Eftirlit með eftirlitinu (JGH)

Pistlar


jong-2011Við elskum eftirlit. Ef við ökum of hratt þá hallmælum við eftirliti löggunnar, annars finnst okkur eftirlit hennar vera nauðsynlegt; sérstaklega hafi hún eftirlit með öðrum. Þessa vikuna hefur allt snúist um eftirlit.


Evrópa er undir eftirliti, gömlu víkingarnir, bankarnir, lífeyrissjóðirnir, Hinn sérstaki og svo er Fjármálaeftirlitið sjálft undir eftirliti ráðherra og þingmanna sem eru svo aftur undir ströngu eftirliti. Eftirlit er að verða helsta atvinnugrein þjóðarinnar eftir að ríkisstjórnin tók við og þar er sennilega skýringin á hagvextinum komin - ekki er hann vegna fjárfestinga atvinnulífsins.


Hinn Sérstaki setur menn í gæsluvarðhald til að hafa betra eftirlit með þeim. Svo dundar hann sér við að hlera síma fyrrum bankamanna og fer með spólurnar í háttinn – og sofnar út frá þeim líkt og aldraðir á elliheimilum sem setja disk í spilarann og sofna út frá sögum af bókasafninu. 


Eflaust eru græjur og heyrnartæki Hins Sérstaka í mismunandi stærðum, útliti og styrkleika. Það þarf að nást gott hljóð þegar þeir hvísla í símann – vegna þess að víkingarnir vita að þeir eru hleraðir og undir eftirliti.


Það er gott ráð að fara með farsímann inn í baðherbergi og láta renna í baðið á meðan að talað er í annan farsíma utandyra. Ég hef séð í bíómyndum, eins og Lífi annarra, að það má blekkja þá sem hlera. Maður er uppfullur af fróðleik um svona hluti eftir allt bíómyndaglápið.


Fjármálaeftirlitið er kapítuli út af fyrir sig og er farið að stjórna Hinum Sérstaka. Það segir honum fyrir verkum og sendir honum ný mál á hverjum degi - sem og gömul mál sem þurfi að rannsaka aftur og aftur. Þetta er gert í nafni þess að það sé verið að byggja upp trúðverðugleika Fjármálaeftirlitsins.


Það má skilja umræðuna þannig að Fjármálaeftirlitið vilji vera sjálfráða um það hvað það fær mikið fé í reksturinn og líti á sig sem stofnun utan við aðrar stofnanir. Fjármálaráðherra vill hins vegar hafa eftirlit með Fjármálaeftirlitinu.


Eftir hrun hefur hrúgast inn fólk í Fjármálaeftirlitið til að hafa eftirlit með bönkum, lífeyrissjóðum og fjármálafyrirtækjum einmitt þegar ekkert er að gerast í fjármálalífinu. Það er ekki útlit fyrir að bankar nái sér á strik á næstunni vegna skuldakreppunnar í heiminum en einmitt þá þarf að fjölga starfsmönnum í eftirlitinu.


Hinn Sérstaki lá í þrjú ár yfir fjárfestingarstöðu fimm lífeyrissjóða frá fyrri hluta ársins 2008 sem tímabundið voru með vitlaus hlutföll í fjárfestingum. Gamli Landsbankinn rak þessa lífeyrissjóði og Fjármálaeftirlitið sendi Hinum Sérstaka málið.


Þegar þetta gerðist á fyrri hluta ársins 2008 og hlutaðeigendur áttuðu sig á mistökunum með hlutfall fjárfestinga – og að farið hafi verið tímabundið út fyrir lagaramma um fjárfestingarákvarðanir – var þessu kippt í liðinn í skyndi og hlutfallið lagað. Menn héldu þá að málið væri dautt.


Svo kom úrskurður í endaðan september sl. sem sagt var frá á heimasíðu Landsbankans. Hinn Sérstaki komst að því eftir þriggja ára rannsókn að best væri að hætta þessari rannsókn á hlutföllum í þessa örfáu daga fyrir þremur og hálfu ári. Nýi bankinn sendi frá sér tilkynningu í kjölfarið og fagnaði þessari niðurstöðu og að óvissu hefði verið eytt.


