Ef Geir hefði sagt bankana gjaldþrota? (JGH)

Pistlar


jong-2011Núna berast fréttir um að bankakerfið í Danmörku sé orðið fjórfalt stærra en lands- framleiðslan þar í landi og að aukinn ótti sé við kerfishrun. Allt síðasta ár hafa helstu leiðtogar heims óttast kerfishrun banka í Evrópu vegna þess að skuldavandinn sem stafaði af útlánabólunni er enn óleystur.


Nýlega sagði bandaríska stórblaðið New York Times frá því að ríkisstjórnir í átta löndum Evrópu hefðu fallið vegna afleiðingar útlánabólunnar. Því er spáð að fleiri ríkisstjórnir eiga eftir að falla á þessu ári af sömu ástæðu; mjög líklega í Frakklandi og jafnvel í Þýskalandi.


Það kraumar undir; alls staðar. Obama gæti jafnvel tapað forsetakosningunum í nóvember vegna bandarískra fjármálafyrirtækja.


Evrópa er ekki ein í vanda. Fjármálakerfi alls heimsins eru á bjargbrúninni og hafa seðlabankar heimsins keyrt hreyflana í botn til að bjarga þeim og greiðslukerfum heimsins.


Engir hafa haft hugmyndaflug til að setja forsætisráðherra þessara landa á sakamannabekk fyrir að hafa ekki séð fjármálaóveðrið haustið 2008 fyrir og gripið inn í til að draga úr stærð bankakerfisins í álfunni.


Í litlu landi norður á hjara veraldar er annar háttur hafður á. Þar finna lítilmenni á Alþingi það út að best sé að setja fyrrverandi forsætisráðherra á sakamannabekk fyrir að hafa ekki gripið inn í frjáls fjármálaviðskipti og vilja koma honum á bak við lás og slá.


Það furðulega er að þetta eru ekki aðeins pólitískir andstæðingar hans. Núverandi forsætisráðherra, sem stendur í raun á bak við ákæruna, var í ríkisstjórn með Geir H. Haarde og sat meira að segja í sérstakri ráðherranefnd um ríkisfjármál.


Þegar hefur Landsdómur fallið frá nokkrum veigamiklum, upphaflegum ákærum. Eftir stendur þá að Geir H. Haarde er vændur um að hafa sýnt vanrækslu síðustu mánuðina fyrir hrunið  2008 og að hann beri pólitíska ábyrgð á hruni íslenskra einkabanka sem varð í kjölfar hins alþjóðlega bankahruns.


En hvað átti Geir að gera árið 2008? Í hverju fólst vanræksla hans? Jú, hann þagði opinberlega yfir áhyggjum innan ríkisstjórnarinnar um hvað tæki við ef erlendir bankar myndu gjaldfella lán til íslensku bankanna.


Var það vanræksla hjá Geir H. Haarde að sjá ekki flesta af stærstu bönkum heims í raun fara á höfuðið haustið 2008 en verða bjargað – nóta bene; tímabundið? Sá hildarleikur er ekki að baki.


Þetta eru bankar eins eins og Merrill Lynch, Citygroup, JP Morgan Chase, Bank of America, Goldman Sachs, Morgan Stanley, HBOS, Royal Bank of Scotland, Barclays, HSBC, UBS og Credit Suisse í Sviss, Fortis, Dexia, Credit Agricole (stærsti banki Frakklands), Société Générale og fleiri mætti telja.


Sennilega hafa lesendur heyrt minnst á einhverja þessara banka.


Ef Geir hefði vorið 2008 ákveðið „að tjá sig“ - svona til að sýna ekki vanrækslu - og haldið blaðamannafund og sagt að íslensku bankarnir væru þrátt fyrir alls kyns skýrslur og vottorð í raun gjaldþrota þá hefði hann búið til stærsta áhlaup Íslandssögunnar á bankana og keyrt þá í þrot á nokkrum mínútum.


Um 60 þúsund íslenskir hluthafar í bönkunum, tugir stærstu banka í heimi sem lánuðu íslensku bönkunum, og síðast en ekki síst hundruð þúsunda innstæðueigenda hér á landi sem erlendis, hefðu farið í sakamál við forsætisráðherra um að hann hefði rústað bankakerfinu.


Það hefði orðið skæðadrífa málssókna á hendur Geir H. Haarde og íslenska ríkinu.


