Sennilega stendur Hanna Birna þetta af sér (JGH)

Pistlar

Jón G. Hauksson's picture

Ég hélt um tíma að Hanna Birna væri búin að vera í stjórnmálum en hallast að því núna að hún standi rimmuna af sér. Framtíð hennar er að vísu undir kjósendum komin og þeir hafa lokaorðið – sem og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins. Eftir allt bröltið í þessu furðulega Seinna-Lekamáli, þ.e. samskiptum Hönnu Birnu og lögreglustjóra, sækir Sjálfstæðis- flokkurinn í sig veðrið í könnunum.

Hanna Birna er ekki sú eina sem fjarað hefur undan. Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóri, kemur afar illa út úr þessu og allt að því óskiljanlega miðað við hvað hann stóð sig vel í embætti sem lögreglustjóri fram að þessu Lekamáli. Mér finnst sömuleiðis að ríkissaksóknari, Sigríður Friðþjónsdóttur, stígi feilspor með því að segja Stefáni að taka áfram símtöl innanríkisráðherra eftir að hann ræddi þau við hana. Loks finnst mér gassagangur umboðsmanns Alþingis, Tryggva Gunnarssonar, einhvern veginn ekki vera að gera sig. Verkefni umboðsmanns er að taka upp hanskann fyrir manninn á götunni telji hann að stjórnsýslan hafi brotið á sér. Í sjónvarpsviðtölum hefur Hanna Birna verið einlæg en samt með svolítið hörkulega ásjónu sem hefur unnið gegn henni.

Þegar ríkissaksóknari ákvað að hefja rannsókn á hinu ómerkilega Lekamáli – þ.e. hvernig hið margfræga minnisblað um Tony Omos barst í hendur fjölmiðla – var Hanna Birna orðin vanhæf í því einstaka máli gagnvart lögreglustjóra og ríkissaksóknara. Hún hefði aldrei átt að ræða framgang rannsóknarinnar við Stefán Eiríksson lögreglustjóra og hann hefði átt að svara henni strax að hann gæti ekki rætt þetta mál við hana. Þess í stað byrjaði hann að spjalla við hana en fannst það orðið það óþægilegt að hann hafði samband við ríkissaksóknara, Sigríði Friðjónsdóttur. Hún sagði honum að samtöl hans og Hönnu Birnu hefðu engin áhrif á rannsóknina – enda stýrði hún henni sem ríkissaksóknari – og að lögreglustjóri ætti áfram að taka við símtölum ráðherra en láta sig (ríkissaksóknara) vita ef þörf krefði. Þetta kemur skýrt fram í bréfi umboðsmanns Alþingis til Hönnu Birnu frá 25. ágúst.

Úr bréfi umboðsmanns: „Hann bætti því við að hann (lögreglustjóri) og ríkissóknari hefðu örugglega verið að ræða eitthvert annað mál í síma þegar hann hafi síðan rætt þetta og gert grein fyrir þessum samtölum (við Hönnu Birnu). Niðurstaða þeirra hafi verið sú að þetta hefði engin áhrif á rannsóknina.“

Stefán lögreglustjóri virðist síðan hafa haldið áfram að ræða við Hönnu Birnu í trúnaði – en ráðherrann skildi samtölin þannig –  þótt hann væri búinn að ræða þau og lýsa þeim fyrir ríkissaksóknara. Þetta er býsna tvíbennt. Þá taldi hann sig ekki geta komist hjá því,  samkvæmt lögum, að lýsa þessum trúnaðarsamtölum í þaula fyrir umboðsmanni Alþingis fyrst það væri hann sem spyrði hann út í þau. Það var svo ríkissaksóknari sem benti umboðsmanni Alþingis á samtöl sín við Stefán Eiríksson lögreglustjóra. Það er sérstakt í ljósi þess að Sigríður ríkissaksóknari hvatti Stefán til að taka áfram við símtölum innanríkisráðherra um málið og taldi það í lagi þar sem hún færi með stjórn rannsóknarinnar og samtölin við ráðherrann hefðu ekki áhrif á gang rannsóknarinnar. Það er eitthvað í þessu hjá ríkissaksóknara og umboðsmanni Alþingis sem mér finnst ekki ganga upp.

