Orginallinn af Steingrími Joð (JGH)

Pistlar


Hvar ætli orginallinn af Steingrími J. Sigfússyni sé geymdur? Nýi Steingrímur er mjög ólíkur orginalnum; sá nýi er hræddur. Hann er hræddur við að styggja útlendinga – sérstaklega Breta og Hollendinga sem hafa sýnt okkur slíka óbilgirni í Icesave að það er engu lagi líkt. Nýi Steingrímur hefur mestar áhyggur af því hver leki gögnum til íslensku þjóðarinnar og telur að lekinn skaði hagsmuni Íslands gagnvart Bretum og Hollendingum. Veit Steingrímur ekki að þjóð veit þá þrír vita; og hvað þá í pólitík þar sem tugir manna fá upplýsingar um málið. Pólitíkin er hriplek. En til hvers annars þennan mikla trúnað í þessu örlagamáli íslensku þjóðarinnar?Nýja Jóhanna er sömuleiðis hrædd og óttast að það skaði umsókn okkar að Evrópusambandinu ef Alþingi samþykkir ekki Icesave og að ríkisstjórnin spryngi. Það er eins og nýi Steingrímur og nýja Jóhanna séu talsmenn Breta og Hollendinga hér á landi í Icesave en ekki leiðtogar ríkisstjórnar Íslands um að vernda hagsmuni Íslands. Hvernig getur þessum leiðtogum dottið í hug að þvinga þjóðina til að skrifa undir óútfylltan tékka? Síbylja þeirra og annarra ráðherra er að við getum greitt Icesave og það þegar enginn veit hvað greiðslan verður mikil - og hvað þá þegar mikill lagalegur vafi leikur á að við eigum yfir höfuð að greiða þetta.Það verður auðvitað að leysa Icesave en það er engan veginn sama hvernig það er gert; það þarf að semja algerlega upp á nýtt þar sem við getum staðið við gefin loforð - og fá dómstóla til að skera úr um hvort við eigum að greiða umfram það sem var í innstæðutryggingastjóðnum. Fá dómstóla til að koma með það skjalfest að allir einkabankar í Evrópu séu í raun ríkisbankar.Aðeins um orð. Tískorð sumarsins er fyrirvarar. Hversu oft ætli þetta blessað orð hafa glumið í fréttatímum? Er verið að samþykkja Icesave en með fyrirvörum? Eru fyrirvararnir svo miklir að það sé verið að hafna samningunum? Eru fyrirvararnir svo miklir að semja þurfi upp á nýtt? Verða ekki Bretar og Hollendingar mjög reiðir ef fyrirvararnir eru of miklir og verða þeir þá tilbúnir til að koma að samningaborðinu aftur? Svo er komið að margt málsmetandi fólk verður mjög íbyggið á svip og segir: Við skulum samþykkja Icesave en með fyrirvörum. Mikið óskaplega er hinn venjulegi Íslendingur orðinn diplómatískur.Þessi orðhengilsháttur með fyrirvarana er mjög sérstakur. Við viljum ekki samninginn. Það getur enginn sætt sig við hann. En það hljómar betur í eyrum Breta og Hollendinga (sem ekki má styggja) að segja að við viljum samninginn en með fyrirvörum. Það er eins og þeir taki þessu þá allt á besta veg. Við eigum einfaldlega að orða hlutina eins og við hugsum þá; við viljum nýjan samning sem við getum staðið við.Við glötuðum ímyndinni með Icesave; fjárglæfrum Landsbankans. Ótrúlega margir gleypa samt við hræðsluáróðri stjórnvalda um að við eigum ekki annan kost í stöðunni en að samþykkja Icesave. Að vísu eru sífellt fleiri farnir að átta sig á að það er annar kostur í stöðunni; hafna Icesave. En það er þetta með ímyndina; hún glataðist með Icesave. Halda menn hins vegar að það sé best að byggja hana upp á nýtt með því að samþykkja Icesave; skrifa undir loforð sem við vitum að við getum aldrei staðið við? Skrifa undir Icesave í nafni áróðurs um að verið sé að byggja upp ímyndina og byrja svo á að svíkja loforðið. Þá fyrst glötum við mannorðinu!