Ég veit ekki hvað hefði verið sagt um Geir ef hann hefði á alþjóðlegum blaðamannafundi sagt að erlendu bankarnir hér að ofan væru í raun gjaldþrota.


Nei, þess í stað ákvað Geir að undirbúa landið með aðgerðaáætlun ásamt Seðlabankanum  um hvernig best væri að bregðast við ef allt færi á versta veg. Seðlabankinn fékk til sín erlenda ráðgjafa. Niðurstaðan var sú að setja neyðarlög ef til þess kæmi og halda greiðslukerfinu gangandi.


Neyðarlögin gengu út á að hluthafar og lánadrottnar bankanna yrðu látnir bera skaðann en ekki ríkissjóður. „Bankarnir yrðu ekki samfélagsvæddir,“ eins og það er kallað.


Nýlega héldu íslensk stjórnvöld ráðstefnu í Hörpunni ásamt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um það hvernig okkur Íslendingum hefur vegnað eftir hrun. Það var samdóma álit tveggja nóbelsverðlauna í hagfræði auka fjölda annarra stórspekinga að Geir H. Haarde og ríkisstjórn hans væru sigurvegarar og hefði gert hið eina rétta í stöðunni með neyðarlögunum. Þau hefðu bjargað okkur.


Í Rannsóknarskýrslu Alþingis segir að meginástæðan fyrir bankahruninu sé að bankarnir hafi vaxið of hratt og að eigendur og stjórnendur þeirra beri mesta ábyrgð á hruninu. Þrír ráðherrar voru taldir hafa sýnt vanrækslu í starfi; Geir H. Haarde, Árni Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson. Seðlabankastjórarnir þrír ásamt forstjóra Fjármálaeftirlitsins voru sömuleiðis taldir hafa sýnt vanrækslu.


Hvað Seðlabankann varðar þá var „helsta sök“ bankans talin sú að hann hafi „vanrækt rannsóknarskyldu“ sína þegar Landsbankinn leitaði fyrirgreiðslu til að geta orðið við kröfu breska fjármálaeftirlitsins um flutning á Icesave-innstæðum í dótturfyrirtæki bankans úti. Þá voru gerðar athugasemdir við vinnubrögð bankans Glitnishelgina frægu þegar Glitnir leitaði til bankans í lok september 2008 og að Seðlabankinn hefði átt að láta Glitni vita þegar ljóst var að ekki yrði orðið við beiðni hans um lán.


Ríkissaksóknari fór yfir þátt seðlabankastjóranna þriggja og forstöðumanns Fjármálaeftirlitsins og taldi engan grunn til að ákæra þá.


Alþingi fjallaði um ráðherrana og úr varð að Ingibjörgu Sólrúnu var bætt í hópinn sem fjórði ráðherrann sem sýnt hefði vanrækslu. Alþingi setti upp svikamyllu og kaus um ábyrgð ráðherranna. Einn sekur: Geir H. Haarde. Hann yrði ákærður og bæri einn pólitíska ábyrgð á bankahruninu.


Það væru meiri líkur en minni á að hann yrði dæmdur. Þó voru aðeins tveir þingmenn sem vildu ákæra Geir einan.


Í Rannsóknarskýrslu alþingis er raunar rætt um það að Alþingi sjálft hafi brugðist eftirlitshlutverki sínu við að gæta almannahugsmuna.


Ég hef heyrt marga segja að undanförnu að Alþingi hafi gjörsamlega klúðrað málinu þegar það ákærði Geir einan en úr því sem komið er eigi ekki að hætta við málið. Hvernig geta menn látið svona út úr sér?


Þá er fjöldinn allur sem segir að ákæran sé hið besta mál fyrir Geir, nú hann verði þá bara sýknaður og standi eftir miklu sterkari. Hreinsi þá hina ráðherrana í leiðinni. Hvernig geta menn látið svona út úr sér?


Þeir sem svona tala vita ekkert um hvers konar vald ákæruvald er fyrr en þeir verða sjálfir ákærðir fyrir afbrot sem þeir frömdu ekki – en verða beðnir um að sanna sakleysi sitt.


Ákæran á hendur Geir í fyrra er svartur blettur í sögu þjóðarinnar.Jón G. Hauksson


[email protected]

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.