Aðförin að Geir Haarde (JGH)

Pistlar


jong-2011Það er hægt að taka undir með þeim sem gagnrýna saksóknara Alþingis fyrir að opna sérstakan vef helgaðan málsókn þingsins gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Það er eitthvað mjög óhugnanlegt við að saksóknari reki mál utan réttarsala og á vefnum. Aðförin að Geir hefur tekið nýja og mjög óvænta stefnu. Þetta er Alþingi ekki til sóma og fingraför stjórnarráðsins og fyrrverandi andstæðinga hans í pólitík eru bersýnilega á þessari aðferðafræði.


Andrés Magnússon blaðamaður er einn þeirra sem hefur skrifað um þetta mál og birtist góð grein eftir hann í Morgunblaðinu undir heitinu Tilræði við réttarríkið.


Hann segir í greininni að það sé ástæða fyrir því að réttarfarið sé með þeim hætti, sem lög og venjur hafa staðið til, en hún sé réttarvernd sakborninga gagnvart ofurefli ríkisvaldsins.


„Saksóknari má ekki gefa út ákæru nema meiri líkur en minni séu á sakfellingu (þó í þessu máli sé það raunar Landsdómur sjálfur sem gefur út ákæruna og eigi síðan að dæma um réttmæti eigin ákæru). Sakborningar mega haga vörn sinni eins og þeir telja sér best henta, þar á meðal á opinberum vettvangi, en saksóknarinn verður að halda sig við réttinn,“ segir Andrés.


Þegar ákæran á hendur Geir H. Haarde er lesin er mjög erfitt að átta sig á hver ákæruatriðin eru og fyrir hvað hann situr á sakamannabekk.


Þegar umræðan um Icesave stóð sem hæst kom í ljós hversu snjall leikur það var hjá Geir að setja neyðarlögin og bjarga því sem bjargað varð þegar hinn alþjóðlegi fjármálafellibylur reið yfir landið og úr varð bankahrun, gengishrun og efnahagslegt hrun.


Hver veit nema saksóknari Alþingis muni halda því fram á vefnum að Geir hafi komið hinni alþjóðlegu fjármálakrísu af stað. Krísu sem hefur gert hundruð banka í Evrópu og Bandaríkjunum gjaldþrota. Ekki veit ég til þess að forsætisráðherrar eða bankastjórar seðlabanka í þeim löndum séu álitnir sökudólgar og komnir á sakamannabekk.


Það var stórkostlegt afrek að hægt væri að halda úti greiðslukerfi hér innanlands fyrstu dagana eftir hrunið. Hefði það hrunið líka hefði skaðinn orðið margfaldur og skálmöld og þjófnaðir blasað við.


Nútíma viðskipti ganga út á kortaviðskipti. Með það kerfi hrunið og peninga í umferð af skornum skammti hefði fljótlega orðið útilokað að greiða fyrir matvörur, lyf og aðrar nauðsynjavörur.


Þá hefði ríkt hér fullkomið kaós, fullkomin upplausn og fólk hefði brotist inn í búðir til að ná sér í matvörur og aðrar nauðsynjavörur.


Hræsnin í kringum atkvæðagreiðsluna á Alþingi um það hvort draga ætti Geir H. Haarde fyrir Landsdóm verður lengi í minnum höfð – og ljótur blettur á Samfylkingunni sem ævinlega leikur tveimur skjöldum í málum og kemst upp með það.


Sú aðferðafræði að opna sérstakan vef helgaðan málsókn þingsins gegn Geir vekur upp þá spurningu hvort saksóknari Alþingis ætli sér að móta almenningsálitið í þessu máli.


Andrés Magnússon segir í grein sinni að sakborningar megi haga vörn sinni eins og þeir telja sér best henta, þar á meðal á opinberum vettvangi, en saksóknarinn verði að halda sig við réttinn.


Þessi aðferðafræði saksóknara Alþingis kemur upp á sama tíma og Björn Bjarnason gefur út bók sína Rosabaug yfir Íslandi. Tilgangur bókarinnar er að greina þær aðferðir sem beitt var í Baugsmálinu til að móta almenningsálit í þágu Baugsmanna, vega að réttarvörslukerfinu og hafa áhrifa á niðurstöðu dómara, eins og Björn segir í bókinni.


Í Rosabaugi yfir Íslandi fer Björn yfir mat sitt á því hvernig Baugsmenn höguðu vörn sinni til að móta almenningsálitið og hvernig þeir stilltu því upp sem pólitísku máli en ekki sakamáli – og að það væri runnið undan rifjum Davíðs Oddssonar forsætisráðherra.


„Áróðri Baugsmanna var haldið fram í fjölmiðlum þeirra og dreift endurgjaldslaust inn á hvert heimili í landinu. Víðlesnustu rithöfundar landsins slógu Baugstakinn. Dýrustu lögmenn landsins stóðu alvarlegir í bragði frammi fyrir sjónvarpsmyndavélunum og gáfu til kynna að Baugsmenn sættu pólitískum árásum, lögreglu væri sigað á þá án nokkurra saka af þeirra hálfu. Vegið var að stjórnmálamönnum sem Baugsmenn töldu sér óvinveitta. Á bak við áróðurinn stóð voldugasti auðhringur Íslandssögunnar,“ segir í bókinni.


Ætlar saksóknari Alþingis að móta almenningsálitið og hafa áhrif á niðurstöðu Landsdóms með því að opna vefinn? Hvers konar aðferðafræði er þetta? Þarf Geir Haarde að verja sig bæði í réttarsal og á vefnum - og svara sóðaskrifum í bloggheimum reglulega?


Sumir lögfræðingar eru duglegri en aðrir við að reka mál sín í fjölmiðlum og hafa þeir verið nefndir fjölmiðlalögfræðingar. Þeir eru alltaf komnir í fjölmiðla með mál sín; sama hversu smávægileg þau eru.


Erlendis er sú aðferð þekkt hjá lögfræðingum að reka mál í fjölmiðlum. Það gera þeir t.d. með því að leka alls kyns gögnum í fjölmiðla og fá viðtöl við sig. Ýmsir hafa haft orð á því eftir hrunið að hér á landi leki upplýsingar frá bönkum, lögfræðingum og skiptastjórum í gjaldþrotamálum í meira mæli í fjölmiðla en áður.


Það er gott að gegnsæi sé á sem flestum sviðum. Þó finnst mér undarlegt að saksóknari Alþingis opni sérstakan vef helgaðan málsókn þingsins gegn Geir H. Haarde. Hann á að halda sig við réttarsalinn.


Það leggur pólitískan daun af ákærunni á hendur Geir og hefur gert frá upphafi. Það er það ljóta í málinu. Vefur saksóknara Alþingis ber sterkan pólitískan keim með sér.Jón G. Hauksson


[email protected]Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.