru vel aldar. Malta beitti reyndar sama bragði. Aðrir gættu þess að mikill blástur léti flytjendur líta út eins og þeir væru að berjast gegnum fellibyl. Konur í slíkum aðstæðum hafa um annað að hugsa en að halda efnislitlum kjólum sínum niðri. Ég held að öllum konunum hafi tekist að halda viðamiklum barmi sínum innan klæða, þó að sundum munaði ekki miklu að hann færi í frjálst flæði. Hins vegar hygg ég að mjög margar þeirra þyrftu ekki langa dvöl í æfingabúðum áður en þær fengju að troða upp í listdansakademíu verksmiðjuhverfisins í Kópavogi.


Karlmennirnir voru ekki allir jafnheppnir með sín atriði. Gríska listamanninum tókst alls ekki að hemja sínar eggjandi geirvörtur innan skyrtu, en hann var reyndar svo óheppinn að tölur vantaði á í hálsmálinu, þannig að honum var vorkunn. Svo sýndist mér að illa hafi staðið á hjá honum á viðkvæmum stað, að minnsta kosti virtist hann títt þurfa að klóra sér þar sem menn yfirleitt halda aftur af sér í beinni útsendingu.


Andrew Loyd Webber spilaði á píanó nýtt lag sem hann hefur samið hundrað sinnum áður. Mér fannst verst að söngkonan kyssti hann ekki. Hann hefði getað breyst í fallegan prins.


Innflutti Norðmaðurinn var svakalega sætur. Hann flutti lag sem var alveg eins og mörg önnur lög og svo spilaði hann á fiðlu. Ég legg til að næst sendum við Baltasar Kormák og kennum honum á harmonikku. Pottþéttur sigur.


Sem sé, ég kaupi ekki DVD-diskinn með Evróvisjón. Mér fannst það svolítið leiðinlegt að einu Íslendingarnir sem enn segja Júróvisjón eru Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.


Allt annað mál.


Snæfellsjökull er gæddur slíku dulmagni að þangað safnast furðufuglar og bíða eftir lendingu geimskipa eða vilja fá úr jöklinum hleðslu á andlegar rafhlöður sínar. Skáld hafa hrifist af honum frá fornu fari, í skjóli hans hafa þrifist Bárður Snæfellsáss, Axlar-Björn, mesti fjöldamorðingi Íslandssögunnar, Jón Prímus og Arne Saknussemm, svo fáir einir séu nefndir, þessa heims og annars.


Fyrir utan þessa merku menn sem oft hafa orðið á vegi mínum hef ég haft sérlegan áhuga á jöklinum vegna þess fallegur hann er. Hann er á lista um fjöll sem mér finnst ég verða að hafa gengið á. Fjöll á listanum eru:Hekla


Hvannadalshnjúkur


Eyjafjallajökull


Skjaldbreið


Snæfell


Herðubreið


Snæfellsjökull


Kerling


Yfirstrikun þýðir að verkefninu sé lokið.


Á laugardagseftirmiðdegi var ljóst að sunnudagurinn yrði frábærlega fallegur dagur á Vesturlandi. Því segi ég við Vigdísi: Er þetta ekki tíminn fyrir Snæfellsjökul?


Við höfum áður haft góð áform en ekki litist á veðrið. Það er ekki gaman að ganga á falleg fjöll í þoku. Tek það aftur. Það er miklu skemmtilegra að ganga á tígulega tinda í góðviðri en úrhelli.


Þessi tillaga var umsvifalaust samþykkt. Við töldum bæði liklegt að á svona fallegum degi vildu margir leggja jökulinn að fótum sér og ég hringdi í fyrirtæki sem sérhæfir sig í ferðum á Snæfellsjökul.


Þar varð indæl kona fyrir svörum. Nei, engar gönguferðir voru skipulagðar en hún taldi að ekki væri mikið um sprungur. Flestir koma niður eftir sex tíma, sagði hún.


Flestir koma niður. Hvað átti hún við með því? Einhverjir koma ekki niður. Líklega þýðir „flestir“ svona um það bil tvo af hverjum þremur. Af því að við Vigdís erum bara tvö ætti það að þýða nokkuð góðar líkur á því að við kæmust bæði niður að mestu leyti.


Sunnudagsmorguninn var jafnfallegur og laugardagskvöldið þannig að við drifum okkur af stað. Reyndar ekki fyrr en milli tíu og hálf ellefu, en teningunum var samt kastað.


Rétt áður en maður kemur að Arnarstapa liggur vegur til hægri. Skiltið við veginn segir manni að sjö kílómetrar séu að jöklinum. Þetta er ágætur jeppavegur en ekki gott að mæta bílum sums staðar. Við mættum einum, en það var á góðum stað. Svo fórum við framúr öðrum af því að okkur lá svo á.


Eftir nokkurn akstur fer maður framhjá Sönghelli (Singing Cave samkvæmt skilti við veginn) sem við gengum að á bakaleiðinni. Í honum er fallegt bergmál. Skömmu síðar komum við að flota vélsleða. Þar stoppuðum við, en betra hefði verið að stoppa aðeins ofar, þar sem slóðar frá veginum byrja. Leiðin styttist við það um kortér í heild.


Við héldum af stað, hress og kát, og höfðum ekki gengið lengi þegar við mættum fyrstu skíðamönnum á niðurleið. Þetta reyndist vera Ottó endurskoðandi og félagið hans. Þeir sögðu okkur að ferðin tæki þrjá tíma og kortér og hefði verið greiðfær. Hér og þar í jöklinum sáum við fólk, allt skíðafólk á upp eða niðurleið. Við Vigdís vorum ein um að vera á tveimur jafnfljótum.


