Vopnin ekki kvödd (JGH)

Pistlar

Jón G. Hauksson's picture

Það eru alltaf fjör á Fróni, það má bóka. Litlu málin fá mesta umræðu enda skiljum við þau betur. Við erum meistarar í að gera úlfalda úr mýflugu. Við sveiflumst og upplifum geðshræringu frá einni vikunni til annarrar. Eina vikuna er allt vonlaust og þá næstu er allt í sómanum. Það er svolítill Ragnar reykás í okkur öllum – þó sérstaklega finnst mér „í þessum hinu“. Þjóðin kaus fyrir einu og hálfu ári og náði Framsókn 19 þingmönnum inn á þing út á leiðréttinguna sem þá var kosningamálið. Núna tapar Framsókn 13 þeirra, samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins, og fara þeir yfir á Pírata og Samfylkingu sýnist mér. Allir sem vildu leiðréttingu vilja hana að því er virðist ekki lengur - en fúlsa sjálfsagt ekki við henni þegar þar að kemur. Og líklegast hefur blessuð mjólkin eitthvað að segja um fylgistapið. En er svona stutt á milli Samfylkingar og Framsóknar? Þetta kallar á félagsfræðilega rannsókn á kjósendum þessara flokka.

Sama könnun Fréttablaðsins sýnir að 70% vilja alls ekki að einokun ÁTVR á sölu áfengis verði afnumin og eru þar af leiðandi á móti því að leyft verði að selja vín í matvöruverslunum. Samt segjumst við á móti allri einokun – sérstaklega í mjólkinni. Sú einokun er bara allt annars konar og við erum á móti svoleiðis einokun. Það má víst ekki vera of greiður aðgangur að víni – en samt gleðjast allir yfir því hvað þjónusta ÁTVR er orðin góð og opnunartíminn rúmur.

Lögreglan nýtur mikils trausts í könnunum. Engu að síður kviknaði í púðurtunnu þegar sagt var frá því að lögreglan hefði fengið nýjar 150 hríðskotabyssur frá Noregi og til stæði að setja þær inn í alla lögreglubíla á Íslandi. Mesta skothríðin varð á alþingi sem vildi láta skila byssum til Norðmanna sem ekki voru gefnar heldur seldar. Eftir allan æsinginn hefur ríkislögreglustjóri upplýst að ekki standi til að setja byssurnar í bílana en óski lögreglustjórar eftir því muni hann verða við þeirri ósk þeirra.

Þjóð og þingmenn eru aðeins að róast yfir þessum úlfalda enda hafa vopnin aldrei verið kvödd á Íslandi – það eru yfir 60 þúsund byssur á Íslandi og líklegast vel yfir 40 þúsund manns með byssuleyfi - sem ekki er það sama og hríðskotabyssuleyfi. Hríðskotabyssur eru sagðar nálægt 400 hundruð hér á landi.

Eðlilega hefur lögreglan og landhelgisgæslan yfir nútíma skotvopnum að ráða. Víkingasveitin hefur starfað í yfir 30 ár. Það er nánast barnaleg umræða að lögreglan á Íslandi eigi ekki að hafa fullkomin skotvopn. Það sem kveikti í púðurtunnunni var að hríðskotabyssurnar færu í bílana. Rambó sjálfur átti að vera undir stýri, var upphrópunin. Sjálfum finnst mér eðlilegast að þær séu ekki í bílunum heldur til taks á lögreglustöðvum. Það er reykásinn í mér.

Samkeppniseftirlitið vill láta ríkissaksóknara skoða leka á skýrslu eftirlitsins um meint samráð Eimskips og Samskips til Kastljóss. RÚV er ekki hrifið af þessri lekarannsókn og þegar forsætisráðherra var spurður um málið hafði hann á orði hvort ríkissaksóknari væri ekki búinn að gefa fordæmi – ekki féll það í kramið. Ráðherrann var spurður en átti víst að neita að svara. Vandinn er bara sá að þetta er eins og í mjólkinni og ÁTVR; okkur finnst sumir lekar betri en aðrir. Þingmenn elska að leka – en líta á leka sem mjög alvarlegt mál. Fjölmiðlar lifa á lekum - en virðast allt í einu orðnir mjög andsnúnir lekum.

Mikil umræða er um ríkisstyrki til bænda. Til eru fimm tegundir af bændum; mjólkurbændur, sauðfjárbændur, grísa- og kjúklingabændur (sem eru frekar iðnrekendur), grænmetisbændur og ferðaþjónustbændur. Mjólkurbændur og sauðfjárbændur fá styrkina. Markmið okkar allra er að landbúnaður verði hagkvæmari; þ.e. neytendur fái kjöt á lægra verði á sama tíma og bændur fái hærra verð. Aukið frelsi í innflutningi á landbúnaðarvörum er líklegt til að halda mönnum við efnið og auka hagkvæmnina stórlega í atvinnugreininni og jafnvel losa um óeðlilega mikil tök milliliða í landbúnaði. Miklir ríkisstyrkir til landbúnaðar njóta vaxandi gagnrýni þótt landbúnaður úti um allan heim sé meira og minna ríkisstyrktur.

