Mikil bíræfni (JGH)

Pistlar


jong_nyÞað er mikil bíræfni hjá forystu Sjálfstæðis- flokksins að ganga gegn vilja þjóðarinnar í Icesave. Þjóðin hafnaði því afdráttarlaust í sérstökum kosningum að semja við Breta og Hollendinga. Það er sömuleiðis bíræfni af forystunni að fara gegn samþykkt landsfundar eigin flokks frá því í sumar. Þar voru gefnar skýrar línur.


Ég varð orðlaus þegar mér bárust þessi tíðindi og trúði þeim ekki – og er enn að kyngja þeim.


Ég hef margoft haldið því fram að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, eigi engan annan kost í stöðunni en að skjóta málinu aftur til þjóðarinnar og láta hana afgreiða það. Hann fékk henni þetta mál til afgreiðslu og það er hennar að klára það; á hvorn veginn sem sú kosning fer.


Það má vel vera að hún sé ekki jafnhörð gegn hinum nýja samningi, en það er þá hennar að segja það.


Haft var eftir forsetanum nýlega að Icesave III væri miklu betri samningur en Icesave II sem ríkisstjórnin þröngvaði í gegn fyrir rúmu ári. Mér leið ekki vel þegar ég las þessi ummæli forsetans og grunaði eins og aðra hvað byggi undir.


Forseti Íslands nýtti sér fyrst 26. grein stjórnarskráarinnar sumarið 2004 þegar hann synjaði því lagafrumvarpi um ný fjölmiðlalög staðfestingar. Hann er talsmaður þess að þetta ákvæði sé virkt ef ákveðinn hluti þjóðarinnar kemur með undirskriftir og biður um þjóðaratkvæðagreiðslu.


Ólafur Ragnar samþykkti gjörbreytt Icesave I lög í lok ágúst sumarið 2009 eftir að miklir og afgerandi fyrirvarar voru settir í frumvarpið – og vísaði hann sérstaklega í fyrirvarana þegar hann skrifaði undir.


Forsetinn hefur margoft sagt í viðtölum við stærstu fréttastofur heims að Bretar og Hollendingar væru að beita okkur aflsmunum með því að neyða okkur til að skrifa undir lán frá þeim og ábyrgjast þannig Icesave innstæður einkabanka sem engin lög kveða á um að skattgreiðendur eigi að ábyrgjast.


Forsetinn væri augljóslega að fara gegn eigin sannfæringu um þjóðaratkvæðagreiðslur og málskotsréttinn ef hann veldi núna sömu leið og forysta Sjálfstæðisflokkins – og kúventi skyndilega. Eftir því yrði tekið á alþjóðavettvangi. Hann yrði ekki trúverðugur og ekki sjálfum sér samkvæmur.


Ég er sammála Styrmi Gunnarssyni, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, sem spyr í pistli hvers vegna þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggi ekki fyrst og fremst til að nýr Icesave-samningur verði lagður undir þjóðaratkvæði eins og sjálfsagt er?


„Hvers vegna flytur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sem heild ekki slíka tillögu á þingi?“ spyr Styrmir.


Þeir þingmenn á Alþingi, sem samþykkja Icesave endanlega eftir um hálfan mánuð í þriðju umræðu, skrifa undir að skattgreiðendur taki og ábyrgist 674 milljarða króna lán frá Bretum og Hollendingum.


Þetta er nákvæmlega sama fjárhæð og áður – og sem þjóðin hafnaði svo afgerandi á síðasta ári. Í núverandi samningi lækka Bretar og Hollendingar einungis vextina á láninu. Ábyrgð okkar er sú sama og í fyrri samningi sem þjóðin hafnaði.


Bretar og Hollendingar greiddu upp á eigin spýtur Icesave innstæðurnar til síns fólks eftir að gamli Landsbankinn féll. Þetta gerðu þeir til að friðþægja innstæðueigendur og forðast áhlaup þeirra á bankakerfið. Þeir borguðu út í flýti en senda skattgreiðendum á Íslandi reikninginn.


Þeir þingmenn, sem skrifa undir lánið, hafa ekki hugmynd um hvað fæst út úr þrotabúi gamla Landsbankans, hversu miklar eignir hans eru og verða, hvernig gengur að selja þær og hversu hratt greiðslur berast.


Þetta er því algerlega óútfylltur tékki og allt tal um að þetta verði „ekki nema 50 milljarðar“ er óábyrgt og ekki boðlegt. Verða þetta 100, 200 eða 300 milljarðar? Það er ekki einu sinni reynt að setja þak á greiðslurnar.


Og enn og aftur; það er verið að skrifa undir 674 milljarða lán en ekki 50 milljarða lán. Þetta eru tvö erlend lán. 1,3 milljarðar evra frá Hollendingum og 2,3 milljarðar punda frá Englendingum. Gengisbundin lán – sem við Íslendingar höfum jú svo afskaplega góða reynslu af.


Þessir þingmenn skrifa undir að skattgreiðendur á Íslandi ábyrgist starfsemi einkabanka eftir á þótt þeir hafi ekkert haft með bankann að gera. Þjóðin einkavæddi  Landsbankann og Búnaðarbankann til að þurfa ekki að bera ábyrgð á þeim.


