Ræða mín við útnefningu Róberts (JGH)

Pistlar

Jón G. Hauksson's picture

Hér kemur ræða sem ég flutti í fjölmennri veislu Frjálsrar verslunar á Radisson Hótel Sögu við útnefndingu Róberts Guðfinnssonar sem manns ársins í atvinnulífinu. Benedikt Jóhannesson, útgefandi Frjálsrar verslunar, stýrði veislunni en ég skýrði val dómnefndar.  Ólöf Nordal innanríkisráðherra afhenti viðurkenninguna.

 

Maður ársins í íslensku atvinnulífi árið 2014,

innanríkisráðherra, Ólöf Nordal,

starfsmenn og ættingjar Róberts Guðfinnssonar,

góðir gestir.

 

Sjóndeildarhringurinn er takmarkaður hjá þeim er standa kyrrir.

Sá sem gengur áfram verður óendanleikans var.

 

Í viðskiptum þarf visku og víðan sjóndeildarhring.

Þótt verkefnið sé í heimabyggð norðurundir heimskautsbaug í faðmi hárra fjalla er heimsbyggðin öll undir í alþjóðavæðingu nútímans.

Fjármagn flýtur.

Rætur kalla.

Römm er sú taug, er rekka dregur föðurtúna til, orti Sveinbjörn Egilsson.

 

Veislugestir góðir!

Það er með mikilli ánægju sem Frjáls verslun útnefnir Róbert Guðfinnsson athafnamann á Siglufirði sem mann ársins í atvinnulífinu á Íslandi árið 2014.

Þetta er í 27. sinn sem Frjáls verslun stendur að þessari útnefningu og eru þetta elstu verðlaun í viðskiptalífinu á Íslandi.

Í mati sínu lagði dómnefndin til grundvallar stórhug og framsæknar fjárfestingar hans í siglfirsku samfélagi sem tengjast stefnu um sameiginleg verðmæti og samfélagslega ábyrgð til góðs fyrir íslenskt samfélag, þekkingu og menningu.

Í dómnefnd Frjálsrar verslunar sitja auk mín: Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri Heims og útgefandi Frjálsrar verslunar, en hann er formaður nefndarinnar, Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcans á Íslandi, Sigurður Helgason, stjórnarformaður Icelandair Group og dr. Eyþór Ívar Jónsson, forstöðumaður nýsköpunar- og frumkvöðlakennslu í MBA-námi Viðskiptaháskólans í Kaupmannahöfn.

Róbert Guðfinnsson hefur fjárfest í heimabyggð sinni á Siglufirði fyrir vel á fjórða milljarð króna og að mestu fyrir eigið fé sem hann hefur flutt til landsins og er afrakstur af erlendri starfsemi hans í sjávarútvegi og fiskeldi; aðallega í Mexíkó, á síðastliðnum tíu árum.

Þegar Róbert dregur fisk undan strönd Mexíkó má segja að línan liggi til Íslands – hann sé dreginn hér að landi.

Þessi langa lína er að vísu bankalína.

Róbert fjárfestir bæði í innviðum siglfirsks samfélags samhliða einkafjárfestingum sínum – og styðja þær fjárfestingar vel við hvor aðra. Það er fjárfestingarstefna í stjórnun sem kennd hefur verið við sameiginleg verðmæti.

Markmið hans er að Siglufjörður verði með þá breidd í atvinnulífi, menntun, þekkingu og bæjarlífi sem geri kaupstaðinn eftirsóknarverðan fyrir aðra til að hefja þar starfsemi sem krefst þekkingar og menntunar – og dragi þannig til sín menntaða einstaklinga í auknum mæli.

Hann hefur fjárfest í líftækni; byggir nýja líftækniverksmiðju, auk þess sem hann hefur keypt gömlu SR-mjöls verksmiðjurnar á Siglufirði undir þá starfsemi. Hann opnar nýtt hótel á komandi sumri við smábátahöfnina. Hann rekur þegar tvo veitingastaði við hafnarbakkann í gömlum húsum sem hann gerði upp af myndarskap; Rauðku og Hannes boy. Þá hefur hann lagt fé í byggingu nýs golfvallar og skíðasvæði bæjarins.

 

Góðir gestir!

Útnefning Róberts Guðfinnssonar athafnamanns sem manns ársins í atvinnulífinu er svolítið af öðrum toga en fyrri útnefningar Frjálsrar verslunar.

Fyrir það fyrsta er ekki búið að telja upp úr kössunum fyrir norðan, eins og það hefur stundum verið orðað. Afrakstur af fjárfestingum hans liggur ekki beint fyrir.

Stórhugur Róberts, djörfug og framsýn fjárfestingarstefna er hins vegar svo glæsileg að hann á viðurkenninguna fyllilega skilið – og rúmlega það.

