Eyjólfur Árni maður ársins hjá Frjálsri verslun (JGH)

Pistlar


jong-2011Hér kemur ræða sem ég flutti fyrir hönd dómnefndar í veislu á Hótel Sögu þegar Frjáls verslun útnefndi Eyjólf Árna Rafnsson, forstjóra Mannvits, mann ársins 2011 í íslensku atvinnulífi. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra afhenti viðurkenninguna. Bogomil Font, Sigtryggur Baldursson,  tók nokkur lög en með honum voru þeir Ástvaldur Traustason píanóleikari og Óttar Sæmundsen bassaleikari. Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri Heims, setti hátíðina og stýrði samkomunni. Margir mættu í veisluna til heiðurs Eyjólfi Rafni og fjölskyldu.


Ræðan var svona:


Maður ársins í íslensku atvinnulífi árið 2011,


menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir,


starfsmenn Mannvits


góðir gestir.


Það er minnst á mannvit á fjórum stöðum í Hávamálum!


Að vísu ekki verkfræðistofuna, en mannvit.


Þegar verkfræðistofurnar Hönnun, VGK og Rafhönnun voru sameinaðar fyrir fjórum árum varð nafnið Mannvit fyrir valinu á hinu nýja fyrirtæki.


Verkfræði byggist á mannviti og þekkingu.


Það var Sigurður Arnalds, stjórnarformaður Mannvits, sem á heiðurinn að nafninu.


Það er starfsmanna Mannvits að standa undir þessu stóra nafni.


Það hafa þeir svo sannarlega gert undir forystu Eyjólfs Árna Rafnssonar, 54 ára byggingarverkfræðings, sem Frjáls verslun útnefnir hér í dag Mann ársins í atvinnulífinu á Íslandi árið 2011.


Eyjólfur Árni er doktor í byggingarverkfræði frá bandaríska háskólanum University of Missouri-Rolla. Sérsvið hans er jarðtækni og grundun, sveiflufræði í jarðvegi og umhverfismál.


Hann hefur verið forstjóri Mannvits frá upphafi og var þar áður framkvæmdastjóri Hönnunar frá árinu 2003.


Eftir nokkra reynslu af beinum verkfræðistörfum og kennslu við Háskóla Íslands hefur hlutskipti hans síðustu árin verið stjórnun.


Í stórskemmtilegu og fróðlegu viðtali við Sigurð Má Jónsson blaðamann í Frjálsri verslun játar Eyjólfur með bros á vör að hann kunni núorðið sáralítið í verkfræði.


Veislugestir góðir!


Eyjólfur Árni er vel að þessari útnefningu Frjálsrar verslunar kominn.


Hann hlýtur þennan heiður fyrir árangur við að virkja íslenskt hugvit í þágu atvinnulífsins; fyrir nýsköpun; fagmennsku í rekstri; athafnasemi og útsjónarsemi sem gert hefur Mannvit að framúrskarandi fyrirtæki og langstærsta ráðgjafafyrirtæki á sviði verkfræði og tækni á Íslandi.


Í mestu kreppu Íslandssögunnar hefur verkfræðistofan Mannvit færst í aukanna og aukið bæði veltu sína og hagnað þrátt fyrir minni framkvæmdir í vegagerð og almennri mannvirkjagerð, hrun í byggingariðnaði og sáralítil verkefni á vegum ríkis og sveitarfélaga.


Áætluð velta þessa árs er um 8,4 milljarðar og jókst um 28% frá í fyrra. Hagnaður verður um 900 milljónir króna gangi áætlanir eftir.


Fyrirtækið er í 78. sæti á lista Frjálsrar verslunar yfir stærstu fyrirtæki landsins.


Starfsemi Mannvits er fyrst og fremst á Íslandi og koma mestar tekjur af þjónustu við álverin og orkufyrirtækin. Það er með starfsemi og dótturfélög í Bretlandi, Þýskalandi, Ungverjalandi og er að hefja starfsemi í Chile með áherslu á jarðvarmaverkefni.


Góðir hálsar!


Ég var spurður að því í jólaveislu fjölskyldunnar í gær hver yrði maður ársins að þessu sinni.