Icesave-innstæðueigendur í Bretlandi og Hollandi vissu allan tíma að Landsbankinn væri einkabanki. Bankaeftirlitið í þessum löndum vissi að um bankann giltu EES-reglur um tryggingasjóð innstæðueigenda og að hann ætti eingöngu að ábyrgjast innstæðurnar. 


Breska fjármálaeftirlitið vissi líka nákvæmlega hvernig fjárhagsstaða þessa sjóðs á Íslandi stæði og að það væri einvörðungu bankanna að greiða í hann - ekki skattgreiðenda.


Forysta Sjálfstæðisflokksins og þeir þingmenn sem vilja núna samþykkja Icesave bera því við að of mikil áhætta fylgi því að fara dómstólaleiðina ef málið skyldi tapast þar. Það er eins og að það sé ekkert prinsipp í málinu og engin sannfæring um okkar málstað.


Ingibjörg Sólrún sagði í ágætu viðtali að vandi okkar Íslendinga væri sá að við litum á okkur sem sakamenn þegar kæmi að viðræðum við Breta og Hollendinga. Bretar settu á okkur hryðjuverkalög og sennilega hafa sumir Íslendingar skilið það þannig að við værum þar með orðnir hryðjuverkamenn.


Því er svo við að bæta að við Íslendingar erum svo sjálfs uppteknir að við erum þeir einu í heiminum sem halda að heimskreppan sé okkur að kenna.


Trúa þingmenn á Alþingi Íslendinga því raunverulega að Ísland tapi þessu máli fyrir dómstólum? Trúa þeir því að Bretar og Hollendingar „semji“ við okkur af einhverri góðmennsku og greiðasemi ef þær á annað borð telja sig vera með gjörunnið mál fyrir dómstólum?


„Samningur“ þessara þjóða við okkur er í raun ekki um Icesave og innstæðutryggingasjóðinn, heldur eru þær að þröngva upp á okkur lán til að greiða sér það til baka svo þeir þurfi ekki að standa undir greiðslum sem þeir hafa sjálfviljugir þegar einhliða innt af hendi.


Þetta snýst um lánakjör og fráleitt að líta svo á að verið sé að ná einhverjum sáttum í milliríkjadeilu - eins og sumir túlka þennan samning.


Nei, þessar þjóðir munu aldrei láta reyna á það fyrir dómstólum hvort innstæðutryggingakerfið innan Evrópusambandsins sé ónýtt – og að þjóðir Evrópu séu bundar af því samkvæmt lögum að bjarga einkabönkum og kerfishruni banka.


Ef forysta Sjálfstæðisflokksins og þingmenn hinnar hreinræktuðu vinstristjórnar Jóhönnu og Steingríms eru svona sannfærð um að eignir Landsbankans séu svo mikils virði að þær dekki þetta allt saman þegar upp verði staðið – við hvað eru þeir þá hræddir fyrir dómstólum?


Það fylgir því ennfremur mikil áhætta að samþykkja þessi Icesave lög áður en gengið er frá ýmsum endum hér innanlands fyrir dómstólum. Ef tryggingasjóður innstæðueigenda hefur fullan forgang á útgreiðslur úr þrotabúi Landsbankans verður ekki mikill vandi að greiða lánið til baka.


Málið er ekki þannig vaxið eins og það blasir við núna. Núna er Icesave krafan (tryggja upp að 20 þúsund evru-markinu) 52% af forgangskröfum á meðan það sem upp á vantar á heildar Icesave-innstæðurnar sem og svonefnd heildsölulán eru metin á 48% af forgangskröfum.


Enn er deilt um það hvort heildsölulánin (170 milljarðar í gamla Landsbankanum) teljist forgangskröfur. Slitastjórn Landsbankans hefur samþykkt að svo sé, en slitastjórn Glitnis hefur t.d. hafnað slíkum kröfum en samþykkt sem almennar kröfur.


Það mál er fyrir dómstólum. Ef þær verða dæmdar sem almennar kröfur er meira til skiptanna hjá þrotabúi gamla Landsbankans upp í Icesave.


Fari svo að dómstólar á Íslandi dæmi neyðarlögin ólögmæt mun forgangur innstæðna í þrotabúi Landsbankans falla úr gildi og Icesave springa í loft upp – sem og allt fjármálakerfi Íslands. Flestir telja að neyðarlögin haldi; en samt, þarna er augljós áhætta.


Hvers vegna ekki að binda alla lausa enda hér heima áður en talað er digurbarkalega um hvað fæst út úr þrotabúi gamla Landsbankans. Það er ekki á hreinu hvað fæst fyrir eignir í þrotabúinu og hvenær greiðslur fyrir þær berast, hvaða kröfur séu forgangskröfur og hver hinn endanlegi tékki er.


Þess vegna er það mikil bíræfni af hálfu Alþingis að fara gegn þjóðinni sem afgreiddi málið á afgerandi hátt fyrir tæpu ári og bera fyrir sig hræðslu og áhættu við niðurstöðu dómstóla.


Bretar og Hollendingar hafa þegar dæmt í málinu, allt skal greitt og enginn afsláttur af því. Með undirskrift hlítum við þeim dómi eins og ótýndir sakamenn.


Þjóðin fékk þetta mál í fangið og það er hennar að afgreiða það endanlega.Jón G. Hauksson[email protected]

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.