Það blasir ekki aðeins skuldakreppa við ef við samþykkjum Icesave óbreytt; gjaldþrot þjóðarinnar blasir við. Kannski eigum við ekkert að blekkja okkur lengur, líklegast er þjóðin gjaldþrota. Áróðurinn er að samþykkja Icesave, líklegast 1.000 milljarða skuld, því það sé forsenda þess að geta fengið aðra og þriðju greiðslu af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, því það sé aftur forsenda þess að Norðurlöndin séu til í að lána okkur; sem aftur gæti orðið til þess að aðrar þjóðir lánuðu okkur – og við fengjum hugsanlega aðild að Evrópusambandinu og kannski líka aðild að myntbandalagi Evrópu og þar með nýjan gjaldmiðil; evru. Er þetta nú trúverðugur áróður? Stórskuldug þjóð fær aldrei aðild að myntbandalaginu heldur eru skilyrðin um aðild einmitt litlar skuldir og jafnvægi í efnahagslífinu. Þau eru mjög ströng skilyrðin.Hræðsluáróður íslenskra stjórnvalda hefur gert ráðherrana sjálfa og marga Íslendinga hrædda. Hræðslan felst í því að skrúfað verði fyrir Ísland ef Alþingi fellir Icesave. Það er mikill misskilningur. Lífið heldur áfram. Erlendir bankar munu halda áfram að sinna viðskiptum við okkur og fá þóknanir fyrir. Útlendingar hætta ekki að kaupa fisk af okkur. Kaupa ál af okkur. Ferðast til Íslands. Selja okkur vörur á meðan við getum greitt fyrir þær með útflutningi okkar.Ég sagði í síðasta pistli mínum fyrir sumarfrí að óbilgirni stjórnvalda í Bretlandi og Hollandi myndi molna innan frá. Að þrýstingur kæmi frá fólkinu í þessum löndum sem skildi stöðu almúgans á Íslandi og vissi að hann stofnaði ekki til Icesave og gæti ekki staðið við samkomulagið. Mér sýnist það vera að koma á daginn. Síðustu daga hafa borist fréttir frá Norðurlöndum og Bretlandi (t.d. leiðarinn í Financial Times, tíðindin frá Noregi, skrif Evu Joly) um aukna gagnrýni á þá hörku sem Íslendingum hefur verið sýnd í Icesave og að það sé að renna renna upp fyrir almúganum í þessum löndum að almúginn á Íslandi geti ekki staðið við samninginn. Við Íslendingar erum að vísu ekki nafli alheimsins – en sannið þið til; samningsharka Breta og Hollendinga molnar innan frá. Í Bretlandi er búið að ákæra forráðamann sveitarfélags fyrir að hafa lagt fé sveitarfélagsins inn á Icesvave; svo glæfralegt þótt það athæfi. Bretarnir sjálfir vita um eigin ábyrgð og draga menn þar til ábyrgðar.Sjálfsagt tekst nýja Steingrími og nýju Jóhönnu að þvinga flokksmenn sína til hlýðni í Icesave. Guðfríður Lilja er sögð ætla að samþykkja Icesave og eflaust gerir Ögmundur það sama. En eftir stendur gjaldþrota þjóð. Sá leki sem Steingrímur ætti þá að hafa áhyggjur af er lekinn af landinu; það stefnir í fólksflótta ungs fólks frá Íslandi með því að samþykkja Icesave og fólk um fimmtugt segir: Ef ég væri tíu árum yngri væri ég farinn. Fyrirvari upp á 3,5% af landsframleiðslu er allt of dýru verði keyptur eða um 40 milljarðar á ári.


Sumir taka ríkisstjórnarsamstarfið fram yfir hag fólksins í landinu. En vel á minnst; hvar ætli orginallinn af Steingrími J. Sigfússyni sé geymdur? Bara svona fyrir forvitnissakir.Jón G. Hauksson


[email protected]


 

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.