Sérhlífin ríkisstjórn (JGH)

Pistlar


Ég veit ekki hverjir eru ráðgjafar þessarar stjórnar - en þeir eru slæmir. Í stað þess að hlúa að atvinnulífinu, sjálfri uppsprettunni,  fer stjórnin gegn fyrirtækjum af miklu afli og stuðlar að frekara hruni þeirra og stórauknu atvinnuleysi. Á sama tíma segir forsætisráðherra á sjálfan þjóðhátíðardaginn „að kreppan verði stutt og minnst verði þjóðar sem ekki lét draga úr sér kjark“. Það fjarar hratt undan Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra. Það vantar mikið á verkstjórnina og forgangsröðunina hjá henni. Hvers vegna heykist hún við að skera kröftuglega niður í ríkisfjármálum? Eftir hverju er hún að bíða? Viðkvæðið er að allt verði gert seinna þegar kemur að ríkisfjármálum.Jóhanna segir að Icesave-samingur sé nauðsynlegur og óhjákvæmilegur. Stjórnvöld hafa staglast á því að við Íslendingar ættum enga aðra kosti en að samþykkja. Það er rangt. Það er hægt að semja upp á nýtt og á öðrum nótum. Þetta er óútfylltur tékki, sem gæti farið í næstum 1.000 milljarða króna, fari allt á versta veg. Enda fór skjálfti um Alþingi þegar upplýst var um Icesave-samninginn og lögfróðir menn bentu á að svo gæti farið að Ísland yrði tekið upp í skuld þegar þar að kæmi; að Ísland yrði að standa við skuldbindingu sína með náttúruauðlindum sínum. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði það af og frá.Það eru ellefu gjaldfellingarákvæði í Icesave-samningnum og útgönguákvæði er ekki afdráttarlaust. Í umræðum á Alþingi kom fram að þær aðstæður gætu skapast ef til greiðslufalls kæmi af hálfu ríkissjóðs Íslands að Bretar og Hollendingar gætu hugsanlega gengið að eignum íslenska ríkisins, einkum erlendis. Fram kom í Morgunblaðinu að Magnús Thoroddsen, hrl. og fyrrverandi forseti Hæstaréttar, teldi ákvæðið í samningunum geta þýtt afsal fullveldis og að því leyti teldi hann samninginn ekki fullnægjandi fyrir Ísland. Ýmsir lögmenn eru ekki sammála Magnúsi. Ég ætla að endurtaka mig frá fyrri pistlum: Alþingi, ekki skrifa undir.Mér heyrist að kjósendur þessarar ríkisstjórnar séu margir hverjir farnir að fá mikla bakþanka. Ég skil það vel. Stjórnin er atkvæðalítil og ákvarðanafælin. Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, orðaði þetta ágætlega í útvarpsþætti á dögunum þegar hann sagði að ríkisstjórnin væri sérhlífin. Hún hlífir sjálfri sér við að skera niður í ríkisrekstri en leggur auknar álögur á fyrirtæki og fólk með aukinni skattheimtu. Hærra tryggingagjald verður t.d. til þess að fyrirtæki segja frekar upp fólki. Ríkisstjórnin er því að auka á atvinnuleysið. Þess utan hefur aukin skattheimta mjög niðurdrepandi andleg áhrif á atvinnulífið og fólkið í landinu – það er úr minna að spila í einkageiranum þegar ríkið tekur meira til sín. Þá hækkar ríkisstjórnin fjármagnstekjuskatt úr 10% í 15% og telur sig þar komast í miklar auðlindir, einmitt þegar allir fjármagnseigendur eru á hausnum og hafa engar fjármagnstekjur.Ríkissjóður virðist heilagur hjá þessari ríkisstjórn. Ríkisstarfsmenn eru sömuleiðis heilagir; það er ekki stuggað við launum þeirra. Einkageirinn byrjaði að lækka laun í október sl., eða fyrir níu mánuðum. Ekki ríkið. Lífeyrisjóður ríkisstarfsmanna er heilagur á meðan að lífeyrissjóðir einkageirans þurfa að skerða lífeyri eftir hrunið. Ríkið er flott á því og greiðir barnabætur til fólks með þokkalegar tekjur. Þá gerast fjöldi foreldra „ríkisstarfsmenn“ tímabundið í gegnum fæðingarorlofið. Auðvitað þarf að skerða fæðingarorlofið; það er kreppa. Þá hefur ríkisstjórnin ekki kraft og vilja til að lækka vexti í landinu með handafli.Ég hélt lengi vel að umræðan um sykurskattinn væri lélegur brandari. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að skattur á kex og gos fari úr 7% í 24,5%. Það merkir að gosflaska sem hefur kostað 107 krónur fer núna í 125 krónur. Þetta er 17% hækkun. Með þessu er ríkisstjórnin að rústa matvælaframleiðendum í landinu; Vífilfell, Ölgerðin, Nói, Góa, Freyja og fleiri fyrirtæki fá blauta tusku stjórnarinnar beint framan í sig. Ríkisstjórnin segir að „tekjur ríkissjóðs“ aukist um 2,5 milljarða á ári við þetta. Það er eins og stjórnin og ráðgjafar hennar skilji ekki orðið teygni í hagfræðinni. Heldur ríkisstjórnin að neysla á gosi og sælgæti minnki ekki við 17% hækkun á einu bretti? Við blasir að hundruð starfsmanna matvælaframleiðenda verða atvinnulausir á næstunni.Ríkisstjórnin grípur til þess ráðs að draga úr vegaframkvæmdum. Vegaframkvæmdir skapa hins vegar vinnu og viðhald á vegakerfinu er nauðsynlegt fyrir ferðaþjónustuna svo hægt sé að taka á móti erlendum ferðamönnum sem koma færandi hendi með gjaldeyri og byggja upp atvinnulífið.Það hefur legið fyrir í langan tíma að ríkissjóður þyrfti að skera niður. Fjálagahallinn verður um 170 milljarðar á þessu ári og honum þarf að ná niður á næstu árum. Ríkisstjórnin orðar það sjálf svo að hún ætli ekki að grípa til harkalegra aðgerða á þessu ári heldur síðar. Það er alltaf á morgun hjá þessari ríkisstjórn. Skilur hún ekki að vandinn hrannast upp ef ekki er tekið á honum núna og verður erfiðari viðfangs síðar? Það liggur í loftinu að það verður enginn venjulegur niðurskurður hjá ríkissjóði, en það verður síðar.Ríkisstjórnin hækkar skatta á fyrirtæki og gerir þeim erfiðara fyrir að starfa. Hún hækkar verð á kexi, sælgæti, gosi, bensíni, áfengi og sígarettum – og heldur að ekkert dragi úr sölu á þessum vörum – en um leið hækkar hún vísitöluna og þar með skuldir heimila, fyrirtækja og ríkissjóðs sjálfs. Hún fer í vasa annarra í stað þess að skera niður.Hvers vegna getur ríkisstjórnin ekki byrjað að skera niður líkt og öll heimili og fyrirtæki byrjuðu að gera fyrir níu mánuðum eftir að bankarnir féllu? Eftir hverju er hún að bíða? Við höfum bæði heilagan ríkissjóð og heilaga Jóhönnu.Jón G. Hauksson[email protected]


 

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.