Fíllinn í stofunni (JGH)

Pistlar


jong-2011Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, var með skemmtilega líkingu þegar hann sagði á Viðskiptaþingi að krónan væri fíllinn í stofunni og að við þyrftum nýjan gjaldmiðil. Hann sagði ennfremur að núna væri krónunni þakkað að ekki fór verr í hruninu og það væri svipað og þakka brennuvargi að ekki fór verr. Hann sagði einnig að á Íslandi væru tvær krónur, önnur óverðtryggð og hin verðtryggð.


Samlíkingin við fílinn í stofunni er það sem nefnist á blaðamannamáli að tala í fyrirsögnum. Lesendur staldra við og hlustendur sperra eyrun.


Ég játa það fúslega að þessi líking situr svolítið í mér. Fíll er stór og sterkur en krónan er að mati Jóns mjög veikur gjaldmiðill, í raun ónýtur; svo notuð séu hans orð; og helsti galli krónunnar er sveigjanleikinn; hvað hún sveiflast mikið. Fíll í stofu finnst mér hafa lítinn sveigjanleika.


Það er enginn vafi á því að miklar umræður verða á næstu árum um krónuna og hvort hún sé of veikur gjaldmiðill og henti fyrir svo lítið hagkerfi (stofuna) sem Ísland er. Þær umræður eru af hinu góða. Þar hafa báðir aðilar til síns máls.


Í einni setningu liggur munurinn fyrst og fremst í mismiklu atvinnuleysi. Þegar krónan er lækkuð í efnahagslegu óáran er vísvitandi verið að skerða lífskjörin og lækka raunlaun til að gera vinnuaflið ódýrara; svo fleiri fái vinnu. 


Ég hef hins vegar margoft sagt að krónan er staðreynd; við búum við hana og svo verður örugglega næstu árin. Við þurfum að notast við hana áfram – hvort sem okkur líkar betur eða verr. Og við verðum að haga okkur eftir því.


Meginverkefni Íslendinga er núna efnahagstjórnin. Við þurfum að ná upp efnahagsbata, stöðugleika, minna atvinnuleysi, auknum hagvexti; byggja upp sterkt og stöðugt efnahagslíf – fyrr uppfyllum við t.d. ekki Maastricht samkomulagið sem er forsendan fyrir nýrri mynt, þ.e. ef menn vilja evru en ekki Kanadadollar eða Bandaríkjadollar.


Allt þetta þurfum við að gera með krónunni. Enda þarf hagkerfið að komast í jafnvægi vegna þess að það er ekki sama hvaða skiptihlutfall yrði notað ef skipt yrði um gjaldmiðil. Í rauninni ætti umræðan að snúast um það hvaða gjaldmiðil við viljum nota eftir að krónan er búin að koma okkur upp úr öldudalnum – ennþá er 7 til 8% atvinnuleysi og Hagstofan spáir miklu atvinnuleysi út árið 2016; svo það er langt í land að kreppan sé búin; mælt á þann kvarða.


Ég hef skilið þá sem vilja nýjan gjaldmiðil að málið gangi út á það þegar fram líða stundir að finna rétta tímapunktinn til að tryggja að sagan endurtaki sig ekki; þ.e. að nýr gjaldmiðill yrði þá eins konar forvörn við öðru stórfalli krónunnar í framtíðinni.


Ég er ekki sammála nafna mínum að krónan hafi fellt bankana. Mín skoðun er sú að það hefði örugglega orðið bankahrun á Íslandi þótt við hefðum haft annan gjaldmiðil. Mér finnst því langsótt að segja að krónan sé brennuvargurinn! Hrun krónunnar var afleiðing af hruni bankanna og hruni efnahagslífsins.


Það varð bankahrun bæði í Bandaríkjunum og Evrópu þrátt fyrir stærri gjaldmiðla en þeim bönkum var bjargað. Ekki er séð fyrir endann á þeim hildarleik. Skuldavandinn í Evrópu sogar álfuna jafnt og þétt niður þrátt fyrir gjaldmiðilinn. Það er verðbólga í Evrópu og það er mikið atvinnuleysi. Efnahagslögmálin eru þau sömu; hver svo sem myntin er.


