Stjórnin á skilorði (JGH)

Pistlar


jong-2011Stjórnin lifir þann óróa af sem núna er innan stjórnar- flokkanna og það þótt hún sé á skilorði forseta ASÍ. Hún lifir allar krísur af því eina markmið hennar er að lifa af. Þetta er hins vegar erfitt hjónaband og það hefur byggst á vantrú og tortryggni í garð hvors annars frá fyrsta degi. Að þessu sinni sýnist mér meiri ólga innan Samfylkingar. Hægri og miðju kratar eru engan veginn sáttir við að Árna Páli Árnasyni hafi verið fórnað svo Jóhanna kæmi Jóni Bjarnasyni í burtu. Í ofanálag kemur forseti ASÍ fram og segir að stjórnin sé á skilorði.


Árni Páll hefur verið helsti Evrópusambandssinninn í Samfylkingunni og Jón Bjarnason hefur staðið harðast á móti aðildinni innan stjórnarinnar. Þá hefur Árni Páll ekki verið eins einarður og fullviss í kvótafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og Jóhanna.


Altént er ráðherrakapallinn að þessu sinni dæmi um plott og enn eina erfiðleikana við að halda ríkisstjórninni saman.


Svandís Svavarsdóttir upplýsti um áramótin við RÚV að vinstri flokkarnir stefndu á tólf ára valdaskeið og þyrftu tvö kjörtímabil í viðbót til að koma fram þeim breytingum á þjóðfélaginu sem þeir stefni að; sem vætanlega er hreinn kommúnismi hreinnar vinstri stjórnar.


Eftir atlöguna að Árna Páli hefur fjarað undan Jóhönnu sjálfri innan Samfylkingar og upp er komin krafa um að efna til aukalandsfundar – eða hvað sá fundur á að heita – og rætt er um að kosið verði um formann í Samfylkingu.


Samfylking er nýbúin að halda landsfund og þar var Jóhanna sjálfkjörinn leiðtogi. Eftir sigurinn sagðist hún ekki vera að hætta.


Í byrjun árs er því meiri öldugangur innan Samfylkingar og þar gætir augljóslega aukinnar þreytu með stjórnarsamstarfið.


Forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, er Samfylkingarmaður og það lýsir hroka að ræða um að einhver sé á skilorði. Skilorði hvers? Skilorði hans sem forseta ASÍ? Gylfi er ekki slíkur þungavigtarmaður.


Össur Skarphéðinsson lét hafa eftir sér um áramótin í Viðskiptablaðinu að Samfylkingin þyrfti nýjan formann og að nýr formaður þyrfti að vera tveimur kynslóðum yngri en Jóhanna; hvorki meira né minna. Svo taldi hann upp unga fólkið í flokknum – sem enginn sér að vísu fyrir sér sem kandídata.


Össur er plottari af guðs náð og með því að nefna tveimur kynslóðum yngri lætur Össur í veðri vaka að hann sé ekki kandídat í formanninn. Hann er úlfur í sauðagæru.


Jóhanna er fædd 4. október 1942 og heldur því upp á 70 ára afmælið í haust. Össur er fæddur 19. júní 1953 og verður því 59 ára í sumar.


Stjórnin stendur tæpt, hefur eins þingmanns meirihluta og hefur þurft að leita á náðir Guðmundar Steingrímssonar, Gumma á flandri, svo vísað sé í skaupið; sem sagði sig úr Framsóknarflokknum á síðasta ári en hann var áður í Samfylkingunni.


Guðmundur Steingrímsson fær mikla umfjöllun í fjölmiðlum en hann ætlar að stofna nýjan flokk á miðju stjórnmálanna með Besta flokknum; Jóni Gnarr. Hann auglýsti nýlega eftir nafni á flokkinn en stefna hans liggur að vísu ekki fyrir ennþá – nema að ganga í ESB.


Fyrir áramót ræddu Samfylkingarmenn við þingmenn Hreyfingarinnar um að styðja stjórnina. Það segir allt sem segja þarf um heimilsbölið á stjórnarheimilinu að það þurfi að leita í þessa áttina.


Hreyfingin gerir þá kröfu að Ásta R. Jóhannesdóttir láti af störfum sem forseti alþingis vegna þess að hún ákvað í samráði við formenn þingflokkanna fyrir jól, að tillaga Bjarna Benediktssonar um að ákæran gegn Geir Haarde verði felld niður, verði á dagskrá alþingis 20. janúar nk.


Undanfarna daga hafa verið sögusagnir um óvænta samskiptaerfiðleika á milli gömlu vin- og Þjóðvakakvennanna, Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Ástu R. Jóhannesdóttur, forseta Alþingis. Þá er bleik brugðið!


Ásta hefur látið velferð aldraðra nokkuð til sín taka á stjórnmálaferli sínum og er líklega þekktust fyrir þá baráttu sína, fyrir utan auðvitað að gegna starfi forseta alþingis.


Ef sögusagnir um stirðleika í samskiptum þeirra vinkvenna eru á rökum reistar þá er hreyfing á plottinu við Hreyfinguna.


Annað slagið koma upp umræður um að gamli fjórflokkurinn vilji ekki kosningar núna. Ekki skil ég þetta fjórflokksnafn, svo ólíkir eru flokkarnir. En hvers vegna ættu rótgrónir flokkar að vera hræddir við að fara í kosningar?


