Félagar, við vorum sviknir (JGH)

Pistlar


jong-2011Það var það sem mig grunaði þegar ég spurði í síðasta pistli hvað hefði orðið um „gíslatöku SA“ við undirskrift samnings ASÍ og SA í Karphúsinu. ASÍ lýsti því yfir skömmu fyrir 1. maí, eftir að upp úr viðræðum slitnaði, að nú þyrfti að sverfa til stáls og brjóta gíslatöku SA og „grímulausa hagsmunagælsu fyrir LÍÚ“ á bak aftur.


Eftir nokkra daga viðræðuslit og fýlu féll skyndilega allt í ljúfa löð og skrifað var undir með slíkum faðmlögum. Við undirritun var ekkert sagt frá gíslatökunni og hvernig henni hefði lyktað.


Núna er komið á daginn að ríkisstjórnin gaf loforð um að ekki yrði hjólað í sjávarútveginn með firningaleiðinni, þ.e. að hirða kvótann af útgerðunum á tuttugu árum, sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur barist svo hatrammlega fyrir.


Samtök atvinnulífsins trúðu ríkisstjórninni og komu aftur að samningaborðinu. Þau trúðu því að hin heilaga Jóhanna væri heiðarleg og sviki ekki.


„Það kom bókun frá ríkisstjórninni um að við kæmum að efnislegri umræðu um kvótamálið og tryggt yrði að sjávarútvegurinn hefði góð rekstrarskilyrði,“ segir Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.


„Ef það verður þannig að þetta frumvarp rýri sjávarútveginn allsvakalega þá förum við ekki út í þriggja ára samning. Þá er samningurinn upp í loft,“ bætir Vilmundur við.


Kvótafrumvörpin, sem ríkisstjórnin leggur fram á alþingi í næstu viku, eru til þess fallin að setja allt í loft upp. Félagar, við höfum verið sviknir, er það sem formaður SA er í raun að segja. Ekki hefur heyrst stuna í ASÍ vegna svika ríkisstjórnarinnar.


Með kvótafrumvörpunum hyggst ríkisstjórnin innkalla allan kvóta á einu bretti og úthluta honum að nýju í tímabundna samninga til 15 ára. Veiðgjaldið; auðlindagjaldið, sem útgerðir greiða hækkar úr um 3 milljörðum króna í um 5,9 milljarða króna á ári. Heimildir til að framselja kvóta verða takmarkaðar og nýtingaleyfi mynda ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði yfir veiðiheimildum. Þá verður lögfest að nytjastofnar verði þjóðareign.


Þráinn Eggertsson hagfræðingur sagði í viðtali við Frjálsa verslun nýlega að kvótakerfið væri merkilegasta framtak Íslands í skipulagsmálum og það hefði gefið góða raun við að úthluta aflaheimildum milli skipa og hvetja til samkeppni.


Þá sagði Þráinn: „Að innkalla og endurselja kvótana er í raun ómerkilegur þjófnaður. Ríkisvaldið hyggst knýja þá sem keypt hafa kvótana fullu verði til að kaupa þá aftur. Getur þjóðarsálin veikst?“


Erfitt verður að sjá annað en að allt muni loga í málaferlum og það fari fyrir dómstóla hvers virði það var að kaupa kvóta, samkvæmt lögum um fiskveiðistjórnun. Hafði sá gjörningur ekkert lagalegt gildi?


Ríkisstjórnin nýðist á röngum útgerðum, þeim sem hafa keypt kvótann fullu verði af þeim sem eru horfnir út úr greininni.


Kvótakerfið var sett á til að verjast hrun fiskistofna. Um 1990 var sett í lög að kvótinn yrði framseljanlegur til að ná fram hagræðingu í greininni. Jóhanna og Steingrímur voru í þeirri ríkisstjórn sem setti þau lög.


Kaup og sala á kvótum sl. tuttugu ár byggir á þessum lögum. Góðar útgerðir tóku lán og yfirtóku aðrar með kvóta sem voru við það að fara á höfuðið og úr varð mikil hagræðing. Ríkisbönkunum var bjargað. Landsbankinn og Búnaðarbankinn hefðu aldrei þolað að fá í fangið hundruð gjaldþrota sjávarútvegsfyrirtækja. Bankakerfið hefði hrunið.


Núna er komið á daginn að yfir 90% af öllum kvóta hefur verið keyptur, samkvæmt þeim lögum sem sett voru 1990 og spila þurfti eftir. Næstum helmingur af skuldum útgerða er talinn vera vegna kaupa á kvóta.


Árið 2000 skilaði Auðlindanefnd undir stjórn Jóhannesar Nordals af sér skýrslu um að greiðsla fyrir auðlindina gæti skapað sátt um stjórnun fiskveiða. Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, var í þessari nefnd ásamt fleirum.


Úr varð svokölluð veiðigjaldsleið sem tekin var upp árið 2002. Mörgum hefur þótt gjaldið svo lágt að það sé til málamynda. Á síðasta ári gaf það af sér um 1,5 milljarða, 3 milljarða á þessu ári og mun líklegast gefa af sér um 5,9 milljarðar króna, verði frumvarpið samþykkt.


Veiðigjaldið er frádráttarbært frá skatti þannig að fari það í 5,9 milljarða minnkar tekjuskattstofninn um sem því nemur.


Hún er líka furðuleg sú árátta að ræða ávallt um hagnað sjávarútvegsins fyrir fjármagnsliði og segja kinnroðalaust að það sé hagnaður greinarinnar. Það er mikill blekkingarleikur. Hagnaður allra atvinnugreina er hagnaður eftir vexti og skatta.


Ragnar Árnason hagfræðingur, sem er manna fróðastur um fiskihagfræði, fiskveiðistjórnun og kvótakerfið, hefur sagt að með frumvarpinu verði sjávarútvegur gerður óhagkvæmari, framlag hans til þjóðarbúsins minnki og óhagkvæmnin vaxi með tímanum af því að það dragi úr fjárfestingum, nýsköpun og markaðsstarfi.


Það er margt skrítið í kýrhausnum. Í fréttum segir að Evrópusambandið vilji taka upp íslenska kvótakerfið vegna þess hve gott það er, einmitt á sama tíma og við ætlum að fórna því.


En hvers vegna kemur það mér og öðrum ekki á óvart að þessi ríkisstjórn hafi náð SA að samningaborðinu með loforðum sem hún ætlaði sér aldrei að standa við og sveik áður en blekið var þornað?Jón G. Hauksson


[email protected]

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.