Nafni minn persónugerir krónuna (fíll og brennuvargur). Það er sniðugt til að ná myndlíkingunni. En gjaldmiðlar eru ekki persónur frekar en fyrirtæki. Það er sagt að fyrirtæki geri svona og svona. Er það svo? Fyrirtæki hafa stjórnendur og starfsmenn sem taka ákvarðanir og hafa t.d. siðferðisskyldur.


Verðbólga er ekki krónunni að kenna; verðbólga er mannanna verk. Hvað getur krónan gert að því að aðilar vinnumarkaðar semja um að skrúfa upp laun í hagkerfi sem hefur skroppið saman um 12%? Hvað getur krónan gert að því að valin sé verðbólguleið í stað þess að hugsa frekar um kaupmátt ráðstöfunartekna? Hvað getur krónan gert að því þótt Steingrímur J. hækki verð á bensíni, víni og tóbaki og hækki allar skuldir í landinu í leiðinni?


Heimilin í landinu skulda 1.300 milljarða í verðtryggðum lánum. 10% verðbólga á ári hækkar skuldirnar um 130 milljarða á ári. Núna er verið að ræða um einhverjar patentlausnir eftir á um niðurskrifa skuldir um 200 milljarða og öllum þykir nóg um.


Ég er sammála Jóni um að á Íslandi séu tvær krónur, önnur óverðtryggð og hin verðtryggð. Þegar verðtryggingin var sett á 1979 var ævinlega rætt um að best væri að verðtryggja bæði laun og lán því þá kæmust menn fljótlega að því að enginn græddi á verðbólgunni og þar af leiðandi myndi enginn vilja hana.


Menn skildu þetta loksins árið 1990 þegar gerðir voru þjóðarsáttasamningar á vinnumarkaði. Stöðugleikinn og lítil verðbólga voru sett á oddinn – og það gekk bara ágætlega í fimmtán ár eftir það, þótt við værum komin í EES og tækjum upp fjórfrelsi; m.a. frjálst fjármagnsflæði. 


Launþegar eru með tekjur í krónum en lán í verðtryggðum krónum. Það þykja ekki sniðug fjármálavísindi. Það er mjög auðvelt að afnema verðtrygginguna og koma á sama gjaldmiðli. Það þarf ekki nema eins og ein neyðarlög til þess.


Raunar hefði átt að afnema verðtrygginguna tímabundið þegar neyðarlögin voru sett. Það sáu allir haustið 2008 að verðbólgugusa var í pípunum. Það hefði verið forvörn og þá væru menn ekki að ræða núna um ríkisábyrgð á verðtryggðum lánum og að ríkið ætti að greiða þau niður um 200 milljarða króna - sem er dæmigerð „eftir á“ lausn. Með verðtrygginguna áfram fellur allt aftur í sama farveg.


Verðtryggingin er í verðbólgu sami vandi fyrir skuldara og verðbólgan var fyrir sparifjáreigendur fyrir tíma verðtryggingarinnar.


Hagstjórn og efnahagsbati er það sem þjóðin þarf á að halda; hvaða hugmyndir sem menn kunna að hafa um nýja gjaldmiðil í framtíðinni. Annars er hinn eini sanni gjaldmiðill þjóðarinnar samkeppnishæfni hennar og framleiðni: sterkt atvinnulíf. Það er samasem-merki á milli sterks atvinnulífs og sterkrar myntar.


Um 94% þjóðarinnar segja í könnun Viðskiptaráðs að atvinnulífið sé undirstaða lífskjara í landinu. Það er laukrétt. Hvers vegna er þá verið að hækka öll laun í landinu sem veikja atvinnulífið og stuðla að áframhaldandi kreppu; 7 til 8% atvinnuleysi?


Það er í raun merkilegt að við séum að hækka í lánshæfismatseinkunn á erlendum vettvangi undir þessum kringumstæðum.


Það skiptir engu máli hvað mynt er á Íslandi, Evrópu eða Bandaríkjunum. Það hækkar enginn laun í kerfi sem hefur skroppið saman um 12% án þess að verðbólgan fari á skrið.


Meira að segja fíllinn hefði sest á fornaldarsamninga sem þessa sem lengi þrifust hér á landi. Fíllinn er vitur; hann hefur fílsminni.Jón G. Hauksson


[email protected]

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.