Ögmundur er prinsippmaður (JGH)

Pistlar


Ég hef ekki verið í aðdáendaklúbbi Ögmundar Jónassonar í pólitík en ég ætla þó að hæla honum í þetta skiptið – þótt erfitt sé að munda pennann eftir að stjórnin tilkynnti að hún ætlaði að hækka skatta ríkissjóðs um 72 milljarða –  og það  í miðri kreppu. Ögmundur er maður að meiri fyrir að hafa sagt af sér sem ráðherra til að mótmæla háttalagi ríkisstjórnarinnar í Icesave. Hann er prinsippmaður; það ber að lofa. „Ég er ekki í aðdáendaklúbbnum,“ sagði Ögmundur við fréttamenn eftir að hafa gengið á fund Jóhönnu Sigurðardóttur, og átti þá við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þetta var auðvitað írónía, kaldhæðni, því hann var að skjóta í leiðinni á samráðherra sína, ekki síst Jóhönnu sem talar tungum í þessu máli. Hún segist á móti Icesave og hljómar eins og að hún skilji loksins að það hafi engan tilgang, og gerir bara illt verra, að skrifa undir eitthvað sem þjóðin geti ekki staðið við. Á bak við tjöldin er hún síðan að plotta með Steingrími J. Sigfússyni við fulltrúa Breta og Hollendinga um að gefa afslátt af fyrirvörum Alþingis og sem afgreiddir voru sem lög. Ef forstjóri í einkafyrirtæki hagaði sér svona væri stjórn þess (Alþingi í okkar tilviki) búin að reka hann.Fréttablaðið segir að Ögmundur hafi sagt af sér eftir að Jóhanna og Steingrímur kröfuðust þess að „væntanleg lausn“ á Icesave-málinu yrði gerð í nafni allrar ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt heimildum blaðsins er það tvennt í fyrirvörunum sem Bretar og Hollendingar geta ekki sætt sig við. Annars vegar að ríkisábyrgð á lánveitingum nái aðeins til ársins 2024, óháð því hvort lánin hafi þá verið uppgreidd eða ekki. Hins vegar að í lögunum sé tekið fram að Ísland viðurkenni ekki skyldur sínar til greiðslu og hafi ekki fallið frá rétti sínum til að fá úr því álitamáli skorið.Í leiðara sama Fréttablaðs eru forvitnilegar vangaveltur um það að örlög ríkisstjórnarinnar ráðist af því hvernig flokkur VG ætli sér að verða – og hversu margir í VG muni fylgja Ögmundi. „Ef þeir verða margir,“ segir ritstjórinn „eru miklar líkur á að VG verði andspyrnuflokkur sem kunni aðeins að gagnrýna og vera á móti, eins og svo margir hafa haldið lengi fram. Nú er það svo sannarlega verðugt hlutverk á stjórnmálasviðinu að sýna öflugt aðhald og veita kröftuga stjórnarandstöðu. VG stóð þá vakt af elju og samviskusemi áður en flokkurinn fór í ríkisstjórn. Það hlýtur þó að vera metnaðarmál fyrir allar stjórnmálahreyfingar að komast í þá aðstöðu að láta verkin tala. En til þess að svo verði þarf nánast undantekningalaust að gera málamiðlanir af einhverju tagi. Ögmundur var ekki tilbúinn til þess og valdi frekar að kveðja.“Hér finnst mér skjóta nokkuð skökku við í rökum; þ.e. að örlög ríkisstjórnarinnar ráðist af því hvernig flokkur Vinstri grænir ætli sér að verða. Það ætti frekar að spyrja sig að því hvernig flokkur VG sé orðinn og hvernig það megi vera að hann hafi kastað prinsipp-málum flokksins fyrir stóla í ríkisstjórn. Steingrímur sagði í kosningabaráttunni að málefni flokksins væru skýr; á móti aðild að ESB og gegn því að þjóðin tæki á sig auknar byrðar vegna Icesave. Hvers vegna svíkur Steingrímur svo mikil prinsipp-mál flokksins? Það er það sem enginn skilur – þótt stólarnir séu eftirsóknarverðir.Þá segir í leiðaranum að Ögmundur og stjórnarandstaðan séu sammála um hvað eigi ekki að gera og er vísað til þess að auðveldara sé að gagnrýna og vera á móti en að koma með raunhæfar tillögur um lausn vandamála. Þarna er ég aftur ósammála. Mér finnst það ábyrg afstaða að vera á móti Icesave og hindra þannig að reikningurinn verði sendur á börnin okkar og barnabörn. Ég tel það mun óábyrgari afstöðu að varpa prinsippum, gildum og loforðum fyrir róða og gleypa allt hrátt frá Samfylkingunni bara vegna þess að „það sé metnaðarmál fyrir allar stjórnmálahreyfingar að komast í þá aðstöðu að láta verkin tala. En til þess að svo verði þarf nánast undantekningalaust að gera málamiðlanir af einhverju tagi.“.Það er að renna á þjóðina tvær grímur með þessa ríkisstjórn. Verkstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er afleit og hún keyrir mál í gegn með hótunum. Hún er einangruð og upplýsir ekki eigin flokksmenn um stöðu mála. Hvar er Jóhanna spyrja þeir á fundum? Stjórnunarstíll hennar er þessi: Það er stutt til Bessastaða – ef menn eru með múður.Þjóðin gerði byltingu og hlóð upp bálköstum við Austurvöll sl. vetur. Það sem fór verst fyrir brjóstið á fólki var leyndin, pukrið og laumuspilið. Nýja Ísland átti að vera opið og allt uppi á borðinu í nafni gegnsæis. Þegar ríkisstjórn Jóhönnu var spurð að því á Alþingi í byrjun júni hvort eitthvað væri til í þeim orðrómi að verið væri að semja á laun við Breta og Hollendinga um Icesave fór Steingrímur J. Sigfússon í ræðustól og sagði svo alls ekki vera. Tveimur dögum síðar var Svavar Gestsson búinn að skrifa undir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Síðan átti að lauma þeim bastarðs-samningi í gegnum þingið.Í fyrirtækjum er ekkert eins mikilvægt en að forstjórar séu hreinir og beinir, heiðarlegir við starfsfólk sitt. Þeir ná árangri sem tryggja að starfsfólk viti um sýn fyrirtækisins og stöðu þess. Starfsfólk vill sannleikann. Ekki smjaður og endalausa hvítlygi þar sem aðeins hluti af sannleikanum er alltaf sagður. Þjóðin vill sannleikann.Hvernig getur ríkisstjórnin verið með baktjaldamakk í Icesave og ætlað þjóðinni þar með að taka á sig meiri byrðar sama dag og hún boðar fjárlög sem gera ráð fyrir að skatttekjur ríkissjóðs hækki um 72 milljarða á árinu 2010 og lagt sé í aðeins 40 milljarða niðurskurð? Að stoppað sé upp í gatið fyrst og fremst með auknum skatttekjum og álögum á fólk.Hæstu vextir í heimi, stóraukin skattheimta í kreppunni og farið á bak við Alþingi í Icesave. Er þetta ekki að verða nokkuð gott hjá Steingrími og Jóhönnu? Það fækkar í aðdáendaklúbbnum og styttist í utanþingsstjórn.Jón G. Hauksson


jgh@heimur.is

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.