Mikið hefur verið rætt um það að Hanna Birna hafi logið að Alþingi þegar hún sagði þingheimi að hún vissi ekkert um málið – þótt hún hafi augljóslega rætt um framgang þess við Stefán Eiríksson. Hanna Birna sagði á Alþingi í júní sl.: „Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt um þetta mál. Ég veit ekki hvernig það er til komið, ég veit ekki hversu oft ég á að segja það. Ég þekki ekki þessa rannsókn, mér er ekki kunnugt um hana og það væri óeðlilegt að ég þekkti einstaka þætti hennar.“

En laug Hanna Birna að Alþingi? Vissi hún eitthvað meira um einstaka þætti rannsóknarinnar en hún mátti vita sem aðili að henni og á eðli þeirra gagna sem ráðuneyti hennar þurfti að afhenda lögreglunni? Vissi hún í sjálfu sér eitthvað meira þótt hún hafi rætt við Stefán lögreglustjóra um að sér fyndist rannsóknin óþarflega viðamikil miðað við þau trúnaðargögn sem hún þyrfti að afhenda lögreglunni? Vissi hún eitthvað meira þegar hún fór að spyrjast fyrir um hvort hægt væri að hraða henni og blanda sér í tímasetningar á yfirheyrslum? Það held ég ekki. Hún átti hins vegar aldrei að ræða málið við lögreglustjóra.

En hvernig er það annars með hinn almenna borgara sem er til rannsóknar hjá lögreglunni? Má hann ekki hringja í lögregluna og forvitnast um það hvenær hann verði kallaður í yfirheyrslu, hvort rannsókninni ljúki ekki fyrir ákveðinn tíma og þar fram eftir götunum? Eflaust þykir það ekki tiltökumál – en í þetta skiptið var það sjálfur innanríkisráðherra, yfirmaður lögreglunnar, sem átti hlut að máli og gerði það allt flóknara.

Úr bréfi umboðsmanns vegna samtals hans við Stefán Eiríksson: „Aðspurður um hvort hann hafi litið svo á að með samtölum yðar, og því sem þar kom fram, væri í raun og veru verið að hafa afskipti af rannsókninni svaraði L (lögreglustjóri): „Ég leit í rauninni bara svo á að, þetta er sambærilegt og þegar margir af þeim sem eru undir rannsókn lögreglu hafa samband og koma á framfæri athugasemdum sínum.“

Fari svo að Hanna Birna segi af sér (sem ég held að hún geri ekki) þá hefur ekki jafnlítil þúfa velt eins þungu hlassi í íslenskri pólitík. Upphaf þessa máls er svo ómerkilegt að engu tali tekur. Tony Omos neitað um hæli. Ekki orð um það meira!

Fyrir utan þau mistök Hönnu Birnu að ræða við Stefán Eiríksson á þeim nótum sem Stefán hefur lýst – þ.e. að hún hafi í raun ekkert vitað um rannsóknina þótt hún ræddi umfang hennar við sig í ljósi afhentra gagna – þá gerði ráðuneyti hennar önnur mistök. Innanríkisráðuneytið fór á taugum þegar tugir manna mótmæltu því fyrir utan ráðuneytið að Tony Omos hefði verið neitað um hæli og vísað í burtu úr landi. Svar ráðuneytisins átti að vera: Honum hefur verið neitað um hæli og þar við situr. Það þarf ekkert að útskýra það frekar! Málið afgreitt.

Bent hefur verið á að málið hafi í raun verið orðið opinbert þegar mótmælin byrjuðu fyrir utan ráðuneytið og að þjóðin hefði þá átt heimtingu á að vita út á hvað það gengi. Margt styður þá hugsun – en engu að síður hefði ekki þurft að útskýra hælisneitunina.

Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Gísla Frey Valdórssyni, fyrrverandi aðstoðarmanni Hönnu Birnu. Er honum gert að sök að hafa brotið gegn þagnarskyldu í starfi sínu með því að hafa á tímabilinu 19.-20. nóvember 2013 „látið óviðkomandi í té efni samantektar er bar yfirskriftina: Minnisblað varðandi Tony Omos.“ Fram hefur komið í fréttum að nafntogaðir lögmenn telja að ákærunni verði vísað frá þar sem glæpnum er ekki nægilega lýst í henni.

Stjórnmálamenn sækja traust sitt til kjósenda. Ég held að Hanna Birna standi þetta af sér og sitji út kjörtímabilið. En fari þetta mál að þvælast fyrir flokknum fyrir næstu kosningar þá kemur hin raunverulega staða hennar fyrst í ljós.

Jón G. Hauksson

[email protected] 

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.