Skotar sögðu nei (JGH)

Pistlar

Jón G. Hauksson's picture

Skotar höfnuðu sjálfstæði og sögðu NEI í kosningunum. Í kjölfarið hyggst Alex Salmond, forsætis- ráðherra Skotlands, segja af sér. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Hann vann kosningarnar 2011 í Skotlandi út á þessa sjálfstæðisbaráttu þar sem helsta kosningaloforð hans var þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Skotlands. Hann leiddi baráttuna. Hann hyggst einnig segja af sér sem leiðtogi Skoska þjóðarflokksins.

Úrslit liggja fyrir; 55% Skota vilja ekki að landið verði sjálfstætt ríki heldur heyri áfram undir hið Sameinaða konungdæmi, United Kingdom. 45% Skota sögðu JÁ. Lokadagarnir í kosningabaráttunni voru æsispennandi og ljóst að breska þingið í Westminster fór á taugum þegar kannanir sýndu fyrir rúmri viku að sjálfstæðissinnar hefðu yfirhöndina. Hvers vegna fór Westminster á taugum og lofaði öllu fögru á lokaspretti ef Skotar segðu NEI? Ætli það hafi ekki eitthvað með efnahagsmál að gera?

Þegar rætt er um fyrirhugaða afsögn Salmonds rifjast auðvitað upp að helsta baráttumál ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur var Icesave-málið sem fór tvisvar í þjóðaratkvæðagreiðslu og var Jóhanna eindreginn stuðningsmaður þess að Icesave væri samþykkt. En svo fór ekki - og öfugt við Salmond gerði hún ekkert með það; skeytti því engu. Stóllinn var framar öllu. 

Ég hlustaði á tvo hagfræðinga á BBC ræða um hvaða áhrif það hefði á skost og breskt efnahagslíf ef Skotar segðu JÁ og samþykktu sjálfstæði. Það kom mér á óvart hvað þeim gekk illa að greina áhrifin og stilla dæminu þannig upp að kjósendur vissu hvaða efnahagslega þýðingu atkvæði þeirra hefði.

Það var ekki á hreinu - og er kannski ekki á hreinu. Kosningarnar snerust auðvitað ekki síður um þjóðernishyggjuna – og hvaða þýðingu það hefði að vera skoskur í sjálfstæðu Skotlandi. Skotar fengu sjálfstætt þing árið 1999 og þá þegar hófst umræðan um sjálfstætt Skotland.

Þeir Skotar, sem sögðu NEI, nefndu sem rök að óvissa væri um gjaldmiðilinn, bankakerfið, heilbrigðiskerfið og eftirlaunasjóði ef Skotar slitu sig úr ríkjasambandinu við Englendinga. Englendingar sjálfir telja að þeir borgi verulega með Skotum þegar kemur að heilbrigðis- og tryggingakerfinu.

Mér fannst rökin um að Skotar gætu ekki haft breska pundið áfram sem gjaldmiðil ef þeir kysu sjálfstæði (en skoskir bankar prenta einnig sína eigin skosku útgáfu af pundinu) mjög ódýr. Það tekur enginn gjaldmiðil af þjóð sem kýs sjálfstæði og vill áfram nota sama gjaldmiðil og það hefur notað í þrjú hundruð ár; þótt Englandsbanki (Breski seðlabankinn) styðji ekki við útgáfuna í landinu lengur. Hvers vegna geta þeir ekki samið um sameiginlegt myntsvæði? Það myndi augljóslega veikja breska pundið ef Skotar hættu að nota það.

Í ljósi þessa má spyrja sig hvort rökin um að Ísland geti tekið einhliða upp Kanadadollar, Bandaríkjadal og norska krónu án þess að hafa stuðning viðkomandi seðlabanka við útgáfuna standist.

Sjávarútvegsmál bar á góma og sagði skoskur skipstjóri að hann segði JÁ vegna fiskimiðanna. Hann vildi að Skotar réðu yfir þeim – en stjórnin er í höndum Englendinga og Evrópusambandsins.

Skotar hafa þegar dágóðar skatttekjur vegna olíuvinnslunnar en obbinn af olíunni er seldur til Englands. Í umræðunni kom fram að ekki eru allir á eitt sáttir um hvað olíulindinar undan strönd Skotlands duga lengi. Sjálfstæðissinnar sögðu að þeir ætluðu að koma upp olíusjóði að hætti Norðmanna og ná meiri tekjum af olíuvinnslunni. Þá var skoska viskýinu og útflutningstekjum af því óspart hampa í baráttunni.

Það kom mér á óvart að þjóðarframleiðsla á mann í Skotlandi er 15% meiri en í Englandi; mest vegna tekna af olíuframleiðslunni; svarta gullinu. Það kom fram í kosningabaráttunni að Skotar væru í 14. sæti í heiminum hvað þjóðarframleiðslu á mann snertir en Englendingar í 18. sæti. Skoska hagkerfið hefur mesta framleiðslu á hvern íbúa innan Stóra-Bretlands fyrir utan London.

Olíuframleiðsla Skota hefur minnkað stöðugt síðasta áratuginn. Minnkaði um 10% árið 2013 eftir að hafa dregist saman um 14% árið 2012.

Kosningarnar í Skotlandi snerust um sjálfstæði og þá hugsun að vera Skoti – en auðvitað snerust þær líka um peninga; framtíðarlífskjör í Skotlandi. Þeir, sem sögðu JÁ, telja sig hafa það betra í sjálfstæðu ríki og þeir telja sömuleiðis að Skotar gefi meira til hins Sameinaða konungdæmis en þeir þiggi.

Alex Salmond hyggst segja af sér. Hann er samkvæmur sjálfum sér – og ólíkur fyrrum forsætisráðherra Íslands sem hugsaði bara um það eitt að sitja sem fastast.

Jón G. Hauksson
[email protected]

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.