Vér mótmælum (JGH)

Pistlar

Jón G. Hauksson's picture

Það fór fyrir mér eins og mörgum öðrum að ég vissi ekki hverju var verið að mótmæla á Austurvelli í byrjun vikunnar. Sjónvarpið stóð sína margrómuðu mótmælafunda plikt og var með beina útsendingu frá Austurvelli og ræddi við forsætisráðherra í þinghúsinu. En það dugði ekki, ég var engu nær um mótmælin og mótmæli því að sjálfsögðu.

Forsætisráðherra sagði við RÚV að tónlistarkennarar væru áberandi á Austurvelli og sagðist sýna því skilning að þeir vildu hafa sömu laun og kennarar. Þar var hann auðvitað að skjóta á Dag B. Eggertsson borgarstjóra og aðra sveitarstjórnarmenn sem semja við tónlistarkennara. Ekki vissi ég heldur hver þessi Svavar Knútur Kristinsson var sem sagður var forvígismaður mótmælanna. Hann kvað vera nemi við Söngskólann í Reykjavík, samkvæmt Hr. Google, og mannfræðingur að mennt. Það sannaðist með honum að það virðist sama hvaða vitleysu fólk lætur út úr sér á svona stundum; hópsálirnar og atvinnumótmælendur taka undir með fagnaðarlátum.

Svo er að skilja að mótmælendur, á sama tíma og þeir lömdu í varnargirðingu lögreglunnar, hafi sammælst um að ríkisstjórnin ætti að sýna minni hroka og dónaskap. Sagt var að framhald yrði á mótmælunum – hver sem þau verða. Af nógu virðist að taka hjá þeim sem hafa allt á hornum sér. Það er hægt að mótmæla öllu ef út í það er farið. Einn kvað hafa mótmælt því að ríkisstjórnin stæði ekki við gefin loforð um að lækka skatta og draga úr ríkisútgjöldum. Sá hafði talsvert til síns máls – en var líklegast einn um þessa skoðun þetta nóvemberkvöld á Austurvelli.

Annars bendir margt til þess að ríkisstjórnin sé seinheppin. Ég hef áður nefnt hækkun matarskattsins sem hefur verið birtingarmynd allrar umræðu um fjárlagafrumvarpið hjá þjóð með mikinn vanda í ríkisfjármálum – ekki síst vegna lífeyrisskuldbindinga ríkisstarfsmanna. Í kjölfarið dettur svo einhverjum embættismanninum í hug að segja upp sautján skúringakonum rétt fyrir jólin hjá Stjórnarráðinu í nafni sparnaðar og útboðs á ræstingum? Þessum embættismanni hlýtur að vera illa við ríkisstjórnina. Þarna varð hann allt í einu ljóslifandi gamli brandarinn um  forstjórann með digra vindilinn sem byrjar á að hagræða með því á að segja skúringakonunni upp – eða ræstitækninum svo maður móðgi ekki femínistana. Ég hjó eftir því í viðtali við forsætisráðherra um málið að hann svaraði spurningunni á þá leið að engum í ræstingum hefði verið sagt upp í forsætisráðuneytinu en upplýst var í leiðinni að það væri meðal annars í fjármálaráðuneytinu. Sérstakt!

Flugvallarmálið er að verða eins og mótmælin við Austurvöll sem enginn skilur. Nefnd Rögnu Árnadóttur skoðar framtíðarstæði fyrir flugvöll á höfuðborgarsvæðinu – en hafi ég skilið málið rétt, skautar hún framhjá núverandi flugvallarstæði Reykjavíkurflugvallar í leitinni miklu þar sem nefndin á ekki að skoða það. Þjóðin vill hins vegar völlinn áfram á sínum stað, bæði Reykvíkingar og landsbyggðarfólk. Stærsti undirskriftalisti Íslandssögunnar með næstum 80 þúsund mótmælendum var afhentur Jóni Gnarr borgarstjóra og hann hafði á orði þegar hann tók við listanum að hann hefði átt von á fleiri á listanum. Í október á síðsta ári undirritaði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra frægt samkomulag við Jón Gnarr um að völlurinn ætti að vera til ársins 2020 en norður-suðurbrautin til ársins 2022. Að samkomulaginu kom líka Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, en hluti samkomulagsins var starf Rögnunefndar.

Jón Gnarr sagði við undirskrift samkomulagsinsað það fæli í sér „árangursríkt skref í að ná sátt í flóknu deilumáli sem hefur brunnið á vörum margra síðustu mánuði. Núna kemur æ betur  í ljós að „sáttin“ á milli Jóns Gnarrs og Hönnu Birnu fólst í því að völlurinn færi. Ef til vill sagði heldur ekkert annað í samkomulaginu þótt Flugvallarvinir hafi trúað því að málið væri ekki frágengið og að samkomulag af þessum toga þýddi talsverðar líkur á að völlurinn yrði áfram á núverandi stað.

Núna er frasinn hjá þeim sem undirrituðu samkomulagið að verið sé að skoða alla fleti í Rögnunefndinni og að það skipti máli að nefndin fái „tíma og frið“ til að ljúka sinni vinnu. Það má alls ekki trufla Rögnunefndina.

Hvers vegna segir ríkisstjórninog ráðherrar hennar það ekki umbúðalaust hver hennar afstaða sé til núverandi flugvallarstæðis Reykjavíkurflugvallar? Vill hún hafa völlinn áfram? Hann fer ekki gegn vilja ríkisstjórnarinnar.

Jón G. Hauksson

[email protected]

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.