Tala minna, skrifa meira (BJ)

Pistlar

benedikt06Textar eftir tvo fyrrverandi þingmenn Borgarahreyfingarinnar eru umfjöllunarefni dagsins.

 

Ég las bók um helgina. Varla í frásögur færandi nema hún er eftir Þráin Bertelsson, þingmann VG. Þráinn hefur samið nokkrar bækur, en ég hef ekki lesið nema tvær. Önnur var sjálfsævisaga hans, Einhvers konar ég. Mér fannst það vel skrifuð bók, bók sem lýsti bæði gleði og sorgum úr barnæsku höfundar. Bókin sem ég las um helgina er skáldsaga, Dauðans óvissi tími. Samt ekki meiri skáldsaga en svo að Sigurður bróðir minn segir mér að stundum sé vitnað í hana í Háskólanum sem sögulega heimild.

 

Sagan segir frá manni sem setti skipafélag á hausinn, auðgaðist á viðskiptum í St. Pétursborg með gosdrykkjaverksmiðju, sveik samstarfsmann sinn þar og seldi svo verksmiðjuna með miklum hagnaði. Eftir það kom hann heim til Íslands, keypti Þjóðbanka Íslands og síðar skipafélagið sem lifði góðu lífi eftir að hans félag fór á hausinn. Viðkunnanlegan mann sem var í tygjum við rússnesku mafíuna. Ekkert af þessu kom kunnuglega fyrir sjónir.

 

Þaðan af síður forsetinn sem kepptist um að fá að vera sem næst rússneskum auðjöfri  þegar hann var ekki að mæra skúrka frá Íslandi í erlendum borgum.

 

Hins vegar voru þarna smákrimmar sem hétu Þorgeir og Þormóður sem greinilega voru stolnir úr bæði Gerplu og Fóstbræðra sögu. Stundum er stíllinn af frásögn um þá fornlegur. Stundum fannst mér það gleymast. Stundum spratt þessi forni stíll upp annars staðar þar sem hann átti síður við.

 

Líka stórglæpahjú austan úr Evrópu, líklega fólk stolið frá einhverri nútímaskáldsögu sem allir teyga nú í sig. Ég hef ekki smekk fyrir þeim og hafði aldrei áður lesið um svona ógeðsleg morð.

 

Bókin er skemmtileg. Ég var fljótur að klára hana. Þráni tekst að búa til eftirminnilega karaktera. Forsætisráðherrann heitir Jökull Pétursson og um hann er sagt:

 

„Í upphafi ferils síns hafði Jökull verið eftirlæti allra fjölmiðla sem fluttu daglega fréttir af því hvernig þessi sókndjarfi stjórnmálamaður ýmist brytjaði niður andstæðinga sína mið hárbeittum athugasemdum eða fór á kostum við að lýsa því hversu stefnumál þeirra væru heimskuleg. En þegar líða tók á ferilinn tók ást fjölmiðla á Jökli að kulna eftir því sem ráðríki hans óx.

 

Hann sem eitt sinn hafði verið eftirlætisbarn fjölmiðla breyttist í geðstirðan og vanstilltan ungling sem gerði enga tilraun til að hemja frekjuköst sín. Hann þoldi gagnrýni illa eða alls ekki og þegar honum varð ljóst að hinir blíðu æskudagar væru að baki tók beiskjan við og hann varð sannfærður um að þeir fjölmiðlar sem áður höfðu hossað honum á hnjám sér sætu nú svikráðum við sig og vildu hann feigan í starfi. Trúnni á það lýðræði sem hafði borið hann fram til æstu metorða hafði hann glatað á leiðinni og leit á sjálfan sig sem sögulega undantekningu frá þeirri grundvallarreglu að almenningur hafi ævinlega á röngu að standa.“

 

Það þarf ímyndunarafl til þess að búa til svona persónu.

