Forherðing fjandmanna (JGH)

Pistlar


jong-2011Eftir að Landsdómur sýknaði Geir H. Haarde af öllum alvarlegustu brotunum, sem á hann voru borin, varð hvellur í einn dag og málið virðist úr sögunni. Það er eins og Alþingi þurfi ekki að fara neitt frekar ofan í saumana á því hvers vegna það ákærði Geir um refsiverða glæpi og tapaði málinu svo illilega. Það hefði einhver haldið að það yrðu eftirmálar innan þingsins út af þessari ákæru sem varð að sneypuför.


Þess í stað er forherðingin á meðal fjandmanna Geirs innan Alþingis svo mikil að þeir snúa öllu á hvolf og komast upp með að segja það í hverjum fréttatímanum af öðrum að Geir hafi verið dæmdur fyrir alvarlegasta brotið sem hann var ákærður fyrir; það að brjóta sjálfa stjórnarskrána.


Í dómi Landsdóms segir orðrétt: Í málinu er ákærði sýknaður af alvarlegustu brotunum, sem hann var borinn sökum um.“ Hann var ekki dæmdur til refsingar og málskostnaður lendir á ríkissjóði. Bent hefur verið á að Alþingi hafi sett 300 milljónir króna í þessa ákæru sem allir sáu fyrir að myndi tapast.


Naumur meirihluti Landsdóms komst að því að Geir hefði sýnt stórfellt gáleysi fyrir að halda ekki ráðherrafundi um mikilvægt stjórnarmálefni eins og fyrirskipað sé í 17. grein stjórnarskrárinnar.


Það er þetta sem fjandmenn Geirs hafa gripið á lofti og matreitt fyrir almenning sem um alvarlegt brot sé að ræða; og það alvarlegasta brotið, þvert á það sem í dómsorðum segir.


Fjandmenn hans innan stjórnarflokkanna komast upp með það aftur og aftur í virtum fjölmiðlum að segja bankahrunið hafi verið Geir að kenna og að þeir séu að moka skítinn og hreinsa til eftir hann. Þáttastjórnendur jánka bara eins og ekkert sé.


Ég heyrði einhvern almannatengil segja í útvarpi að Geir hefði unnið í dómsalnum en tapað á tröppunum vegna þess að hann hefði verið of reiður eftir dóminn. Ég tel að það hafi ekki farið Geir að verða svo reiður eftir dóminn – það fer engum vel –  en reiði hans getur aldrei orðið aðalatriðið í málinu og tekið sannleikanum fram.


Því miður situr eftir hjá mörgum hversu reiður Geir var og þeir segja sem svo að hann hljóti að hafa verið sekur fyrst hann varð svona reiður yfir einhverju formsatriði. Best er að lesa dómsorðin sem segja að hann hafi verið sýknaður af öllum alvarlegustu brotunum sem hann var sakaður um.


Það er von að Landsdómur hafi klofnað, 9-6, varðandi 17. grein stjórnarskárinnar. Sex dómarar vildu sýkna Geir af þessu atriði. Vissari var nú Landsdómur ekki í sinni sök um þetta mál.


Í réttarhöldunum sjálfum lagði Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, áherslu á að fráleitt væri að álykta sem svo að ákæra hennar gengi út á að Geir hefði á einhvern hátt getað „afstýrt hruninu“. Hún sagði að ákæran snerist fremur um að farist hefði fyrir hjá Geir að „afstýra tjónshættu“ og að á honum hefði hvílt „athafnaskylda“.


Það var þá.


En hvernig gat Geir „afstýrt tjónshættunni“ nema að afstýra fyrst hruni bankanna sem Landsdómur er sammála Sigríði um að Geir gat ekki? 


Málið er, að til að koma í veg fyrir bankahrunið á Íslandi hefði Geir þurft að koma í veg fyrir fall Leaman Brothers og allra hinna stórbankanna í Evrópu og Bandaríkjunum sem fóru á hausinn þótt flestum væri bjargað - og hefur valdið ómældri reiði almennings í þessum löndum. 


Halda má því fram að Geir hafi „afstýrt tjónshættu“ ríkissjóðs með því að setja neyðarlög sem gengu út á að skattborgarar á Íslandi tækju ekki einkabankana á sínar herðar heldur yrðu hluthafar þeirra og lánveitendur, sem jusu fé í bankana, látnir bera skaðann.


Var staða einkabankanna þriggja mikilvægt málefni ríkisstjórnarinnar, samkvæmt stjórnarskránni? Er fjárhagsstaða stórra einkafyrirtækja málefni ríkisstjórnarinnar, samkvæmt 17 gr. stjórnarskrárinnar? Síðan hvenær? Hvað þá þegar fyrirtækin eru talin búa við lausafjárvanda fremur en eiginfjárvanda? 9 af 15 dómurum í Landsdómi telja svo vera.


Stór hluti ríkisstjórnarinnar vissi af því – eins og allur heimurinn – að staða banka um allan heim væri að versna og bankalínur að þorna. Það sá hins vegar enginn fyrir hrun banka og bankakerfa þótt margir óttuðust harða lendingu.


Gefum okkur að Geir hefði haldið ríkisstjórnarfundi og fyrsta mál á dagskrá hefði verið: Slæm staða bankanna. Þá fyrst hefði hann búið til áhlaup á þá og gert bankana gjaldþrota. Það er ekki nóg að segja að Geir hefði átt setja málið á dagskrá, samkvæmt stjórnarskrá og einhverri athafnaskyldu - og útskýra afleiðingarnar ekkert frekar.


Afleiðingarnar hefðu ekki verið þær, sem 9 dómarar Landsdóms telja, að alls kyns nefndir hefðu byrjað að koma í veg fyrir hrun bankanna. Afleiðingarnar hefðu verið: Að valda hruni bankanna. Og þá fyrst hefði Geir fengið skæðadrífu málsókna yfir sig - og þá fyrst hefði hann verið dæmdur fyrir meira en athafnaskyldu, hann hefði verið dæmdur fyrir ofvirkni og ríkissjóður hefði borið ábyrgðina. 


Bent hefur verið á að eftir niðurstöðu Landsdóms megi spyrja sig að því hvort Alþingi beri ekki skylda til að sækja aðra ráðherra í ríkisstjórn Geirs til saka fyrir Landsdómi, að minnsta kosti þá sem vissu en báðu ekki um að málið yrði tekið upp formlega á ríkisstjórnarfundi. Niðurstaðan í því máli blasir við. 


Þetta er allt hið furðulegasta mál. Hvellur í einn dag og þeir sem sóttu Geir til saka snúa dómnum á hvolf – og komast upp með það í fjölmiðlum – í þeirri von að almenningur kokgleypi við lygavefnum. Sem hann virðist raunar gera að stórum hluta.


Því miður virðist góður jarðvegur fyrir spuna- og lygavefi í þeirri heift sem ríkir í samfélaginu - þar sem allir trúa öllum til að stunda lygar og plott og trúa eigin kenningum um plott annarra og fabúlera í rökræðum fram og til baka út frá því eins og um sannleik sé að ræða. 


Hvellur í einn dag.


Hvernig væri að Alþingi Íslendinga bæði Geir afsökunar á ákærunni í stað þess að forherðast?Jón G. Hauksson


jgh@heimur.is

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.