Stjörnuleikur (BJ)

Pistlar

benedikt01Ég fór í leikhúsið á sunnudagskvöld. Sá Ljós heimsins. Mér er sagt að Jón Viðar skólabróðir minn hafi nánast gengið frá sýningunni í dómi í DV. Jón er oft glöggur og ég hef ekki séð ritdóminn, en sé það rétt að hann hafi gefið Áramótaskaupinu fjórar og hálfa stjörnu er samanburðarfræðinni eitthvað farið að förlast.

 

Við sátum á öðrum bekk. Einhvers staðar nálægt mér var uppspretta að sterkum áfengisþef. Ég held að hann hafi ekki komið af sviðinu. Ég keypti mér brjóstsykur í brakandi poka og tók þess vegna sex mola í lofann til þess að keppa ekki um athygli við leikarana. Það var ekki snjall leikur. Að vísu voru molarnir ágætir, en smám saman varð vinstri lófinn kámugri, en hann var krepptur um molana. Einhverjum kynni að þykja þetta ómerkilegt, en það er alls ekki þægilegt að vera með kámugan lófa á sýningu sem byggir á einhverju mesta listaverki bókmenntasögunnar. Hvað ef ég yrði skyndilega haldinn óstöðvandi þörf á að klappa? (Að vísu greip engin slík þörf mig í fyrsta þætti, en það vissi ég ekki fyrirfram).

 

Ég skotraði augum upp á sviðið og þegar mér sýndist enginn horfa á mig laumaðist ég til þess að sleikja lófann. Mjög pent þannig þeir sem sæju héldu í mesta lagi að ég væri að sleikja fingurgómana. Það er mjög erfitt að sleikja á sér lófann svo lítið beri á þegar maður situr á öðrum bekk í þéttskipuðum sal. Vinstra megin á þriðja bekk sat heimsfrægur leikstjóri og ég gat ekki betur séð en hann gæfi mér hornauga í hvert sinn sem ég svo mikið sem lyfti hendinni.

 

Á endanum gafst ég upp. Augnablik datt mér í hug að sitja ofan á hendinni til þess að ekki bæri á neinu, en þá hefði sykurhúðin sest aftan á nýhreinsaðar sparibuxurnar. Það hefði ekki litið vel út í hléinu. Því miður var ég ekki með neinn vasaklút heldur þannig að ég hafði ekki annað ráð en að sitja með hangandi hendi það sem eftir var þáttarins. Þá datt mér í hug hvort forsetinn, sem bráðum verður fyrrverandi ef bænir þjóðarinnar uppfyllast, fengi sér oft fylltan brjóstsykur. Þetta gæti skýrt margt. Það er ekki einleikið hvað hann á í miklum vandræðum með hendurnar á sér.

 

Maðurinn framan við mig var fremur höfuðstór og ég sá illa skipslíkan sem stóð fremst á sviðinu.

 

Ólafur Kárason var óttalegur aumingi. Lenti í einelti sem unglingur og gat aldrei gert neinum neitt til hæfis. Í sýningunni er hann gerður mikið kvennagull. Flestar konurnar sem girntust þetta óframfærna skáld voru ljómandi fallegar og það stytti mjög stundir þeirra sem hafa gaman af því að fylgjast með fallegum konum.

 

Það er erfitt að koma fjórum skáldsögum inn í eitt leikrit. Ég er ekki viss um að menn eigi að reyna slíkt. Alltaf verður einhverju sleppt og annað tekið með sem litlu skiptir. Sennilega ættu allir leikritahöfundar að flokka textann eftir mikilvægi og sleppa svo öllu sem er ekki mjög mikilvægt. Ég hefði sleppt Þóru skyggnu, nema þegar hún læknaði skáldið af lömuninni. Sú ástarsaga gekk illa upp.

 

Svo var barnið svolítið lengi að deyja.

 

Kjartan hefur áður beitt því bragði að láta tvo túlka sömu persónu. Það tókst miklu betur í Ofvitanum því að annar gat þá gert grín að hinum. Hér voru þeir Hilmir Snær og Björn Thors í samkeppni um hvor væri meiri vesalingur og lítið um grín. Þess vegna hefði verið gott að stytta leikritið um a.m.k. hálftíma.

 

Fyrsti þátturinn af þremur fannst mér ganga vel. Sá næsti var svolítið langur og stefnulaus, en sá þriðji aftur stefnufastari. Þá fann ég ekki lengur spíralyktina, en við Vigdís skiptum reyndar um sæti, sem kann að skýra málið. (Athugið að ég á ekki við að spíralyktin hafi verið af henni, heldur hafi ég færst fjarri upprunanum.) Þetta voru ekki sérlega góð skipti því að konan framan við mig var með hnút í hárinu þannig að þó að nú sæi ég skipslíkanið var Hilmir Snær ekki alltaf jafngreinilegur. Björn sást hins vegar vel.

 

Seinasti þátturinn af þremur var nokkuð dramatískur og leikritið endaði með svipuðum hætti og bókin.

 

Allir léku vel, líka þeir sem voru með lítil hlutverk. Sviðsmyndin truflaði mig ekki.Fegurðin ríkti samt ekki ein.  Ég hefði sleppt því að hella vatni yfir leikarana í tíma og ótíma. Einhverjum hefur eflaust þótt Pálmi ofleika Pétur þríhross, en hann er hálfgerð skrípapersóna af hálfu Halldórs. Halldór Guðmundsson segir að hann byggi að einhverju leyti á Hriflu-Jónasi og mér sýndist Pálmið koma að smátöktum þaðan, hvort sem það var viljandi eða ekki.

 

Er rétt að sjá Heimsljósið? Já, það er miklu betri sýning en til dæmis Gerpla sem sýnd var fyrir tveimur árum eða svo. Líklega er fullmikið færst í fang og Kjartan er kannski ekki í nógu góðri æfingu í leikhúsinu, því að hann er einhver flinkasti leikhúsmaður landsins. Leikstjórinn heimsfrægi entist ekki alla sýninguna en það kann að vera hrós.

 

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.