Össur: Kreppan er frá (JGH)

Pistlar


jong-2011Okkur er öllum létt. Kreppan er frá. Össur segir það og þá hlýtur það að vera rétt. Í Bretlandi yrði þessu slegið upp sem Breaking News. Þetta er að vísu sami Össur og segir í Rannsóknarskýrslu Alþingis að hann hafi ekki hundsvit á efnahagsmálum.


„Ég segi það algjörlega skýrt: Að mínu viti er efnahagssamdrættinum lokið, kreppan er frá. Á þriggja ára afmæli ríkisstjórnarinnar blasir við að það er búið að moka út úr Ágíasar fjósi framsóknar og Sjálfstæðisflokks sem það tók þá flokka næstum því átján ár að fylla,“ sagði Össur á Alþingi í morgun.


Auðvitað skiptir ekki máli þótt á þessum átján árum, tímabilinu frá 1991 til 2008, hafi Össur setið sex ár í ríkisstjórn með sjálfstæðismönnum. Eða frá 1991 til 1995 og frá 2007 til 2008.


Það vill til að það er föstudagur þegar fréttatímar ljósvakamiðlanna eru rofnir með þessari stórfrétt. Þjóðin hlýtur að gera sér glaðan dag. Þetta verður langur laugardagur. Það verður víða hellt djúsi yfir ís, eins og Flosi Ólafs sagði í gömlu auglýsingunni frá Radíóbúðinni.


Það er bara verst að hvað djúsið er orðið dýrt! Það breytir engu. Þú færð ekki á hverjum degi Breaking News um að kreppan sé frá. Það þarf þá ekki að skipta um formann í Samfylkingunni á meðan; fara í dauðaleit niður um tvær kynslóðir fyrir næstu kosningar.


Vínið hefur hækkað, tóbakið, bensínið, skattarnir, útsvarið, vatnsgjaldið og nauðsynjavörurnar í stórmörkuðunum. En sem betur fer er kreppan frá; við finnum það  á buddunni að það er allt orðið svo léttara undir fæti. Allar greiðslur eru orðnar léttgreiðslur.


Bensínið hefur ekki hækkað nema um 18 krónur frá því um áramótin og lítrinn stefnir í 300 krónur í lok ársins. Það kostar ekki nema 10 þúsund krónur núna að skjótast til Víkur í Mýrdal og til baka á sparneytnum bíl. Lítið mál. Þeir gleðjast í ferðaþjónustunni; það verður mikið rennerí austur á næstunni.


Það er ekki nema 8% atvinnuleysi. Atvinnulausir munu fagna fram eftir næstu viku. Kreppan er frá. Fyrirtækin fagna fram eftir viku. Núna er hægt að ráða nýtt fólk til starfa eftir að atvinnutryggingagjaldið fjórfaldaðist og launin hækkuðu. Það er hægt að hefja fjárfestingar og slá lán.


Að vísu sá Már í Seðlabankanum þensluna og góðærið fyrir síðasta haust þegar hann hækkaði vexti í landinu til að slá á þenslu. Hann sá þetta með hinum snillingunum í bankanum og nefndinni. Kreppan er ekki bara frá; það er komin bullandi þensla, að mati þeirra við Arnarhól. Bogi og Örvar hljóta að kætast.


Fólksflóttin til Noregs hlýtur að stöðvast. Noregur hvað!? Mér er óhætt að hætta á námskeiðinu í Mími þar sem ég hef verið á hverju kvöldi svo mánuðum skiptir – enda frekar lélegur málamaður.


Mesta kreppa Íslandssögunnar er að baki. Við erum ekki lengur í kreppu! Lesið varir mínar. Landsframleiðslan féll ekki nema um 12% á árunum 2009 og 2010. Kakan skrapp saman um 12%. Þvotturinn þófnaði eins og þeir segja fyrir austan.


Síðan höfum við skriðið eftir botninum. Hagstofan sagði okkur fyrir áramót að hagvöxtur síðasta árs hefði numið yfir 2% og útlit væri fyrir annað eins á þessu ári; ef allt gengur að óskum – en fréttir eru stundum sagðar af því að Evrópa sé að sogast niður og blikur séu á lofti í bankakerfum heimsins. Össur er of sjaldan úti til að vita af þessu.


