Afsögn Hönnu Birnu (JGH)

Pistlar

Jón G. Hauksson's picture

Afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra kemur ekki á óvart. Hún gat ekki annað í stöðunni, segja flestir. Lekamálinu er hins vegar langt í frá lokið. Núna er komið að þætti Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjóra í Reykjavík, og samtals hennar sem lögreglustjóra á Suðurnesjum fyrir ári við Gísla Frey vegna rannsóknar þess embættis á hælisleitandanum Tony Omos. Krafan um afsögn Sigríðar Bjarkar er orðin hávær.

Ég endurtek það sem ég hef áður sagt: Aldrei hefur eins lítil þúfa velt þungu hlassi og ruglið í kringum þennan Tony Omos. Honum var vísað úr landi af Útlendingastofnun sem hafði sínar ástæður. Og þurfti að ræða það eitthvað frekar?

Ég sagði í pistli mínum í síðustu að það vægi þyngst að Hanna Birna bæri pólitíska ábyrgð á Gísla Frey Valþórssyni og að þetta mál myndi fylgja henni og þvælast fyrir henni áfram – þótt hún hefði hvorki tekið þátt í lekanum né vitað hver lak, eins og hún hefur haldið fram. Þetta mál fylgdi hins vegar ekki bara Hönnu Birnu og þvældist fyrir henni, það fylgdi líka samherjum hennar innan flokksins.

Sumir áttu von á því að Bjarni Benediktsson tæki af skarið um áramót og að þá yrði stokkað upp í ríkisstjórninni. Það gerist hins vegar margt á einni viku í pólitík. Ég átti hins vegar ekki von á að hún segði af sér – og sagði það í síðsta pistli – taldi að hún myndi klára kjörtímabilið en velti því fyrir mér hvort hún héldi áfram í pólitík.

Lekamálið mun væntanlega skerpa á stjórnsýslunni í landinu og gera hana formlegri en hingað til. Auðvitað hefur það tíðkast í áratugi á Íslandi að dómsmálaráðherra, yfirmaður lögreglunnar í landinu, hringi í einstaka lögreglustjóra og ræði við þá um stöðuna og framgang rannsókna á málum gegn stjórnsýslunni – líka þeim sem hefur verið vísað úr landi af Útlendingastofnun og lögfræðingar þeirra reka málin í fjölmiðlum.

Formið segir okkur að dómsmálaráðherra - eða pólitískir aðstoðarmenn hans, megi ekki fá vitneskju um einstakar rannsóknir. Eða hverjum dettur annað í hug en dómsmálaráðherrar síðustu áratuga hafi ekki fengið vitneskju um stöðu lögreglurannsókna. Það segir sig sjálft.

Tony kærði Útlendingastofnun. En hvernig Gísla Frey datt í hug að hefja eitthvert plott í fjölmiðlum þótt tuttugu mótmælendur gengju með spjöld fyrir utan ráðuneytið er óskiljanlegt.

Jón G. Hauksson

[email protected]

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.