Hrein vinstristjórn (JGH)

Pistlar


Steingrímur J. Sigfússon ræður sér ekki fyrir kæti út af nýrri „hreinni vinstristjórn“. Það er komin hrein pólitísk stjórn tveggja vinstri flokka, segir hann hróðugur og bætir við að það sé í fyrsta sinn á Íslandi. Einhverjir kynnu að halda að ný stjórn með nýjum flokkum hefði tekið við eftir stórkostlegan kosningasigur og um stórpólitísk tíðindi væri að ræða.


Þannig hafa ímyndarfræðingarnir eflaust stillt dæminu upp. En þá kemur upp úr krafsinu hjá Steingrími að þetta séu breytingar á stjórninni, að hún sé að styrkjast og ekki að springa – og alls ekki að fara.


Styrkingin og pólitíski hreinleikinn felst í að henda út vinsælasta ráðherranum, Rögnu Árnadóttur, dómsmála- og mannréttindaráðherra. Hún fór út úr stjórninni ásamt Gylfa Magnússyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, en þau voru utanþingsráðherrar.


Þá var  Álfheiði Ingadóttur skipt út en hún hefur til þessa verið talin frekar vinstrisinnuð – eða svo hélt ég að minnsta kosti. Ögmundur Jónasson er talinn meiri kommi en Álfheiður; hann er últrasósíalisti.


Guðbjartur Hannesson, sem ég hélt að væri gamall krati af Skaganum, er líklegast líka hreinræktaður vinstrikall. Hann kemur inn sem heilbrigðisráðherra og á að skera niður í heilbrigðiskerfinu sem Ögmundur treysti sér ekki til að gera á sínum tíma - enda var hann þá kominn úr hlutverki verkalýðsleiðtogans í hlutverk atvinnurekandans á Landspítalanum.


Kratinn Kristján Möller samgönguráðherra frá Siglufirði þurfti líka að skila lyklunum. Hann þykir ekki nægilegur kommi. Takið eftir hve oft er verið að afhenda og skila lyklum. Núna er Ömmi aftur kominn með lykla og meira að segja fleiri lykla en síðast. Um áramótin verða næstu lyklaskipti.


Á vormánuðum mældust þau Ragna og Gylfi vinsælustu ráðherrarnir, samkvæmt ánægjuvog Gallup. Síðan minnkaði ánægjan með Gylfa en Ragna hélt sínu striki.


Jóhanna forsætisráðherra hefur ekki notið mikilla vinsælda og alls ekki haft þann meðbyr sem verkstjóri í þessari ríkisstjórn sem hún hafði í upphafi þegar hún var talin áhrifamesta kona landsins. Hún hefur ekki þótt sýnileg og afgerandi sem forsætisráðherra.


Erlendir fjölmiðlar eru hins vegar hrifnir af Jóhönnu. Nýlega lenti hún í öðru sæti á lista tímaritsins Time yfir tíu mestu kvenleiðtoga heims. Það verður að teljast rós í hnappagatið. Jafnvel rauð kratarós.


Þegar Frjáls verslun bað 30 valinkunnar konur að mynda ríkisstjórn kvenna í sumar með því að nefna þrjár konur sem þær vildu hafa í slíkri ríkisstjórn var áberandi mesta fylgið við Rögnu Árnadóttur. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra komst ekki á blað.


Ríkisstjórn Jóhönnu hefur verið vænd um að fresta stóru málunum eins og að leysa vanda ríkissjóðs – sem og fjárhagsvanda heimila og fyrirtækja.


Á sama tíma skrifar Seingrímur J. hverja greinina af annarri um að Ísland sé að rísa úr sæ vegna snilldartakta hjá þessari ríkisstjórn. Til þessa hefur Steingrímur klifað á því að hann væri í slökkviliðinu og innan um brunarústir.


Steingrímur gumar af nýrri hreinni pólitískri stjórn tveggja vinstri flokka. Ég er sammála Eiríki Bergmann stjórnmálafræðingi sem segir á Pressunni að ríkisstjórnin sé í raun og veru þriggja flokka stjórn eftir breytingarnar. „Órólega deildin í Vinstri grænum er þriðja hjólið undir vagninum,“ segir Eiríkur.


Ekki veit ég hvað gömlu kratarnir segja um orð Steingríms um að Samfylkingin sé hreinn vinstri flokkur. Því verður hins vegar ekki neitað að það er Allaballa-ásjóna á stjórninni.


