Jóhannes í Iceland snýr aftur (JGH)

Pistlar


jon_g_2Það hefur víst ekki farið fram hjá neinum að Jóhannes í Bónus ætlar að opna nokkrar Iceland verslanir á Íslandi með Malcolm Walker, eiganda keðjunnar í Bretlandi, og keppa m.a. við sitt gamla félag Bónus. Fyrsta verslunin af nokkrum er sögð verða opnuð á rauðum degi á almanakinu, 17. júní. Hratt flýgur fiskisaga og í þetta skiptið hefur hún ekki síður borist út vegna óvenjulega rætinna ummæla Jóhannesar í garð Egils Helgasonar blaðamanns og fjölskyldu hans.


Það verður að segjast eins og er að það er ómaklegt af Jóhannesi að blanda fjölskyldu Egils inn í umræðurnar þótt Egill geri á síðu sinni lítið úr Jóhannesi og endurkomu hans inn á markaðinn. Jóhannes skuldar Agli afsökunarbeiðni.


Það sem fór fyrir brjóstið á Jóhannesi voru þessi orð Egils: „Ein sérkennilegasta þjóðsaga á Íslandi er að Jóhannes kaupmaður, sem eitt sinn var kenndur við Bónus, hafi verið sérstakur vildarvinur alþýðu. Að hann hafi gert meira fyrir fólkið í landinu en hérumbil allir aðrir. Jóhannes rak Bónus og verðið var lágt miðað við annað á Íslandi – því verður ekki neitað.“


Ég er ekki sammála Agli í því að það sé „sérkennilegasta þjóðsaga á Íslandi“ að Jóhannes hafi verið sérstakur vildarvinur alþýðunnar. Það er enginn vafi á því að Bónus braut blað og lækkaði vöruverð á Íslandi og jók þannig kaupmátt almennings, bæði alþýðunnar og betur settra.


Bónus varð ekki risi á matvörumarkaði af sjálfu sér. Það þarf tvo til í tangó; það voru viðskiptavinirnir sem gerðu Bónus stóran með því að skipta við hann.


Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Jóhannes tengist verslunarkeðjunni Iceland. Þegar Baugur Group og Pálmi í Fons keyptu Big Food Group á sínum tíma eignuðust þeir þrjár keðjur, Iceland, Booker og Woodward. Þeir keyptu Big Food á 82 milljarða.


Iceland komst í eigu skilanefndar gamla Landsbankans eftir að Baugur Group varð gjaldþrota. Nýlega keypti Malcolm Walker Iceland-keðjuna af gamla Landsbankanum og var félagið metið á um 300 milljarða í þeim viðskiptum sem kemur sér auðvitað vel við greiðslu á Icesave-skuldum.


En dveljum ekki í fortíðinni. Stóra spurningin núna er sú hvernig Jóhannesi og Malcolm Walker muni reiða af með Iceland á Íslandi. Þurfa gömlu félagar Jóhannesar, þeir Finnur Árnason, forstjóri Haga, og Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, að fara á taugum vegna endurkomu hans?


Það held ég ekki.


Hagar reka Hagkaup og Bónus – auk margra fataverslana – og eru með sitt eigið innflutningsfyrirtæki, Aðföng. Ekki þarf að hafa áhyggjur út af Hagkaupum. Iceland keppir ekki við Hagkaup. Það er epli og appelsína. Iceland mun hins vegar keppa við Bónus og Krónuna; jafnvel Nettó.


Hagar eru með um 50% af allri matvöruverslun á Íslandi, samkvæmt skýrslu frá Samkeppniseftirlitinu fyrr í vetur. Það er ekki víst að Bónus skilji eftir jafnmikið gat á markaðnum og Hagkaup gerði árið 1989 þegar Bónus var stofnaður.


Ég tek eftir því að Jóhannes tekur sérstaklega fram að sonur hans Jón Ásgeir sé ekki með honum í þessu. Það eru á vissan hátt fréttir – en Jón Ásgeir lét hafa eftir sér nýlega að hann hefði engan áhuga á að stunda viðskipti á Íslandi í bráð. Hann og Ingibjörg kona hans reka þó stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins; 365.


Það vakti furðu margra á sínum tíma að Bónus-fjölskyldan valdaði ekki reitinn og missti fjölskyldusilfrið vegna útrásarinnar og 1 þúsund milljarða skuldsetningar á sínum tíma en heildarskuldir bankakerfisins á Íslandi við hrun voru um 14 þúsund milljarðar eða tíföld landsframleiðsla.


Jóhannes seldi hlut sinn í verslunum í Færeyjum nýlega og fékk þar yfir 1 milljarð fyrir.


Eitthvað segir mér Jóhannes ætli sér að ná fótfestu með Iceland og reyna síðan einhvers konar samruna við Haga sem eru á almennum hlutabréfamarkaði.


Sjáum við það fyrir okkur að Jóhannes verði búinn að ná á milli 25 til 30% stöðu í Högum eftir um fimm ár og kominn með Bónus-merkið í barminn aftur? Ég veit það ekki, það er nú það.


Hann fer að minnsta kosti af stað með látum og býsna rætnum ummælum. Það kemur svo í ljós hvort þjóðin – og hvað þá svonefnd alþýða sem er 90% af þjóðinni – skipti við Jóhannes eftir það sem á undan er gengið í hruninu – og juku líklegast ekki kaupmáttinn að mati alþýðunnar.


Jóhannes reiknar með því að buddan eigi síðasta orðið í þeim viðskiptum. Að fólk horfi á verðið og þjónustuna frekar en það hverjir eigi verslanirnar.


Hver á Ísland? Þannig verður spurt á 17. júní. Svarið er Jóhannes nokkur í Bónus. Það er ekkert annað. Þetta heitir að vera „back in business“.



Jón G. Hauksson


jgh@heimur.is


P.S. Dóttir mín spurði mig í morgun við eldhúsborðið: „Pabbi, hvað er þetta með bankana? Hér sé ég litla frétt á bls. 2 í Fréttablaðinu með fyrirsögninni: Landsbankinn hagnaðist um 7,7 milljarða á fyrsta ársfjórðungi! Og það fyrsta sem segir í fréttinni er að þetta hafi ekki verið eins góð afkoma og á sama tíma í fyrra þegar hagnaðurinn nam 12,7 milljörðum. Það er kvörtunartónn yfir hagnaðinum á sama tíma og sagt er að fólk eigi ekki fyrir salti í grautinn og fyrirtæki eigi varla fyrir launum vegna fjármagnskostnaðar. Er þetta í lagi?“


Ég svaraði henni: „Ég hef engu við þetta að bæta.“

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.