Leiðin að hjarta mannsins (JGH)

Pistlar

Jón G. Hauksson's picture

Leiðin að hjarta mannsins liggur í gegnum magann. Það segir sig eiginlega sjálft að þjóð sem hugsar bara um mat og horfir öllum stundum á matarþætti í sjónvarpi vill auðvitað ekki skatt sem nefnist því kúnstuga nafni matarskattur – og hvað þá að það eigi að hækka hann. Það kallar á bylgju mótmæla. Að vísu er bót í máli að flatskjárinn lækki í verði svo hægt sé að horfa á matarþættina á stærri skjá. Ríkisstjórnin á fyrst og fremst að finna leiðir til að lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki - og draga úr flækjustiginu í stað þess að ýta undir það.

Ég hefur verið yfir kjörþyngd í nokkurn tíma – svona eins og obbinn af þjóðinni. Við erum víst feitasta og þyngsta þjóðin í Evrópu og nálgumst Bandaríkjamenn í þungavigt. Bandaríska þjóðin skiptist núna í tvenns konar þjóðfélagshópa; þeir sem eru feitir, lítið menntaðir og nærast á skyndibitum og svo hinir sem eru tekjuháir, grannir, alltaf í ræktinni og greiða stórfé fyrir lífrænt ræktaðan mat. Þetta á líka við um okkur Íslendinga. 

Á Íslandi hefur allt gengið út á mat og megrunarkúra þessa vikuna eftir að Bryndís Loftsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, fann það út að forsendurnar varðandi hækkun matarskattsins í fjárlagafrumvarpinu væru þær að hver máltíð mætti ekki kosta meira en 248 krónur. Eftir það hefur verið gerð hörð atlaga að Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra.

Virðisaukaskattur á matvæli er alltaf kallaður matarskattur en í öðrum atvinnugreinum er hann nefndur því nafni sem hann heitir. ASÍ og stjórnarandstaðan segir að verið sé að ráðast á hina tekjulágu með því að hækka matarskattinn.

Það er einmitt við matarborðið – en ekki samningaborðið í karphúsinu – sem allir hugsa skyndilega um hina tekjulágu því við samningaborðið hugsar hver um sig og launhækkun hins tekjulága kallar auðvitað á enn meiri hækkun hjá hinum tekjuháa.

Hvers vegna býr atvinnulífið ekki við jafnræði þegar kemur að virðisaukaskatti? Hvers vegna eru sumar atvinugreinar og vörur þá á sérkjörum? Hvers vegna er ekki bara eitt þrep í virðisaukaskatti - það sama í öllum atvinnugreinum? Hvers vegna er ekki bara eitt þrep í tekjuskatti einstaklinga?

Það er auðvitað með ólíkindum að hjá þjóð sem býr við mikinn fjárhagsvanda ríkisins skuli öll umræða um fjárlagafrumvarpið hafa snúist um hækkun virðisaukaskatts á matvæli úr 7% í 12%. Sömu þingmenn og núna mótmæla þessari hækkun voru á móti lækkun virðisaukaskatts á matvæli árið 2007 þegar hann lækkaði úr 14 í 7%. En það er víst önnur saga – og hana má helst ekki rifja upp.

Og fyrst umræðan gengur út á tekjulægstu hópana þá má færa rök fyrir því að þegar vín og tóbak er hækkað upp úr öllu valdi að þá lendi þær hækkanir, sérstaklega tóbakið, þyngra á þeim tekjulægstu í ljósi áðurnefndra lífsstílsbreytinga hér á landi og í Bandaríkjunum.

Hagstofan hefur gefið út að samkvæmt neyslukönnun eyði fjögurra manna vísitölufjölskylda um 135 þúsund krónum í mat og drykk á mánuði (áfengi er undanskilið) eða um 20,6% af heildarútgjöldum. Það gerir um 1.089 kr. á mann á dag.

Innifalið er allur matur og drykkir keyptir í dagvörverslunum (16,2%) af útgjöldunum, á veitingahúsum, (1,4%), á skyndibitastöðum (2,3%) og mötuneytum (0,7%).

