Það er þessi nýfrjálshyggja (JGH)

Pistlar

Jón G. Hauksson's picture

Í leiðara nýjasta tölublaðs Frjálsrar verslunar, bókinni 300 stærstu, skrifa ég um furðulegan tvískinnung fólks þegar kemur að einokun, ríkisstyrkjum og ríkisrekstri. Svo virðist sem sum einokun sé betri en önnur og sumir ríkisstyrkir séu betri en aðrir. Og ef einhvers staðar á að hagræða í ríkisrekstri er gripið til orða eins og nýfrjálshyggju og jafnvel dólgafrjálshyggju. Þá finnst sumum stjórnmálamönnum í lagi að ríkið komi með 60 milljarða að frjálsum samningum ASÍ og vinnuveitenda en þeir hinir sömu ná svo ekki andanum á alþingi yfir 80 milljarða leiðréttingu húsnæðislána sem að mestu er til venjulegs launafólks. Svona er leiðarinn:

Nýlega birti Fréttablaðið könnun sem sýndi að 70% vilja ekki að einokun ÁTVR á sölu áfengis verði afnumin og að leyft verði að selja vín í matvöruverslunum. Ein af röksemdum þeirra sem þessa skoðun hafa er að ekki megi vera of greiður aðgangur að víninu – en samt gleðjast allir yfir því hvað þjónusta ÁTVR hefur batnað mikið, vöruval sé fjölbreytt og afgreiðslutíminn rúmur. Það er eðlilegt að staldrað sé við niðurstöðu þessarar könnunar þótt eflaust séu mörg verkefni brýnni á vettvangi stjórnmála en afnám einokunar ÁTVR. Hér er hins vegar mál sem snýst um grunnafstöðu til frelsis í verslunarrekstri og ríkisafskipta. Í ljósi þessarar niðurstöðu má spyrja hvort allur innflutningur og smásala eigi ekki að vera í höndum ríkisins? Fæst ekki mesta hagræðið og vöruvalið með því?

En hvernig má það annars vera að allir rjúki upp til handa og fóta þegar rætt er um einokun í mjólkuriðnaði en séu hlynntir einokun í verslun með áfengi? Er sum einokun betri en önnur? Það er mikið rætt um ríkisstyrki og tollavernd í landbúnaði – sem er afar eðlileg og þörf umræða – en margir sem vilja afnema styrki til landbúnaðarins taka hins vegar andköf þegar rætt er um að afnema ríkisrekstur RÚV í fjölmiðlum og hafa jafnvel á orði hvort menn ætli að láta Jón Ásgeir alveg um markaðinn. Allt í einu eru ríkisstyrkir og ríkisrekstur þá af allt öðrum toga.

Eftir að RÚV varð hlutafélag hefur það fengið um 26 milljarða króna í ríkisstyrki frá skattgreiðendum í gegnum nefskattinn svonefnda. Er það eðlilegt? Hvers vegna á RÚV að fá slíka meðgjöf til að keppa við vel á annan tug einkarekinna fjölmiðla á Íslandi? Ríkisútvarpið er ekki sú ramma taug í samfélaginu sem það var á árum áður. Líklegast verður RÚV ekki til í núverandi mynd eftir fimmtán ár. Það fellur innan frá vegna taprekstrar og nýrrar tækni. Ungt fólk er að yfirgefa hefðbundið sjónvarp og hefðbundna prentmiðla. Ungt fólk vill ekki kaupa fréttir og telur eðlilegt að þær fáist frítt á netinu. Það verða þess vegna engin „ljót utanaðkomandi nýfrjálshyggjuöfl“ sem fella RÚV; það fellur innan frá með tíð og tíma.

