Sumra er geð að geipa um féð (JGH)

Pistlar

Jón G. Hauksson's picture

Prómens bar á góma í spjalli okkar Páls Harðarssonar í fyrsta þætti Frjálsrar verslunar á ÍNN en þar  sagði ég þá skoðun mína að allt of mikið hefði verið gert úr málinu - og að þetta væri í raun ekkert mál. Það er óskiljanlegt hvernig rokið var upp með það á Alþingi í tómum misskilningi.

Og enn einu sinni nálgaðist Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, málið út frá pólitík fremur en hefðbundnum rökum. Sumra er geð að geipa um féð.

Eftir hrun gekk umræðan út á að gagnrýna útrásina og kaup Íslendinga á erlendum fyrirtækjum. Þannig stækkaði Promens. Núna er gagnrýnt þegar þessar erlendu fúnksjónir eru seldar. Prómens fer auðvitað fyrst og fremst úr landi vegna þess að það var keypt af fyrirtækinu RPC sem er alþjóðlegt fyrirtæki í plastiðnaði, vel rekið, stöndugt og skráð í kauphöllinni í London. Salan hefur ekkert með gjaldeyrishöftin að gera.

Landsbankinn fékk Prómens í fangið eftir hrun. Framtakssjóður Íslands, sem er í eigu um sextán lífeyrissjóða og Landsbankans, eignaðist síðan um 49,5% í fyrirtækinu á móti jafnstórum hlut Landsbankans og þess utan eignuðust starfsmenn Prómens 1%.

RPC fyrirtækið kaupir Prómens á um 36 milljarða króna. Bindandi samkomulag er í hendi en salan er ekki formlega yfirstaðin vegna fyrirvara. Fyrir rúmum þremur árum var félagið talið verðlaust og varð Framtakssóðurinn að leggja um 8 milljarða inn í félagið í formi hlutafjáraukningar og Landsbankinn að endurfjármagna það.

Núna fær Framtakssjóðurinn um 18 milljarða fyrir sinn hlut og innleysir um 10 milljarða hagnað af Prómens. Sjóðurinn var raunar stofnaður til að starfa sutt og koma að endurreisn atvinnulífsins eftir hrun. Landsbankinn er að innleysa mikinn hagnað af sölunni; ekki veit ég hversu mikinn; en fær um 18 milljarða fyrir sinn hlut. Starfsmenn fá um 360 milljónir.

Um 97% af starfsemi Prómens hefur verið erlendis. Það er með starfsemi í 20 löndum en mesta umfangið er í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi og Noregi.

Starfsmenn eru nánast allir erlendir. Af 3.800 starfsmönnum hafa 100 starfað á Íslandi, á Dalvík (gamla Sæplast) og í höfuðstöðvunum í Kópavogi.

Viðskiptavinir Promens eru að langmestu leyti erlendir.

Viðskiptabankar Prómens eru erlendir - en minnt er á að Landsbankinn er aðaleigandi fyrirtækisins.

Snemma á síðasta ári voru mikil áform um að skrá Promens í Kauphöllina og hleypa íslenskum fjárfestum að fyrirtækinu.

Síðastliðið vor sýndi stórfyrirtækið Unilever áhuga á samstarfi við Prómens og sáu menn fyrir sér að  sala fyrirtækisins myndi við það stóraukast og fyrirtækið verða mun verðmætara á næstu árum. Til að hefja þetta samstarf þurfti Prómens að fara í um 23 milljarða fjárfestingar erlendis (um 150 milljónir evra). Búið var að tryggja fjármögnun fyrir um 80% þessarar fjárhæðar hjá norskum bönkum en þeir báðu um að á móti kæmi Prómens sjálft með 20% eða um 4,6 milljarða.

Það voru þessir 4,6 milljarðar króna sem þurftu að komast út og sótt var um undanþágu á hjá Seðlabankanum. Fram hefur komið í fréttatilkynningu að aðeins hafi verið sótt um hefðbundna undanþágu. Mikið veður hefur verið gert úr þessari undanþágu, eins og upphlaupið á Alþingi bar vott um. 

Kjarni málsins er hins vegar sá að eigendur Prómens tóku tilboði frá RPC upp á 36 milljarða og vildu innleysa tugi milljarða hagnað. Þetta er því fyrst og fremst eigendamál; áttu bankinn og lífeyrissjóðirnir að taka tilboðinu eða fara í 23 milljarða fjárfestingar erlendis til að gera fyrirtækið enn verðmeira, setja það á markað svo íslenskir fjárfestar kæmust inn í það, og selja það eftir nokkur ár með enn meiri hagnaði ef á því hefði verið áhugi? Trúir því einhver að eigendur Prómens, Framtakssjóður og Landsbankinn hafi látið tæpa 5 milljarða gjaldeyrisyfirfærslu í Seðlagbanka stöðva sig í tugi milljarða ávinningi af fjárfestingu og samvinnu við alþjóðlega stórfyrirtækið Unilever?

Ákvörðun þeirra liggur fyrir. Þeir seldu fyrirtæki sem var verðlaust fyrir þremur árum fyrir 36 milljarða og innleystu hagnaðinn. Ekki veit ég hvort málshátturinn Betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi hafi komið í hug seljenda.

Allt fárið snýst svo um það að fyrirtæki með 97% starfsemi sinnar erlendis, flesta viðskiptavini erlendis, viðskiptabanka sína erlendis, 3.700 starfsmenn sinna (af 3.800) erlendis - og nýjan eiganda sem er erlendur, þ.e. RPC stórfyrirtækið, sem skráð er í kauphöllinni í London.

Það er því ljóst að Prómens sem er þriðja stærsta fyrirtæki Íslands samkvæmt Frjálsri verslun hverfur af listanum 300 stærstu. 

Fjármagnshöftin verða auðvitað að hverfa sem fyrst. Þegar það gerist munu örugglega einhverjir Íslendingar kaupa í RPC fyrirtækinu - og eignast þar með í gamla Prómens.

Vinstrielítan í landinu hefur gagnrýnt útrásina samfellt í sex ár eftir hrun - þegar losað er um hluta af útrásinni verða vinstrimenn kolvitlausir af reiði á þingi og rifjast við það upp: Að sumra er geð að geipa um féð.

Jón G. Hauksson

[email protected]

 

 

 

 

 

 

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.