Þegar ég sagði Eyjólfur Árni Rafnsson kom undrunarsvipur á viðmælanda minn sem sagðist ekki kannast við manninn en hafði heyrt minnst á fyrirtækið Mannvit.


Hvað hefur hann sér til fræðgar unnið? spurði viðmælandi minn á móti.


Ég svaraði því til að í mestu kreppu lýðveldisins þar sem byggingariðnaður og opinberar framkvæmdir hefðu hrunið hefði verkfræðistofa blómstrað og færst í aukanna og væri á meðal stærstu fyrirtækja landsins.


Ég bætti því svo við að líklegast væri mesta afrek hans að geta stýrt um 400 verkfræðingum og tæknimenntuðu fólki?


Í bridge-klúbbnum mínum eru tveir verkfræðingar og einn tæknifræðingur. Og ég segi alveg eins og er; að það reynir oft mjög á þolinmæðina þegar þeir vinna úr spilunum og búa til nákvæma aðgerðaráætlun.


Þá þarf að beita brostækninni frægu sem færði okkur Bermúdaskálina.


Og hér er maður sem stýrir 400 hundruð verkfræðingum!


Ég var líka spurður að því í gær hvort verkfræðistofa væri fyrirtæki.


Verkfræðistofa er vissulega ekki iðnfyrirtæki af gamla skólanum eða verslun. En þar sem 400 hundruð verkfræðingar koma saman þar er ekki bara skógur af þekkingu – þar er eitthvað um að vera.


Hvað þá þegar veltan er 8,4 milljarðar og hagnaðurinn 900 milljónir.


Mannvit virkjar íslenskt hugvit í þágu atvinnulífsins!


Þegar við gerðum fréttatilkynninguna í hádeginu og ég sendi hana á Eyjólf Árna, sagði hann. Má ég biðja þig Jón um að bæta samstarfsfólkinu við; að ég hljóti þennan heiður ásamt því við að virkja íslenskt hugvit í þágu atvinnulífsins.


Þegar við ákváðum fyrir rúmum mánuði að Eyjólfur Árni yrði maður ársins var lokaspurningin sú hvaða orð hann hefði á sér.


Eftir að hafa hringt  í menn sem þekkja til hans varð útkoman eiginlega fullgóð.


Einn sagði: Þetta er sveitamaður í húð og hár úr Skaftafellssýslunni sem hefur náð langt.


Og fyrst Sigurður Arnalds fór í Hávamálin ætla ég að gera það sama: Orðstír deyr aldrei, þeim er sér góðan getur.


Veislugestir góðir!


Þetta er í 24. skipti sem Frjáls verslun útnefnir mann ársins í atvinnulífinu á Íslandi. Þetta eru elstu verðlaun í viðskiptalífinu á Íslandi.


Ég vil þakka Sigurði Má Jónssyni blaðamanni fyrir hið yfirgripsmikla og góða forsíðuviðtal við Eyjólf Árna í Frjálsri verslun. Sigurður kom með þessa fínu fyrirsögn á forsíðu: Mannvit verður í askana látið!


Í dómnefnd Frjálsrar verslunar sitja auk mín: Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri Heims, útgáfufélags Frjálsrar verslunar, en hann er formaður nefndarinnar. Ársæll Valfells, lektor við Háskóla Íslands, Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri Norvikur og aðaleigandi Byko, og Sigurður Helgason, stjórnarformaður Icelandair Group.


Eyjólfur Árni Rafnsson er giftur Egilínu S. Guðgeirsdóttur. Hún er úr Vík í Mýrdal. Hún er sveitapiltsins draumur.


Þau eiga fjóra syni og fimm barnabörn.


Ég vil óska henni, börnunum og starfsmönnum Mannvits til hamingju með daginn.


Ágætu gestir:


Lyftum glösum.


Hér fer hógvær, rólegur og góður maður sem við heiðrum.


Hávamál og mannvit.


Orðstýr deyr aldrei þeim er sér góðan getur.


Eyjólfur Árni Rafnsson er maður ársins í atvinnulífinu á Íslandi árið 2011.


Með auðmýkt og virðingu, segi ég:


Þína skál.Jón G. Hauksson[email protected]

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.