Menn geta svo leikið sér að reikna út hvað hver máltíð og biti á mann kostar út frá þessum tölum - og jafnvel hvað skammtarnir séu stórir; en á því hef ég sérstakan áhuga.

Við umræður um fjárlagafrumvarpið var rætt um að hækkun matarskatts ætti að skila ríkissjóði 11 milljörðum króna en að alls kyns mótvægisaðgerðir, eins og lækkun efra þreps virðisaukaskattsins úr 25,5% í 24,0% sem og afnám almennra vörugjalda skili neytendum á móti 8 milljörðum. Og til að vega enn frekar upp á móti hækkun matarskatts verði barnabætur hækkaðar um 13% á næsta ári.

Svona millifærslukefi er of flókið – og allt of flókið til að verjast árásum slóttugra stjórnmálamanna. Þetta heitir einfaldlega að meta stöðuna ekki rétt og gefa færi á sér að óþörfu.

Þegar rætt er um tölur og talnaefni þá skilja fæstir umræðu upp á tugi milljarða. En við erum auðvitað öll með á nótunum þegar rætt er um verð á sígarettupakka sem kostar 1.200 krónur eða máltíð á 248 krónur.

Þetta er í takt við Parkinsons-lögmálið í stjórnun. Þar er dæmið oft tekið um stjórn kjarnorkuversins sem ákvað á fimm mínútum að byggja 100 milljarða kjarnorkuver en reifst síðan á mörgum fundum um það hvort byggja ætti hjólageymslur fyrir starfsmenn kjarnorkuversins. Allir höfðu skoðanir á því.

Hvers vegna snýst umræðan um fjárlögin ekki um að lækka skattprósentuna almennilega á einstaklinga og fyrirtæki til að auka umsvifin í samfélaginu meira og auka þannig skatttekjur ríkissjóðs í krónum talið í takt við aukinn hagvöxt?

Hvers vegna er tryggingagjald ekki lækkað á fyrirtæki þegar atvinnleysi hefur minnkað verulega?

Hvers vegna snýst umræðan um fjárlögin ekki um það hvers vegna ríkið og skattgreiðendur eigi að greiða barnabætur, vaxtagjöld og húsaleigubætur fyrir alla – fyrst allir hafa allt í einu svona mikinn áhuga á hinum tekjulægstu?

Hvers vegna snýst umræðan um fjárlögin ekki um samhjálpina og fyrir hverja hún sé - fyrst allir einblína núna á þá tekjulægstu?

Hvers vegna snýst umræðan um fjárlög ekki um að ríkissjóður sé í miklum vanda vegna loforða um að lífeyrisgreiðslur til opinberra starfsmanna en þær eru langt yfir því sem lífeyrissjóðir ríkisstarfsmanna getur staðið við?

Hvers vegna finnst öllum eðlilegt að ríkið sé með einokun á áfengi og tóbaki og að sú einokun sé miklu betri en önnur einokun?

Hvers vegna finnst öllum eðlilegt að þegar ASÍ og vinnuveitendur semja að þá komi ríkið alltaf að samningunum með alls kyns tilfærslum?

Það er af nógu að taka þegar kemur að umræðum um skatta, fjárlög og vanda ríkissjóðs. Sú umræða kemst ekki að við matarborðið. Hækkun matarskatts er borðleggjandi til að flækja umræðuna og snúa henni frá því sem skptir máli.

Það er engin furða þótt rök ríkisstjórnarinnar um að með fjárlagafrumvarpinu sé verið að skila 40 milljörðum aftur til fólksins í landinu frá því sem var í tíð síðustu ríkisstjórnar, eins og það hefur verið orðað af forsætisráðherra.

Gerið aldrei lítið úr lágum fjárhæðum. Það skilja allir lágar tölur eins og 1.200 kall og 248 krónur, en erfiðara er að höndla 40 millljarða.

Ég borðaði á Aski í hádeginu og greiddi fyrir hlaðborðið þar um 2.200 krónur. Það eru næstum tíu skammtar, samkvæmt Bryndísi Loftsdóttur.

Ég stíg ekki á vigtina oftar í dag.

Jón G. Hauksson

[email protected] 

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.