Íslendingur í Kalkútta (BJ)

Pistlar


Konan í símanum var frá Danmarks Radio. Hún hafði talað við mig síðastliðið sumar og þess vegna vildi hún tala við mig aftur. Ég sagðist muna vel eftir því, en það var í besta falli hvít lygi. Frá hruninu hafa fjölmargir erlendir aðilar haft samband við mig til þess að spyrja um efnahagsástandið. Ekki vegna þess að ég skrifi Vísbendingu og hafi í fyrra skrifað milli 150 og 200 greinar um efnahagsmálin. Það vita þeir ekkert um. Nei, það er vegna Iceland Review vefsins, en þangað koma þúsundir á hverjum degi til þess að fræðast um stöðu mála.


Þegar bankarnir réðu hér öllu var ekki óalgengt að þeir hringdu og kvörtuðu undan fréttum á iclandreview.com. Þó að þeim væri bent á að fréttirnar væru þýddar beint úr Mogganum eða Fréttablaðinu hafði það ekkert að segja. Þær fréttir væru á íslensku, en allur heimurinn gæti lesið icelandreview.com. Eftir því sem nær dró hruni fjölgaði slíkum símtölum. Síðan hefur enginn íslenskur bankamaður hringt. Ég veit ekki hvort það er vegna þess að þeir eru ánægðir með fréttirnar núna eða þessi hópur er allur hættur störfum.


Í haust hringdi síminn á skrifstofunni í hádeginu einu sinni sem oftar. Ég svaraði og þar var maður frá einhverri fréttastofu sem vildi tala við ritstjóra Iceland Review um Icesave. Svo hittist á að hann var í mat þegar símtalið barst, en ég sagði að hann yrði örugglega kominn innan klukkutíma. Það kom fát á fréttamanninn og hann spurði hvað hann ætti þá að gera. Ég sagði að það væru tveir kostir: Að bíða í klukkutíma og hringja þá aftur eða hann gæti reynt að spyrja mig. Hann þurfti ekki að hugsa sig um: „Ég hringi klukkan hálf tvö.“ Alvöru blaðamaður ætlaði ekki að eyða tíma í að ræða alvörumál við símadömuna.


Í þetta sinn er þetta semsé hálfgleymd vinkona mín frá Danmarks Radio. Við spjöllum saman á fagurri tungu lágheiðarmanna. Hún spyr hvernig fólk hafi það, hvort ekki sé mikil örvænting í þjóðfélaginu og hvort nokkur hafi vinnu. Ég reyndi að skýra út fyrir henni að Reykjavík hefði enn ekki breyst í Kalkútta norðursins. Svo kvartaði ég við hana að okkur fyndist fréttaflutningur í Danmörku neikvæðari af málinu en efni stæðu til.


Það fannst henni ekki. Ég nefndi frétt í Börsen um að Íslendingar ætluðu ekki að borga og hafði fleiri dæmi á takteinum. Málið snerist ekki um hvort við borgum eða ekki heldur á hvaða kjörum.


Konan skildi þetta allt saman. Hún taldi að Danir væru alls ekki neikvæðir út í Íslendinga og rakti það í löngu máli. Svo klykkti hún út með: „Hvernig þorið þið að neita að borga?“


Þetta var greinilega erfiðara en ég hélt. Hún vildi samt gjarnan koma mér í sjónvarpið, því að nú var hún ekki lengur hjá útvarpinu eins og áður. Spurningin var um það hvort ég væri til í viðtal. Jú, jú það var í lagi. Hún ætlaði að finna stúdíó klukkan fjögur. Fínt, sagði ég.


En það yrði í beinni útsendingu, sagði hún, þannig að þau gætu ekki sett texta á mig.


Sama var mér.


„Gæturðu ekki talað hægt og skýrt? Og reyndu að hafa áherslurnar eins og Dani.“


Kein problem.


Fram eftir degi hringdi þessi vinkona í mig til þess að segja mér að hún væri ekki búin að finna stúdíó. Það var ekki mitt vandamál. Ég las Börsen til þess að ná orðaforðanum sem ég þyrfti að nota og hringdi í mág minn sem er danskur til þess að vita hvernig maður segði sáttasemjari á dönsku. (mægler, sagt meler)


Upp úr þrjú heyrðist enn í DR. Þau höfðu fundið stúdíó hjá sjónvarpinu. Ég var bókaður þar klukkan 15.55. Þetta var ný kona. Við skildum hvort annað ekki eins vel og sú fyrri, en hún fór yfir spurningarnar með mér. Ég gat svarað þeim öllum nema eina skildi ég ekki. Svo endurtók hún hana. Það reyndist vera: Hvað segja herra og frú Ísland um hrunið? Herra og frú Ísland? Það hljóta að vera Fjölnir og Linda Pé. Eða Jón Baldvin og Bryndís.


En líklega átti hún bara við venjulegt fólk, Jón og Gunnu. (Eða Söru og Kára eins og þau heita núna).


Ég kom í Efstaleitið klukkan 15.55. Hljóp niður í kjallara þar sem ég vissi að sjónvarpið hefur aðsetur. Fór í sminkherbergið en ég veit af reynslu að konurnar þar vita allt. Kom ekki að kofanum tómum hjá þeim fremur en fyrri daginn. Afar elskuleg kona bað mig að setjast í stólinn og byrjaði að farða mig. Ég var ókyrr, sagðist eiga að vera mættur í stúdíó, en hún sagði mér að vera rólegur. Af því að ég veit að það er ráðlegt að fylgja ráðum kvenna sat ég kyrr. Svo setti hún gel í hárið á mér til þess að ná niður óþekkum lokk.