Fljótlega mættum við öðrum. Sá spurði hvort þar færi ekki Benedikt Zoëga og þegar ég játti því sagðist hann vera Þórarinn Ingólfsson. Föðurbróðir hans, Sigurður, hafði verið með pabba úti í Þýskalandi í stríðinu, en lést úr hvítblæði um mánuði eftir að hann kom heim. Við höfðum orð á því að Siggi bróðir héti í höfuðið á Sigurði og Þórarinn svaraði að bragði: „Já, Siggi Zoëga.“ Kvöddumst við svo og okkur óx bjartsýni við það að sjá hve hressir menn voru á niðurleiðinni.


Gangan skiptist í þrjá kafla. Fyrsta klukkutímann gengum við að brattri brekku. Við ákváðum að fara sunnanmegin í hana til þess að losna við mesta brattann. Fylgdum þar slóð fólks sem var rétt á undan okkur. Þetta gekk vel.


Brekkan sjálf var erfiðari. Eins og margar brekkur af þessu tagi var hún lengri en manni sýndist. Fólkið á undan okkur fór vinstra megin framhjá leiti, en við hægra megin því að þar voru sleðaslóðir. Okkur sýndist okkar leið líka stefna beint á tindinn. Það var rétt, nema hvað það var rangur tindur.


Um það leyti sem við komumst upp brekkuna mættum við manni á skíðum. Hann sagði ekki til sín en spurði: „Ætlið þið að ganga á tindinn í dag?“ Honum leist greinilega ekkert á ferðalag okkar. Við játtum því. Í óspurðum fréttum sagði hann okkur að við værum ekki hálfnuð og að það væri kalt á toppnum. Eiginlega var þetta ekki hvatningin sem við þurftum. Svo spurði hann hvort við hefðum nóg að borða og drekka og kvaddi.


Samkvæmt klukkunni vorum við búin með nærri tvo þriðju hluta leiðarinnar og það reyndist rétt. Okkur datt í hug á eftir að þessi hugulsami maður hefði farið upp á toppinn í snjóbíl og ekki áttað sig á vegalengdum. En eftir þetta hékk efinn stöðugt yfir.


Á brekkubrún, sem loksins kom, sáum við réttan topp langt í fjarska. Kosturinn var þó sá að leiðin að honum var tiltölulega flöt sýndist okkur. Eftir stutt stopp héldum við í hann. Svitinn bókstaflega lak af okkur. Ég var með sólgleraugu sem lágu þétt að. Þau fylltust stöðugt af móðu. Þess vegna þurfti maður oft að þurrka af þeim og oft að fá sér að drekka. Á ferðinni drakk ég á þriðja lítra og mátti ekki minna vera.


Sem ég var að þurrka af sólgleraugunum og drekka fjarlægðist Vigdís stöðugt. Það sem mér fannst verst var að tindurinn virtist líka vera heldur lengra í burtu í hvert skipti sem ég leit upp. Mér var orðið kalt á tánum og fór að hugsa um það hvort það yrðu mikil örkuml ef ég missti einhverjar tær. Leit aftur upp og sá að Vigdís hafði stoppað. Herti gönguna og eftir drykklanga stund leit ég upp aftur. Vigdís var enn kyrr en töluvert lengra frá mér en áður. Ég velti því fyrir mér hvort ég væri lentur á skriðjökli sem stöðugt ylti fram í áttina frá Vigdísi.


Vélarhljóð rauf kyrrðina. Framhjá okkur ók snjóbíll sem fór hægt yfir en stakk okkur þó auðveldlega af. Ég leit stöðugt á klukkuna og það var svolítil uppörvun því að sífellt gekk á þriðja tímann. Sem betur fer hugkvæmdist mér aldrei að ótæpileg stopp hjá mér gætu breytt þessari grundvallarviðmiðun. Í þunna loftinu mundi ég það eitt úr eðlisfræðinni að tími er sama og vegalengd.


Loks náði ég Vigdísi. Þá voru tíu mínútur eftir og við létum okkur hafa það. Snjóbíllinn kom aftur niður og á eftir honum nokkrir skíðamenn sem vildu ekkert við okkur tala. Efst eru tveir toppar. Annar eins og tvær ískúlur en hinn líkari Matterhorn. Hann er miklu hærri. Þó kannski ekki nema 4-50 metrar. Undir kúlunum lá fólkið sem við höfðum séð allan tímann. Þau drukku kaffi og nutu lífsins.


Við höfðum hins vegar ekki komið til þess að njóta lífsins heldur lögðum í toppinn. Snjórinn hafði á þessu stigi málsins breyst í íshröngl og var erfiður. Í fjallabókinni var sagt að þar gæti þurft mannbrodda. Það reyndist rétt og þar sem við höfðum þá ekki urðum við að snúa við eftir að við vorum komin liðlega hálfa leið. Ottó og félagi höfðu sagt okkur um að um morguninn hefði snjórinn verið mjúkur og þeir komust upp, en um leið og sólar naut ekki lengur á þessa hlið breyttist snjórinn í einskonar frostrósir. Við röltum niður aftur. Hinn tindurinn sem við sjáum frá Reykjavík sést illa. Ég þorði ekki út á brún af ótta við að lenda á snjóhengju og pompa niður, þannig að ég rétt sá glitta í hann.


Niðurleiðin var greið, en nú hafði snjórinn bráðnað talsvert þannig að við sukkum lengra niður en svo að þægilegt væri að ganga. Samt sáum við engar sprungur. Mér skilst að sprunguhætta aukist eftir því sem líður á sumarið.


Allt í allt tók ferðin úr bíl í bíl fjóra tíma og fimmtíu og fimm mínútur. Sem fyrr segir hefði mátt skerða það um stundarfjórðung.


Fín ferð í stórkostlegu veðri.Snæfellsjökull.Benedikt Jóhannesson

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.