Hvernig getur staðið á því að við viljum stundum ríkisrekstur í atvinnulífinu og stundum ekki? Stundum einokun og stundum ekki? Hvað þá að okkur finnist sum einokun betri en önnur? Auðvitað kallar þetta á einhvers konar sálfræðiskýringu. ASÍ og vinnuveitendur undirbúa nýja samningalotu og það hitnar í kolunum. En hvers vegna beina ASÍ og vinnuveitendur yfirleitt orðum sínum að ríkinu og fjármálaráðherra frekar en hvorir öðrum? Hefur forseti ASÍ verið kosinn fjármálaráðherra? Þegar fyrri ríkisstjórn tók þátt í gerð samninga fyrir fjórum árum var haft eftir þáverandi fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, að þeir samningar myndu kosta ríkissjóð um 60 milljarða á kjörtímabilinu. Hvers vegna bera aðilar vinnumarkaðarins ekki ábyrgð á sínum samningum sjálfir? Hvers vegna finnst mönnum í lagi að ríkisstyrkja frjálsa kjarasamninga ASÍ og vinnuveitenda en agnúast yfir öðrum ríkisstyrkjum í atvinnulífinu?

Læknar hafa verið í verkfalli og málefni Landspítalans og starfsfólks þess eru eilíft í umræðunni. En hvers vegna getur aldrei orðið málefnaleg umræða um að ná fram aukinni hagræðingu í heilbrigðiskerfinu með því að rýmka til fyrir auknum einkarekstri? Núna eru 34 þúsund skurðaðgerðir framkvæmdar á Íslandi á ári, þar af helmingur, um 17 þúsund, hjá einkastöðvunum sem spara skattgreiðendum stórfé vegna þess að reksturinn er allur miklu ódýrari og hagkvæmari og aðgerðirnir ekki eins dýrar fyrir skattgreiðendur – sem skiptir máli því almenn sátt er um að þeir greiði þær að mestu áfram. Um leið og þessi umræða um hagræðingu fer fram hrópa vinstriöflin að bölvuð nýfrjálshyggja hafi náð tökum á mönnum, að verið sé að troða auðugum burgeisum fram fyrir á biðlistum og hvort svo sé komið að við viljum ekki sinna okkar minnstu bræðrum og tekjulægstu; sjúkum og fátækum. Málið er einfalt; einkastöðvarnar verða að fá leyfi til að reka sjúkrahús, framkvæma stærri aðgerðir og leggja sjúklinga inn yfir nótt. Hvernig ætla læknar og hjúkrunarfólk annars að fá hærri laun nema með aukinni framleiðni og hagræðingu innan heilbrigðiskerfisins?

En hver er svo þessi nýfrjálshyggja á Íslandi sem vinstriöflin grípa alltaf til í örvæntingu sinni í umræðum um hagræðingu og minni ríkisafskipti? Hún er nú ekki meiri en svo að þegar Íslendingar skrifuðu undir EES-samninginn fyrir rúmum tuttugu árum öðluðust þeir loksins sama frelsi í viðskiptum og atvinnulífi og viðgengist hafði í áratugi í nágrannalöndum okkar. Það er nú öll nýfrjálshyggjan. Frjálsir fjármagnsflutningar í EES-samningnum voru hins vegar forsenda fyrir útrásinni svonefndu, stækkun íslenskra fyrirtækja til útlanda, og þar af leiðandi stækkun íslenska bankakerfisins. Við hrun hins vestræna bankakerfis haustið 2008 tókst vinstriöflunum á Íslandi að skíra það „hrun nýfrjálshyggjunnar“. Landsmenn í reiði, geðshræringu og búsáhaldabyltingu þess tíma kokgleyptu þetta heiti. Það varð að kenna einhverju öðru um en okkur sjálfum – helst einhverri markaðshugsun sem vill að einstaklingar, fyrirtæki og bankakerfi beri meiri ábyrgð á sjálfu sér og eigin gjörðum. Brotthvarfið frá austantjaldsmenningunni; þ.e. frelsið í atvinnulífinu með EES, sem aðrar þjóðir höfðu viðhaft í áratugi, hét allt í einu nýfrjálshyggja.

Núna er raunar svo komið að vinstrimenn segjast sakna gamla íhaldsins vegna þess að í sovét-andrúminu hér á landi var það ekki eins andsnúið ríkisstofnunum, ríkisrekstri og ríkisstyrktu atvinnulífi.

Jón G. Hauksson

 

 

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.