Núna er lag fyrir vinstrimenn (JGH)

Pistlar

Jón G. Hauksson's picture

Það hlýtur að vera erfið staða pólitískt að segjast á móti leiðréttingunni en sækja síðan um hana eins og ekkert sé – ef marka má fréttir af því að Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hafi sótt um leiðréttinguna. Enn hallærislegra hefur verið að hlusta á Björk Vilhelmsdóttur, borgarfulltrúa Samfylkingar, sem fær 2ja milljóna niðurfærslu, en hamast í fjölmiðlum á móti henni. Henni hefur verið bent á að staðfesta ekki leiðréttinguna til sín en það vill hún ekki og talar um jafnrétti og að „allir verði að vera jafnir fyrir lögum“ en bætir þó af viti við að þetta hafi verið kosningamál.

Leiðréttingin virðist vinna verulega á hjá almenningi og það þrátt fyrir að prinsipp-fólk eins og Árni Páll og Katrín Jakobsdóttir mæli gegn henni og segi að peningarnir ættu frekar að fara í Landspítalann. Vandi þeirra er sá að enginn tekur mark á þeim lengur í þessu máli. Ég segi bara eins og er: Núna er lag fyrir kjósendur Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna að hefja landsátak um að fólk geti afsalað sér leiðréttingunni gegn því að hún fari til Landspítlans fyrst hann er forgangsverkefnið. Ég bíð spenntur eftir þeirri útkomu. Það hefur alltaf verið auðvelt að vera kommi í orði en erfiðara á borði – þótt í tilviki kommanna viti ég ekki hvaða borð er verið að tala um. Þeir eru margir sem gefa sig út fyrir að vera vinstrimenn en þegar kemur að eigin buddu og lífsstíl þá hugsa þeir eins og aðrir fyrst og fremst um eigin hag. Það er bara hið mannlega eðli.

Það skiptir í sjálfu sér litlu úr þessu hvaða skoðun menn hafa á leiðréttingunni; en ég hef haft efasemdir um hana; og hvað þá þegar í ljós kom að hún færi í gegnum ríkissjóð. Ég skil hins vegar mæta vel reiði þeirra sem engin lán hafa fengið afskrifuð en hafa horft upp þúsundir lántakendur gegnisbundinna lána fá stórfellda niðurfellingu sem og auðvitað þá sem nýttu sér 110%-leiðina þar sem meðalleiðréttingin var yfir 20 milljónir og fór í allt að því 100 milljónir í einhverjum tilvikum. Leiðréttingin núna er því eins konar „reiðlétting“ eins og sonur minn orðaði það við mig í pósti frá Ítalíu í fyrradag; létta á reiðinni vegna óréttlætis.

Vandi allra, sem eru á móti leiðréttingunni og láta núna hæst, er sá að hún varð – hvort sem mönnum líkar betur eða verr – helsta kosningamálið í síðustu kosningum og jafnframt birtingarmynd þeirra. Ég hef áður gert athugasemdir við fjármögnunina og hefði viljað  hafa það tryggt að skatturinn á þrotabúin stæðist lög en þrotabú Glitnis mun láta reyna á það fyrir dómstólum. Í ljósi þess að þetta var ekki bara eitthvað sem sagt var í hita leiksins á fundi úti í bæ heldur sjálft KOSNINGAMÁLIÐ þá er erfitt fyrir Framsókn og Sjálfstæðisflokk að standa ekki við þetta stóra loforð. En bæði Árni Páll og Katrín hvetja til þess. Rök Árna Páls og Katrínar hljómuðu fyrir síðustu kosningar og komust raunar rækilega að og þau bentu meðal annars á að nær væri að setja féð í Landspítalann. Þjóðin kaus og við vitum úrslitin; leiðréttingin vann. Miðað við kannanir undanfarið hafa ríkisstjórnarflokkarnir hins vegar ekki keypt sér varanlegar vinsældir með leiðréttingunni en fylgi þeirra kann þó að fara eitthvað upp á næstunni.

Leiðréttingin hefur engin áhrif á verðbólguna en Már Guðmunsson seðlabankastjóri hélt hinu gagnstæða fram á síðasta kjörtímabili. Már lækkaði meira að segja stýrivextina um leið og leiðréttingin var kynnt. Þetta er fé sem rignir ekki yfir þá sem sóttu um heldur lækka lánin og greiðslubyrðin verður eitthvað léttari á næstu áratugum. Þess utan vinnur aukinn séreignasparnaður gegn verðbólguáhrifunum.

Eða heyrði einhver talað um verðbólguáhrif þegar bankakerfið afskrifaði um 1.500 til 1.700 milljarða  hjá fyrirtækjum og eintaklingum á árunum 2009 til 2013, þar af hátt í 200 milljarða samtals hjá einstaklingum; mest vegna afskrifta gengisbundinna lána sem Hæstiréttur dæmdi ólögleg vorið 2010?

Á HANNA BIRNA AÐ SEGJA AF SÉR?

Annars hlýtur ríkisstjórnin að vera óhress með að umræðan um leiðréttinguna hvarf í einni andrá þegar Gísli Freyr Valdórsson, aðstoðarmaður Hönnu Birnu, steig fram og viðurkenndi að hafa lekið minnisblaðinu um hælisleitandann Tony Omos. Þetta er óskiljanlegt mál með öllu og furðulegt af honum að hafa ekki viðurkennt þetta fyrr. Hann græddi ekkert á að leka minnisblaðinu og lesa má á milli línanna að lekinn hafi nánast verið til að fullnægja eigin plottþörf; að hann hafi verið í stórkarlaleik.

Umræðan snýst núna um það hvort Hanna Birna eigi að segja af sér. Ég held að hún geri það ekki - þótt ekki sé víst að hún haldi áfram í pólitík eftir kjörtímabilið. Vandi Hönnu Birnu er sá að Gísli Freyr var pólitískt, sérráðinn aðstoðarmaður hennar en ekki venjulegur starfsmaður ráðuneytisins og hún ber þar af leiðandi ábyrgð á honum.

En á hún að segja af sér sem ráðherra? Það er nú það. Hún ber pólitíska ábyrgð á Gísla Frey og það finnst mér vega þyngst. Þetta mál fylgir henni og þvælist fyrir henni; þótt hún hafi hvorki tekið þátt í lekanum né vitað hver lak. Ýmsum finnst raunar ótrúlegt að hún hafi ekki vitað af brölti aðstoðarmanns síns. Ég hef áður sagt að kjósendur hafa síðasta orðið í þessu máli. 

Umboðsmaður Alþingis kemur með sína niðurstöðu innan skamms. Ég kann ekki á það hvaða vægi álit hans hefur gagnvart setu Hönnu Birnu í pólitísku embætti ráðherra. En fái hann það út að hún hafi brotið stjórnsýslulög kemur nýr flötur í málið. Ráðherrrar eru ekki hafnir yfir lög frekar en aðrir.

Ég gef hins vegar ekkert fyrir seinni áfanga lekamálsins; þ.e. samskipti Hönnu Birnu og Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra, og hvað þá ráðleggingu ríkissaksóknara til Stefáns um að hann ætti að tala áfram við Hönnu Birnu en láta sig hins vegar vita ef eitthvað kæmi upp á – er ekki við hæfi að orða það sem svo; að leka því til sín. Mér fannst fjara hressilega undan lögreglustjóra og ríkissaksóknara.

Annars er ég á leiðinni í Borgarleikhúsið á eftir. Ætla að sjá læknafarsann Beint í æð. Ég held að hann slái raunveruleikanum ekki við.

Jón G. Hauksson

[email protected]

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.