Össur reiknar það út að 12% kreppa plús 3 til 4% hagvöxtur sé 0 en ekki 8 til 9% kreppa. Við féllum fram af bjargbrúninni en lentum á sillu. Guði sé lof að við fengum Jóhönnu, Steingrím og Össur til að toga okkur upp að bjargbrúnni.


Efnahagsúrræði þeirra hefur verið að hækka skatta upp úr öllu valdi til að örva atvinnulífið. Þetta er eins Múnkhásen sem togaði sjálfan sig upp á hárinu. Þannig togum við okkur upp úr kreppunni með Múnkhásen-aðferðinni.


Kreppan er frá! Þetta hefur augljóslega verið sameiginlegt átak Múnkhásen og Bakkabræðra. Þegar svona snillingar leggjast á eitt við að moka flórinn þá getur útkoman ekki verið nema ein. Verst hvað þeir hafa fórnað sér mikið og eru orðnir þreyttir – en ráðið við því er að bæta við sig ráðuneytum og auka á vinnuálagið.


Vinnuálagið hjá Gísla, Eiríki og Helga hlýtur að vísu að minnka núna þegar kreppan er búin.


Það er allt svo bjart framundan. Það er bullandi verðbólga eftir að SA og ASÍ fundu það út síðastliðið vor að í mestu kreppu Íslandssögunnar, 8% atvinnuleysi og mesta fólksflótta í yfir hundrað ár að þá hækkar maður auðvitað launin upp úr öllu valdi. Svo vinnuaflið verði örugglega dýrara og fleiri fái örugglega ekki vinnu.


Hvað var Hagstofan annars að þvæla um það fyrir áramót að það yrði stórfellt atvinnuleysi hér á landi fram til ársins 2016? Þetta var nefnt langtímaspá. Eftir að Össur, Jóhanna og Steingrímur hafa tjáð sig á þriggja ára afmælinu er Hagstofunni óhætt að breytta spánni.


Einhverjir segja núna að enginn munur sé á SA og ASÍ. Menn vita ekki lengur hvor er hvað og kalla þessi samtök SASÍ eftir að þau féllust í faðma og sameinuðust.


Það er svo dásamlegt að hafa bullandi 7 til 8% verðbólgu vegna kjarasamninga SASÍ sem þó helst af öllu þráir stöðugleika. En auðvitað er verðbólgan krónunni að kenna en ekki SASÍ; ef marka má foringja Gylfa. Svo er það henni líka „að kenna“ að hér hefur verið jákvæður vöru- og viðskiptajöfnuður eftir hrun. Sem og einhver hagvöxtur á síðasta ári.


Þá er það verðtryggingin. Það er svo stórfenglegt hvernig hún skrúfar upp öll lán fólks og fyrirtækja á methraða og gerir alla gjaldþrota aftur eftir að „skuldir landsmanna innanlands hafa minnkað og skuldir þeirra erlendis hafa minnkað“ svo vísað sé í okkar mann í þinginu; Össur.


Verðtryggð lán hafa ekki hækkað nema um yfir 40% í kreppunni og það stefnir í 50% markið á þessu ári.


Þriggja ára afmælisveislan stendur enn yfir.


Stjórnin hefur unnið dag og nótt við bjarga fólki og fyrirtækjum. Hún hefur að vísu sett sér það sem markmið að rústa sjávarútveginum, orkugeiranum og ferðaþjónustunni sem þrátt fyrir allt hafa búið til þann hagvöxt sem þó hefur orðið undir stjórn Bakkabræðra.


Það er svo sniðugt að bjarga fyrst öllum fyrirtækjunum sem fóru á hausinn í kreppunni – og hæla sér af því í fjölmiðlum – og rústa svo fyrirtækjum, sem lifðu af og hafa skilað sínu í hagvexti, til að geta bjargað þeim síðar úr feninu.


Þannig heldur björgunarstarfið endalaust áfram hjá þreyttum og vansvefta Bakkabræðrum.


Það er þetta með að hella vatni í botnlausar fötur.


Þjóðinni er létt. Við trúum öllu. Kreppan er frá. Össur sagði okkur það.Jón G. Hauksson


jgh@heimur.is

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.