 

Bókin minnti mig á kvikmyndahandrit og sem bíómynd yrði hún eflaust æsileg. Þráinn kann þar vel til verka. Veikasti hlekkur bókarinnar er að hún er of löng. Þráinn hefur ekki tímt að sleppa efni sem hann var búinn að safna saman, þó að það tefði framvindu málsins. Til dæmis komu þeir fóstbræður aðalsögunni eiginlega ekkert við, en lýsingarnar á þeim voru oft fyndnar. Þeir tengdust viðskiptajöfrinum ekki neitt.  

 

Af þessum tveimur bókum sem ég hef lesið eftir Þráin dreg ég þá ályktun að hann sé prýðilegur rithöfundur. Stíllinn er skemmtilegur og oft hnyttinn. Honum tekst síður til í ræðum á Alþingi eða umræðuþáttum í útvarpi eða sjónvarpi. Þar er hann sjaldnast fyndinn eða orðheppinn.

 

Af því dreg ég þá ályktun að Þráinn ætti að tala minna en skrifa meira.

 

---

 

Í síðasta pistli talaði ég um það hvernig þingmenn Hreyfingarinnar hefðu svikið loforð sitt um að styðja aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þessi ummæli birtust á Eyjunni og urðu  Þór Saari (sem var einn þriggja þingmanna sem Þráinn dró með sér á þing) tilefni til athugasemda þar:

 

„Af því þú telur rétt að skreyta þig sannleikskransi í fyrirsögninni Benedikt þá er hér svolítill sannleikur fyrir þig. Aðildarumsókn að ESB hefur aldrei verið stefnumál Borgararhreyfingarinar (sem við vorum kosin út á) né Hreyfingarinnar. Við ákváðum öll persónulega að lýsa yfir vilja til að styðja slíka umsókn en þegar að Icesave málið kom inn í þingið voru í gögnum þess tvö atriði, bréf frá ESB um að umsókn Íslands yrði ekki tekin til greina nema við samþykktum að greiða Icesave reikningana. Þar sem það var skýrt í stefnuskránni að við ættum ekki að greiða Icesave þá snerumst við gegn aðildarumsókninni vegna þessara skilyrða sem henni voru sett. Síðan þá hefur ESB hins vegar ekki minnst á þetta mál og við viljum að aðildarumsóknin verði kláruð.

 

 

 Það sem þú segir um það mál sem og um okkur þingmenn Hreyfingarinnar bendir til að þú hafir ekki unnið neina heimildavinnu í þessum málum en haldir á lofti einhverju sem þér finnst við hæfi þó ósatt sé. Það sem þú segir er hins vegar ósatt og greinilegt að þú hefur sjálfur ekki sérstaklega mikinn áhuga á sannleikanum þó þú þykist sjálfur geta skýlt þér bak við einhverskonar sannleiks ást. Sú sannleiksást er þó bara enn ein blekkingin sem frá ykkur Sjálfstæðismönnum er komin.“

 

Nú get ég glatt Þór með heimildarvinnu. Skömmu fyrir kosningar árið 2009 birtist í Fréttablaðinu spurningalisti til stjórnmálahreyfinga sem buðu fram í kosningunum. Settar voru fram 24 spurningar fyrir öll framboð og flestum veittist auðvelt að svara þeim öllum. Borgarahreyfingin svaraði hins vegar ekki nema 11 spurningum af 24.

 

Sérstaklega er tekið fram að Borgarahreyfingin hafi ekki afstöðu til allra mála. Því verður að gera ráð fyrir að hún hafi haft afstöðu til þeirra mála sem svarað var um.

 

Fyrstu tvær spurningarnar fjölluðu um Evrópusambandsumsókna og evruna eins og sést hér:

 


spurningar

 

Þeim var báðum svarað með afdráttarlausum hætti eins og sést hér:

 


borgarahreyfingin_svor

 

Svörin voru sannarlega efst á blaðinu og ekki víst að allir hafi komist svo langt.

 

 

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.