Við erum bensíntittir (JGH)

Pistlar


jong-2011Óli heitinn í Olís notaði einhvern tíma orðið bensíntittur í viðtali. Það var þegar hann fór af skrifstofunni og gerðist starfsmaður á plani; var á dælunni í einn dag. Þá sagðist hann vera orðinn bensíntittur. Núna er Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra komin á dæluna og malar þar gull. Hún er bensíntittur samtímans. Malar gull. Þetta er eins og að vinna gullpottinn hjá henni þegar krónurnar dælast í ríkiskassann.


Við bíleigendur eru raunar allir bensíntittir í vinnu fyrir hið opinbera. Þegar við tökum bensín leitum við í sjálfsafgreiðsluna og dælum bæði á tankinn og í ríkiskassann.


Verð á bensíni hækkaði í dag í 264 krónur lítrinn af dísil og í 258 krónur bensínlítrinn. Ekki heyrði ég samt í neinum bílflautum í dag. Við Íslendingar látum allar bensínhækkanir yfir okkur ganga. Kvörtum ekki, tuðum heima hjá okkur, og ökum ef til vill minna.


Ríkið tekur 123 krónur af 258 króna verði bensínlítrans; næstum helminginn. Ríkið fær núna 53 krónum meira í skatta af hverjum lítra af bensíni en það fékk fyrir fjórum árum áður en kreppan skall á.


Ríkið tekur 240 þúsund í skatta á ári af meðafjölskyldu sem kaupir bensín. Það er yfir 100 þúsund krónum meira en hún gerði fyrir fjórum árum þegar hún tók 140 þúsund í sinn hlut.


Í millitíðinni skall ekki á nema ein kreppa eða svo. Að vísu harðasta kreppa lýðveldisins. Hverju breytir það?


Við bensíntittir dælum af krafti fé í ríkiskassann fyrir fjármálaráðherra. Við erum eins og hamstur í hjóli, dælum og dælum.


Ekki má heyra minnst á að lækka verðið. Að vísu leggja sjálfstæðismenn til að lítrinn lækki niður í 200 krónur og ríkið græði ekki eins mikið á bensínhækkunum.


Sú lækkun kemst örugglega ekki í gegnum þingið. Það er sagt að verðið sé bara eins og í Noregi þar sem laun eru meira en tvöfalt hærri en á Íslandi. Það tekur Norðmanninn meira en helmingi styttri tíma að vinna fyrir bensínlítranum.


FÍB áætlar að kostnaður hverrar fjölskyldu vegna bensínkaupa sé um 500 þúsund krónur á ári og þar af sé hlutur hins opinbera (skatttekjur) yfir 240 þúsund krónur.


Svona er hækkunin.

                                  Bensín 95 oktan 


                         Verð á lítra     Hlutur ríkisins


Febrúar 2008:      138 kr.               70 kr.


Febrúar 2009:      144 kr.               76 kr.


Febrúar 2010:      200 kr.             104 kr.


Febrúar 2011:      216 kr.             110 kr.


Febrúar 2012:      258 kr.             123 kr.


                                         Dísil


                        Verð á lítra       Hlutur ríkisins


Febrúar 2008:     142 kr.              70 kr.


Febrúar 2009:     163 kr.              79 kr.


Febrúar 2010:     198 kr.              95 kr.


Febrúar 2011:     219 kr.            105 kr.


Febrúar 2012:     264 kr.            120 kr.


Verð á bensíni stefnir í 300 krónur lítrinn. Það verða ekki margar vikur þangað til að sá múr fellur.


Í morgun var ég spurður að því af ágætum samstarfsmanni mínum hvort ég væri byrjaður að safna fyrir berjamónum í haust.


Ég svaraði því neitandi en hóf söfnunina þegar í stað.Jón G. Hauksson


[email protected]

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.