Hvað verður um Evrópu ? (BJ)

Pistlar

benedikt06Meðan á landsfundi Sjálfstæðisflokks stóð töluðu margir utanflokksmenn um að stefna flokksins í Evrópumálum bæri keim af harðlínu. Það var augljóst að þeir höfðu ekki verið á fundinum. Vissulega eru margir flokksmenn ósveigjanlegir í sinni afstöðu og sumir töldu eflaust best að Evrópusinnarnir færu úr flokknum. Á fundinum kom þó í ljós að í þetta sinn var þetta minnihluti. Síðast var það samþykkt með afgerandi meirihluta að slíta viðræðunum. Sumir sögðu að tillögunni hefði verið laumað seint á dagskrá og margir hefðu verið farnir. Það var að vísu rétt, en meirihlutinn var svo stór að ekki þurfti að efast um vilja meirihluta landsfundarfulltrúa.

 

Nú var sambærileg tillaga felld í skriflegri atkvæðagreiðslu með 2/3 hlutum atkvæða. Sumir Evrópuandstæðingar voru reiðir yfir því að atkvæðagreiðslan skyldi endurtekin eftir að talning með handauppréttingu hafði sýnt heldur fleiri með. Sjálfur hefði ég ekki mótmælt skriflegri atkvæðagreiðslu ef munurinn hefði verið á hinn veginn. Það var einfaldlega mjög mjótt á munum. Þess ber líka að geta að nokkrir af helstu stuðningsmönnum þess að slíta viðræðunum lýstu sig sátta við niðurstöðurnar.

 

Ég er þeirrar skoðunar að best hefði verið að kjósa um aðildarumsókn í þjóðaratkvæðagreiðslu vorið 2009. Í mars það ár sagði ég í grein í Fréttablaðinu:

 

„Kannski er málið svo stórt að það er stjórnmálamönnum ofviða. Líklega er réttast að kjósa um aðildarumsókn samhliða alþingiskosningum í vor. Samþykki þjóðin að sækja um aðild hafa ráðin þar með verið tekin af stjórnmálaflokkunum. Ef ekki væri það þjóðin sjálf sem hefði ákveðið að hér eigi að vera annars flokks þjóðfélag til frambúðar.

 

Við eigum ekki að sækja um aðild að Evrópusambandinu fyrir Samfylkinguna heldur fyrir framtíðina. Þeir sem vilja ganga til liðs við nágrannaþjóðirnar og ná þannig efnahagslegum og pólitískum stöðugleika eru ekki stuðningsmenn Evrópu heldur stuðningsmenn Íslands. Kjósum um aðildarumsókn og leyfum þjóðinni að tala. Ég treysti þjóðinni miklu betur til þess að taka rétta ákvörðun en stjórnmálamönnunum.“

 

Skoðun mín hefur ekki breyst. Hins vegar eru aðstæður bæði á Íslandi og í Evrópu með þeim hætti að það getur verið skynsamlegt að staldra við. Í grein í Fréttablaðinu skömmu fyrir landsfundinn sagði ég:

 

„Í júní 2009 samþykkti  Alþingi að Ísland skyldi sækja um aðild. Margt er þó með þeim hætti að rétt er að staldra við. Flestir eru sammála um að umgjörð samningaviðræðnanna sé í ólestri vegna sundurþykkis stjórnarflokkanna. Á degi hverjum birtast sögur um vanda einstakra Evrópuríkja og enginn veit á þessari stundu hvernig tekst til um viðbrögð. Endurskoðun á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins ekki lokið. Niðurstöður skipta Íslendinga miklu máli. Því er eðlilegt að margir vilji sjá hvernig til tekst. Í slíku stórmáli þarf að vanda til verka á öllum sviðum og stuðla að víðtækri sátt meðal þjóðarinnar um vinnubrögð.

 

Þó að menn greini á um aðild að Evrópusambandinu er æskilegt að ná samstöðu um hvernig málinu skuli lokið. Sjálfstæðismenn ættu að sameinast um að beina málinu í nýjan farveg þannig að erfiðustu þáttum verði ekki að fullu lokið fyrr en árið 2013.“

 

Eftir landsfundinn sumarið 2010 fékk ég tugi tölvupósta frá óánægðum sjálfstæðismönnum sem margir vildu skilja við flokkinn og bjóða fram sérstakan hægrilista sem stuðlaði að því að málið kæmist í höfn. Nú fékk ég líka mjög marga pósta sem nánast allir voru á þá lund að þetta væri viðunandi niðurstaða. Hendur flokksforystunnar eru ekki lengur bundnar og framtíðin í höndum þjóðarinnar.

 

Þegar Íslendingar stíga jafnstórt skref og að fara úr aukaaðild að Evrópusambandinu í fulla aðild er rétt að fara að öllu með gát. Það er ekki nóg að samningar verði þjóðinni hagfelldir. Meirihlutinn verður að vera sannfærður um að það sé gæfuspor að ganga í sambandið. Ég er þeirrar skoðunar að miðað við ástandið í Evrópu núna sé tilgangslítið að ljúka viðræðunum. Jafnvel þó að samþykkt yrði að Íslendingar mættu halda sinni fiskveiðilögsögu um alla framtíð, hafa landbúnaðarkerfið eins og þeim hentar og taka upp evru þá og þegar áhugi væri á myndi slíkur samningar eiga erfitt í kosningum. Fólk vill einfaldlega sjá hvernig Evrópuþjóðunum og evrunni vegnar á næstunni. Tíminn vinnur með Íslendingum á hvorn veginn sem málin fara. Við höfum þann lúxus að geta beðið.

 

 

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.