Hvers vegna ætti t.d. Sjálfstæðisflokkurinn að vera hræddur þegar hann er að ná fyrri stöðu í fylgi en fjarað hefur duglega undan Samfylkingu og Vinstri grænum. Hreyfingin mælist vart lengur.


Þetta fjórflokkstal er mjög sérkennilegt; að steypa gömu flokkunum í einn flokk; til þess eru þeir alltaf ólíkir. Eflaust fjölgar flokkum og flokksbrotum á næstunni. Ég held að Lilja Mósesdóttir eigi eftir að taka mikið frá Vinstri grænum.


Sumir telja að á næstu árum verði samstarf Besta flokks Guðmundar Steingrímssonar, Samfylkingar og Vinstri grænna líklegt stjórnarmynstur. Það efa ég stórlega.


Krísur á stjórnarheimilinu eru ekki nýjar af nálinni. Vinstri grænir hafa frá upphafi átt erfitt með að kyngja því að hafa gefið aðildina að ESB eftir í hjúskaparsáttmálanum. Sú eftirgjöf hefur klofið flokkinn.


Samfylkingarmönnum finnst eðlilega skrítið að Vinstri grænir séu alltaf að vandræðast  með ESB fyrst þeir á annað borð samþykktu að sækja um inngöngu í Evrópusambandið og hefja samningaviðræður þar um.


Auðvitað er alltaf hægt að ná í skilnaðarpappírana og skila makanum. Í þessu hjónabandi gildir hið fornkveðna; að fólk sem á ekkert saman á ekki að ganga í hjónaband. Þú lagar aldrei gallann sem þér finnst vera á unnusta þínum eða unnustu eftir að í hjónaband er komið. Þú tryggir ekki eftir á.


Jón Bjarnason hefur frá upphafi sagst vera á móti því að taka reglur ESB inn í stjórnsýsluna fyrr en þjóðin er búin að samþykkja aðild. Það gangi ekki upp að Ísland sé í aðlögun og færist smátt og smátt inn í ESB án samþykkis þjóðarinnar.


Jón segist segist hafa samþykkt samningaviðræður við ESB en ekki aðlögunarviðræður. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Þess vegna er Jóni fórnað úr ríkisstjórninni. En verður Steingrímur J. eitthvað skárri fyrir Samfylkingarmenn þegar á reynir?


Samfylkingarmenn gera stöðugt grín að Jóni Bjarnasyni og finnst hann svo vitlaus að engu tali tekur. Þegar hann var á dögunum spurður út í stjórnina talaði hann um veðrið og sögðu þá íbyggnir Samfylkingarmenn að hann hafi sýnt stjórnmálunum fyrirlitningu.


Á sama tíma ber Samfylkingin ábyrgð á Jóni Gnarr í borgarstjórn og finnst í lagi að hann svari út í hött í tíma og ótíma – og komi fram sem ráðgáta og utangátta.


Flestir furða sig á þeim vinnubrögðum að breyta ríkisstjórninni í óðagoti á lokadegi ársins og að slíkur flumbru- og gassagangur geti aldrei borið vott um mikla stjórnkænsku og stöðugleika. En mikið var greinilega í húfi.


Það er svo í stíl þessarar ríkisstjórnar að síðasta verk Jóns Bjarnasonar var að skipta um formann Hafrannsóknarstofnunar í miklu óðagoti og án skýringa.


Þetta er stíll stjórnarinnar í hnotskurn og lýsir mikilli desperasjón – sem og valdahroka.


Nýr fjármálaráðherra er Oddný Harðardóttir frá Samfylkingu segist leggja mikið upp úr kynjuðum fjárlögum. Er það forgangsmál í dýpstu kreppu Íslandssögunnar. Hún verður fjármálaráðherra í nokkra mánuði eða þar til Katrín Júlíusdóttir tekur þetta ráðuneyti að sér eftir fæðingarorlof.


Þetta er 4. ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur.


Gylfi Magnússon, Ragna Árnadóttir, Kristján Möller, Álfheiður Ingadóttir, Árni Páll Árnason, Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson. Allt eru þetta ráðherrar sem hafa farið. Ögmundur kom að vísu inn aftur eftir hlé; til að styrkja stjórnina auðvitað, svo vísað sé í Moggann um prófessorinn í háskólanum.


Steingrímur J. hefur frá upphafi kvartað undan því í fjölmiðlum að hann sé á kafi upp fyrir haus að hreinsa skítinn eftir aðra. Á honum hefur mátt skilja að þetta séu miklar fórnir og mikið álag.


Núna er hann hættur sem fjármálaráðherra og orðinn sjávarútvegs-, landbúnaðar-, efnahags- og viðskiptaráðherra og kippir iðnaðarráðuneytinu inn á borð til sín eftir einhverjar vikur. Um leið skellir hann þessum ráðuneytum í eitt atvinnuráðuneyti.


Stjórnin lifir af. Líklegast endar hún sem 8. ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur vorið 2013 með þau tvö innanborðs og enn á skilorði Gylfa Arnbjörnssonar. 


Þau reka hins vegar ekki hvort annað – til þess eru völdin of sæt; þess vegna lifir stjórnin af.Jón G. Hauksson


jgh@heimur.is

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.