Fjárfestingar hans á Siglufirði hafa á sér yfirbragð stefnu sem nefnd er deila verðmætum; sameiginleg verðmæti (share value) og kennd við stefnu sem sett var fyrst fram undir yfirskriftinni Strategy & Society  við Harvard-háskóla fyrir nokkrum árum. Þeir Michael Porter og Mark Kramer skrifuð síðan grein um sameiginlega verðmæti fyrir þremur árum sem vakti verðskuldaða athygli.

Róbert var hins vegar löngu búinn að móta sína stefnu varðandi Siglufjörð áður en þeir í Harvard settu fram sínar kenningar. Athafnamenn hefjast handa og láta verkin tala.

 

Góðir hálsar!

Hér er útnefning Róberts sett í dálítið fræðilegan búning, en hann er nauðsynlegur.

Þegar dómnefndin ræddi á fundum sínum um að velja hann sem mann ársins urðu eðlilega akademískar pælingar um forsendurnar þar sem afrakstur fjárfestinga hans á Siglufirði liggur ekki fyrir – þótt augljóslega hafi Róbert talið upp úr kössunum í erlendri starfsemi sinni – og flutt það fé af mikilli óeigingirni í sína heimabyggð.

Sameiginleg verðmæti; allra hagur, beggja hagur, samfélags og fyrirtækis, ganga út á fyrirfram markaða fjárfestingarstefnu einkafyrirtækis sem heldur samkeppnishæfni sinni til fulls en horfir líka til samfélagsins og þarf á styrk þess að halda.

Þetta er meira en að samfélagið og fyrirtækið eigi samleið; þau eru háð hvort öðru í styrkleika. Þetta er sjálf miðjan í fjárfestingunni – rauði þráðurinn.

Líftæknin er stóra trompið í fjárfestingum Róberts; stóra ábatasama verkefnið. Ef áform ganga eftir getur orðið um tugmilljóna króna útflutning á ári eftir nokkur ár.

Líftæknin styrkir bæjarfélagið, sem aftur með fjölbreytni sinni og menningarlegri umgjörð styður við líftæknina.

Líftæknifyrirtæki Róbert heitir Genís og meðeigandi og viðskiptafélagi Róberts í því er Vilhelm Már Guðmundsson.

Þetta verkefni hafa þeir undirbúið vel og haft þrjá doktora í líffræði í vinnu undanfarin tíu ár við rannsóknir sem eru vel á veg komnar og í alþjóðlegri samvinnu. Nýlega bættist fjórði doktorinn við.

Róbert er auðvitað langt í frá eini fjárfestirinn sem leggur fé í atvinnulíf úti á landsbyggðinni. Samherji er t.d. eitt stærsta og blómlegasta sjávarútvegsfyrirtæki í Evrópu og með höfuðstöðvar á Akureyri.

Fjárfestingastefna Róberts á Siglufirði hefur engu að síður á sér annan blæ; hann fjárfestir á sama tíma í samfélagi og fyrirtækjum sem einni heild svo þau hafi frá upphafi stuðning hvort af öðru.

 

Veislugestir góðir!

Hér hef ég ekki nefnt veltutölur, hagnað og arðsemi eiginfjár, eins og ég geri jafnan í ræðu minni á þessari hátíð. Ég hef lýst djörfung, fjárfestingarstefnu og framtíðarsýn.

Vel á minnst. Hvers vegna Rauðka og Hannes boy?

Hannes boy var Garðarson, þótti ölkær maður, og notaði boy í tíma og ótíma.

 

Ágætu gestir!

Eiginkona Róberts er Steinunn Ragnheiður Árnadóttir frá Ísafirði.

Þau eiga fjórar dætur og þrjú barnabörn. Tvær dætranna búa erlendis, önnur í Þýskalandi og hin í Bandaríkjunum. Hinar búa í Garðabæ og á Siglufirði.

Ég vil óska eiginkonunni Steinunni Ragnheiði, fjölskyldunni, viðskiptafélaga Róberts í Genís og í Mexíkó, Vilhelm Má Guðmundssyni, sem og starfsmönnum Róberts og vinum til hamingju með daginn.

Ég vil þakka Birni Vigni Sigurpálssyni blaðamanni fyrir gott og mjög svo yfirgripsmikið viðtal við Róbert í Frjálsri verslun. 

Geir Ólafssyni ljósmyndara vil ég þakka fyrir fínar myndir.

Það tókst loksins að koma Róbert í jakkaföt.

 

Góðir gestir:

Lyftum glösum.

Það hefði Hannes boy örugglega gert ef hann hefði verið með okkur hér í veislunni.

Víður sjóndeilarhringur – og aldrei kyrrstaða.

Hér fer víðsýnn, sigldur, stórhuga og framsækinn frumkvöðull sem við heiðrum.

Með auðmýkt og virðingu, segi ég:

Róbert Guðfinnsson;

Þína skál.

 

 

 

 

 

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.