En það virðist ekki sama hvaða atvinnugreinar og fyrirtæki eru ríkisstyrkt. Nokkur umræða hefur orðið um að RÚV hafi fengið um 26 milljarða í ríkisstyrki á síðustu sjö árum í gegnum nefskattinn frá skattgreiðendum til að keppa við tugi einkafjölmiðla; stórra sem smárra. En þá bregður svo við að sá ríkisstyrkur eru í lagi.

Icesave-málið er eitthvað sem menn hafa heyrt minnst á. Þar var tekist á um eftirá-ábyrgð ríkisins á einkabönkum – og fengu sjónarmið ríkisábyrgðar upp á hundruð milljarða króna verulegt fylgi í seinni þjóðaratkvæðagreiðslunni; ekki síst frá forráðamönnum ASÍ og atvinnurekenda. ASÍ og vinnuveitendur hyggjast núna semja sín á milli. Núna er að hitna í kolunum og vekur athygli að endurkjörinn forseti ASÍ beinir orðum sínum fyrst og fremst að ríkinu. Þegar fyrri ríkisstjórn kom að samningum fyrir fjórum árum var haft eftir þáverandi fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, að samningarnir myndu kosta ríkissjóð um 60 milljarða á nokkrum árum. Hvers vegna er í lagi að ríkisstyrkja frjálsa samninga ASÍ og vinnuveitenda á frjálsum vinnumarkaði? Hvers vegna bera þeir ekki ábyrgð á sínum samningum sjálfir?

Skólakerfið og heilbrigðiskerfið eru stærstu útgjaldaliðir ríkissjóðs. Þetta er bæði ríkisrekið kerfi og ríkisstyrkt kerfi. Í hvert sinn sem rætt er um að einkalæknastöðvar geti sinnt stærra hlutverki í heilbrigðiskerfinu verður allt vitlaust og yfirleitt notast vinstriöflin þá við orðið nýfrjálshyggju og umræðan fer yfir í það hvort við viljum virkilega ekki sinna okkar minnstu bræðrum og tekjulægstu; sjúkum og fátækum. Málefnaleg umræða á sér aldrei stað en 34 þúsund skurðaðgerðir eru framkvæmdar á Íslandi á ári, þar af helmingur, um 17 þúsund, hjá einkastöðvunum sem eru með samninga við ríkið. Nei, þá eru ríkir að troða sér fram fyrir á biðlistunum.

Í menntakerfinu má ekki heyra minnst á einkaskóla – en þær raddir heyrast að menntakerfið á Íslandi sé gert fyrir meðalmennskuna. Frjálsu háskólarnir eru óbeint ríkisstyrkir vegna þess að þeir fá styrk á nemanda. Mikið frelsi í háskólanámi er af hinu góða. En samt finnst okkur eðlilegt að styrkja Háskóla Íslands í keppninni við „einkaskólana“?

Menntamálaráðherra kemur með tillögu um að stytta nám á Íslandi og gera það effektívara og finnur þá út að hafa menntaskólanám þrjú ár en ekki fjögur. Hvers vegna styttir hann ekki námstíma á barnaskólastigi en leyfir náminu í menntó, þegar ungt fólk tekur út mikinn þroska, að vera bara eins og það er núna? Eða að leyfa þessu að vera frjálsu – þannig að nemendur sem vilja hraðferð eigi kost á því?

Eftirlitsiðnaðurinn er að tröllríða íslensku atvinnulífi – samt viljum við ólm auka allt eftirlit með hinu og þessu í atvinnulífinu og helst að halda um það fleiri ráðstefnur. Við viljum auka eftirlitið svo við sjálf þurfum ekki að taka eins mikla ábyrgð á okkur.

Íslenskur sjávarútvegur er einn af þeim best reknu í heimi og einn fárra í heiminum sem er án ríkisstyrkja – en auðvitað viljum við þá blóðmjólka hann í sköttum og gera hann ósamkeppnishæfan þannig að hann komist örugglega aftur á jötuna.

Ríkisstyrkir og ríkisstyrkir. Sumir ríkisstyrkir eru betri en aðrir, að því er virðist. Það er alltaf fjör á Fróni; mýflugur og úlfaldar, helsta vopnið virðist óupplýst og ómálefnaleg umræða, líklegst er það lýsandi fyrir okkur. Vopnin kvödd, hvað?

Bíddu við; á ég kost á að gera ríkisstyrkta félagsfræðilega rannsókn á kjósendum Framsóknarflokks og Samfylkingar? Obbabobb, sko ríkisstyrkir, þeir eru ekki svo...

Jón G. Hauksson

[email protected] 

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.