Nei, þá kemur Fjármálaeftirlitið aftur fram og sættir sig ekki við niðurstöðu Hins Sérstaka og kærir aftur og vill að Hinn Sérstaki skoði málið betur. Núna heldur rannsókn lögfræðinga og viðskiptafræðinga á háum launum áfram í þessu furðulega máli.


Nýlega hélt einn þessara lífeyrissjóða fund og tíu til fimmtán manns mættu. Einn fundarmanna var lögfræðingur frá Fjármálaeftirlitinu sem fylgdist rækilega með því sem fram fór á fundinum að hætti Stasi.


Ríkið sjálft er að vísu með allt niður um sig í lífeyrismálum og búið að lofa um 500 til 600 milljörðum umfram getu til opinberra starfsmanna. En það erum við skattborgararnir og sjóðfélagar í öðrum sjóðum sem eigum að standa skil á því – og redda LSR.


Einn stjórnarmanna í Fjármálaeftirlitinu skrifaði grein í Morgunblaðið á dögunum. Það var Sigurður Þórðarson, fyrrum ríkisendurskoðandi. Hann varði auðvitað að stjórn Fjármálaeftirlitsins hefði fengið stórhækkuð laun og talaði um mikla ábyrgð þessarar stofnunar og stjórnarmanna hennar.


Hann sagði að hver stjórnarfundur tæki 5 tíma og á dagskrá væri fjöldi mála sem stjórnarmenn þyrftu að búa sig undir og setja sig inn í. Gögn væru lögð fyrir stjórnarmenn fyrir hvern fund að umfangi 50 til 100 blaðsíður. Fundarseta og undirbúningur fyrir hvern fund tæki ekki undir 13 klukkustundum. Og í þessu álagi hefðu stjórnarlaun hækkað um 35% frá janúar 2009.


Ég skil Sigurð vel og hef samúð með honum vegna vinnuálags. Hann hefur að vísu meiri tíma í lesturinn eftir að hann varð pensjónisti.


Stjórnarmenn í Fjármálaeftirlitinu þurfa að lesa skýrslur og hafa eftirlit með því hvað allir starfsmenn eftirlitsins eru að brasa á daginn, eins og þegar þeir mæta m.a. á fundi hjá lífeyrissjóðum og gefa skýrslur um hvað þar fari fram. Það þarf margt fólk til að lesa fundargerðir lífeyrissjóðanna og gera athugasemdir við þær  - svo þeir finni fyrir eftirlitinu. 


 


Sigurði tekst best upp í rökstuðningi sínum í greininni í Morgunblaðinu þegar hann segir: „Þegar þeim breytingum sem nú er verið að innleiða hjá FME er lokið verður annarsvegar til verklag sem tryggir að eftirlitið uppfyllir lágmarkskröfur um skilvirkt eftirlit og hinsvegar stjórnunarupplýsingar er gefa mynd af virkni starfa og árangri eftirlitsins. Þannig er hægt að meta umfang, kostnað og hvort stofnunin uppfyllir kröfur sem lagðar eru á eftirlitið skv. lögum.“


Þetta er hverju orði sannara, að vísu er þetta svolítið flókið orðalag. Það þarf að hafa eftirlit með eftirlitinu. Það er stóra málið.


Mér líður vel. Ég er undir stöðugu eftirliti. Sjálfur er ég ekki búinn að setja gps-tæki í bíl konu minnar; það er í pöntun. Þegar það kemur get ég byrjað í eftirlitinu fyrir alvöru.


Mikið óskaplega var hrunið gott fyrir eftirlitsiðnaðinn. Hrunið stafaði víst ekki af útlánabólunni heldur ónógu eftirliti. Þar höfum við það. Þetta var allt öðrum að kenna þegar við tókum áhættu og skiptum í græðgi við bankana, ekki síst þegar við settum í sjóði níu, tíu og ellefu eða hvað þeir hétu.


Nú er maður sjálfur kominn í eftirlitsiðnaðinn - þar er best borgað og mesta launaskriðið enda mikið verk að lesa skýrslur um allt eftirlitið.


Ég ætla að setja heyrnartækið á mig í kvöld og hlusta á gömlu verðbréfaguttana. 


Ég heyri ekki orðaskil, þurfti hann nú endilega að láta renna í baðkarið, bévískur.Jón G. Hauksson


jgh@heimur.is

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.