Svo höfum við gamlan Allaballa á Bessastöðum og annan últra í Seðlabankanum. 


Ég hef lengi spáð því að ríkisstjórnin nái ekki saman um nauðsynlegan og stórfelldan niðurskurð á fjárlögum og að það fari með hana að lokum. En það má nýja stjórnin eiga sem tók við í dag, án þess að sú gamla hafi farið, að hún situr og situr. Stólarnir eru fyrir mestu.


Þegar Alþingi kom saman á ný með breytta ríkisstjórn sagði Jóhanna að „ótrúlegur árangur“ hefði náðst á undraskömmum tíma í efnahagsmálum.


Eftir þessum árangri væri tekið eftir úti í heimi. Þannig hafi mælst hagvöxtur hálfu ári fyrr en búist var við, verðbólga hafi ekki mælst lægri í 3 ár, vextir ekki lægri í 6 ár og gengi krónunnar styrkst verulega.


Eftir þessum árangri er tekið úti í heimi, segir hún. Gott og vel. Til þessa hefur Jóhanna verið með þá síbylju að ef við samþykktum ekki Icesave-skuldaklafann færi allt til fjandans og við sæjum ekki til sólar. Hver spekingurinn af öðrum hefur haldið þessu fram fyrir hana. Nú er annað komið á daginn. Núna er „ótrúlegur árangur“ á undraskömmum tíma.


Hún talar um hagvöxt þegar botninum er kannski loksins náð og allt útlit er fyrir að við skröpum botninn næstu misseri.


Hún hælir sér af því að í dýpstu kreppu lýðveldisins, sem staðið hefur í tvö ár, hafi verðbólga núna ekki mælst lægri í þrjú ár. Stórkostlegt; ekki óðaverðbólga í dýpstu kreppu Íslandssögunnar.


Hún talar um að vextir hafi ekki verið lægri í 6 ár. Það var og! Vextir ættu að vera miklu lægri og mesta meinið er að gulltryggðu peningarnir í bönkunum eru ekki komnir í vinnu fyrir atvinnulífið. Bretar og Bandaríkjamenn fóru með stýrivexti sína niður í núllið í fjármálakreppunni til að auka blóðstreymið í atvinnulífinu.


Hér hafa háir vextir og verðtrygging valdið því að bankarnir lána lítið til atvinnulífsins. Þess utan hefur þessi ríkisstjórn hækkað alla skatta sem dregur úr blóðstreyminu í atvinnulífinu.


Jóhanna talar um að gengi krónunnar hafi styrkst verulega. Það er rétt. En það eru hörð gjaldeyrishöft. Samt hefur styrkingin ekki orðið eins mikil og Seðlabankinn gerði ráð fyrir. Því fagna hóteleigendur og útvegsmenn. En vill ekki Már seðlabankastjóri losa um höftin? Hvað þá?


Þegar gengi krónunnar fellur (eða er fellt) þá gengur sá leikur út á að skerða lífskjörin með því að hækka verð á innflutningi til að draga úr honum, auka útflutninginn og lækka raunlaunin svo vinnuafl verði ódýrara og fleiri haldi vinnunni – eða fái vinnu. Úr verður stærri gjaldeyrisforði og þar með styrkist gengið aftur.


Loks boðar Jóhanna þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótann ef hún nær ekki 5% fyrningareglunni á ári í gegn og hirðir allan kvótann af útgerðum landsins á næstu tuttugu árum.


Fínt! Það er mikið efnahagsundur í gangi. Best að rústa öllum fyrirtækjum í sjávarútvegi sem keyptu kvóta til að hagræða í greininni og skuldsettu sig til að kaupa af þeim sem vildu út úr greininni. Þeir eru farnir með bros á vör. Þeir sem keyptu verða fyrir barðinu á Jóhönnu. Er þetta ekki að hafa endaskipti á hlutunum og hegna röngu fólki?


Það er komin ný hrein vinstristjórn með hreina vinstriskatta og áhuga á ríkiskapítalisma. En eftir „ótrúlegan árangur“ stjórnarinnar á undraskömmum tíma þótti auðvitað nauðsynlegt að breyta til og hrókera - og skiptast á lyklum. Jón G. Hauksson


[email protected]

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.