Hvert á ég nú að fara? spurði ég um leið og ég stökk upp úr stólnum. Konan leiddi mig fram á gang, í öfuga átt frá því stúdíói sem oftast er notað.


„Hvert fer ég núna?“ spurði ég enn.


„Bara þangað sem ljósið er,“ sagði konan. Ég leit á herbergin hinum megin: Stúdíó 11, 12, 13, 14. Hvergi ljós. Ég var ráðvilltur.


Konan togaði í jakkaermina og benti á kastara úti á miðju gólfi. „Öll stúdíóin eru upptekin.“ Ég sá að einhverjir menn sátu í sófa hægra megin við mig og hugsaði með mér að þetta gæti alveg sloppið. Gaf mig á tal við þá.


Þeir sögðust vera að bíða eftir fréttamanni frá Danmarks Radio.


„Ég á að vera í viðtali við þá klukkan fjögur,“ sagði ég. Klukkan var 15.59.


„Hann hlýtur að fara að koma sá sem tekur viðtalið,“ sögðu þeir. Mér tókst að koma þeim í skilning um að hann kæmi alls ekki, því að hann sæti í Danmörku. Ég bjó mig undir að setjast í sófann.


En þangað átti ég ekkert erindi. Annar maðurinn dró fram eldhússtól og setti á mitt gólfið. „Þú átt að sitja hér.“


Ég gerði eins og mér var sagt. Þarna sat ég á miðju gólfi, beint fyrir neðan stigann þar sem fólk streymdi upp og niður. Tæknimaður kom til mín með síma og stakk heyrnartæki í eyrað á mér. Það datt út aftur. Eyrað á mér er ekki lagað fyrir lítil heyrnartæki. Ég varð að styðja við tækið með hendinni á meðan símtækið var falið fyrir aftan mig. Það var verið að lesa fréttir og allt var farið úr skorðum í Danmörku því að það hafði snjóað.


Ég lét höndina síga og tækið datt aftur úr. Hef ekki hugmynd um hvaða leiðum var lokað vegna fannfergis. Þá kom sminkkonan, vinkona mín, með snjalla lausn. Hún límdi tækið fast með venjulegu límbandi. Öll vandamál úr sögunni. Nema maðurinn í tækinu sagði að ekkert heyrðist í mér. Ég sagði honum að ég heyrði í honum, en það tjóaði lítið.


„Maðurinn segist ekkert heyra í mér“ sagði ég við tæknimanninn íslenska.


„Ég er að græja það,“ svaraði hann.


Í eyranu heyrðist: „Það eru 30 sekúndur í útsendingu.“


„Það eru þrjátíu sekúndur í útsendingu,“ bergmálaði ég.


„Er að koma.“


Loksins kom hann með hljóðnemann og ákvað eftir vangaveltur að setja hann í jakkaboðunginn fremur en bindið. Þetta var heil eilífð. Ég hugsaði með mér hversu vandræðalegt það væri að viðtalið byrjaði með því að sæist í bakhlutann á einhverjum tæknimanni. En loks kláraði hann. Ég heyrði að þátturinn var byrjaður. Stjórnandi sagði að það væri kalt í Danmörku. Svo kom tæknimaður í eyrað og bað mig að tala. Ég sagði: „Einn, tveir,“ því að það virðast fagmenn alltaf segja þegar þeir prófa hljóðnema.


Þáttastjórnandinn virtist ekkert fipast af þessu og sagði að þó að kalt væri í Danmörku þá væri kaldara á norðurslóðum þar sem Íslendingar neituðu að borga Icesave-reikningana. Hann vatt sér í viðtal við einhvern hagfræðing sem var sérfræðingur í færeysku bankakreppunni og spurði hvaða afleiðingar það hefði ef við borguðum ekki. Sminkdaman kom fram á gólfið og lagaði jakkaboðunginn.


Niður stigann var straumur af stjórnmálamönnum á leið í viðtal í alvöru stúdíó. Nú var byrjað að spyrja mig. Ég sá að formaður fjárlaganefndar stakk sér inn í sminkherbergið. Það var komið að herra og frú Íslandi og ég svaraði eins og best ég gat.


Eitthvað var vikið að stjórnmálamönnum og skoðun þeirra á málinu. Sigmundur Davíð arkaði í áttina til mín, en beygði svo upp stigann.


Ég hugsaði með mér að það væri ekkert grín að hér væri fjöldi manns að hlusta á mig bögglast áfram á dönsku úti á miðju gólfi. Það var ekki fyrr en eftir viðtalið sem ég áttaði mig á því að á hinum endanum heyrðu þúsundir manna í mér.


Konan sem stjórnaði þættinum endurtók eitthvað orð sem ég sagði. Æi, ég hafði sagt það með ypsiloni en ekki einföldu. Loks spurði hún um Ólaf Ragnar. „Nú gengur hann niður stigann,“ hugsaði ég, en það gerði hann ekki. Hún virtist vita að hann hefði verið mikill vinur útrásarvíkinganna.


Loksins var þetta búið.


„Perfekt,“ sagði danski tæknimaðurinn.Benedikt Jóhannessonwww.heimur.is/benedikt


 

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.