Þú ert of gamall (BJ)

Pistlar

Benedikt Jóhannesson's picture

Fordómar í garð aldraðra eru meinsemd sem við verðum að uppræta í þjóðfélaginu. Til skamms tíma voru störf í samfélaginu fyllt eingöngu af körlum. Engum dytti í hug að hverfa aftur til þess tíma. Afköstin í þjóðfélaginu eru svo miklu meiri vegna þess að við nýtum krafta kvenna. Samt er það þannig að við nýtum ekki krafta þeirra sem hafa náð ákveðnum aldri nema að litlu leyti í vinnu. Fólki sem vill vinna og getur það vel er haldið frá vinnu vegna forneskjulegs hugsunarháttar.

Ég man enn þegar ég var að byrja í menntaskóla og horfði á karlana og kerlingarnar sem voru á síðasta ári. Mér fannst ég eiga fátt sameiginlegt með þessu fólki. Þau voru 19 ára. Bróðir minn, sem var nokkru eldri en ég, sagðist hugsa til þess með hryllingi að verða fertugur. Svo varð ég nítján ára og seinna varð hann fertugur og hvorugum okkar varð sérstaklega meint af.

Fordómar ungs fólks gegn þeim eldri eru í besta falli broslegir. Það má ekki segja um fordóma ríkis og atvinnurekenda. Ríkisfyrirtæki láta starfsmenn skrifa undir samninga um að þeir vinni ekki nema til 67 ára aldurs. Bankar miða við 65 ár og tilgreina að stjórnendur skuli ekki vera eldri en 60 ára. Hvað veldur þessum aldurstakmörkunum? Er heili fólks þannig að hann renni út á ákveðnum aldri, um hann gildi einhver best fyrir dagsetning?

Erlendis hafa menn ekki alls staðar sömu viðmið. Alþekkt er að stjórnmálamenn, meðal annarra margir þeir sem þekktastir eru, vinna langt fram yfir sjötugt. Churchill var orðinn áttræður þegar hann hætti sem forsætisráðherra, Ronald Reagan var orðinn sjötugur þegar hann varð forseti, Shimon Peres var um nírætt þegar hann lét af forsetaembætti í Ísrael. Hvers vegna geta menn stjórnað löndum sem eru of gamlir til þess að stýra fyrirtækjum?

Fyrir samfélagið er ekki skynsamlegt að afþakka vinnuframlag og þekkingu þeirra sem komnir eru yfir ákveðinn aldur. Vissulega er það rétt að heilsan er brothættari við sjötugt en fimmtugt, en það eru ekki allir eins. Fólk eldist mishratt og það er ekki bara meðalævin sem hefur lengst. Fólk heldur góðri heilsu miklu lengur en áður. Þekking og færni er mikils virði. Fyrir hvert ár sem bætist við starfævina græðir samfélagið. Ef heill árgangur vinnur ári lengur bætist eitt prósent við landsframleiðsluna. Þjóðina munar um minna.

Horfum á málið frá sjónarhóli einstaklinganna sem í hlut eiga. Auðvitað eru sumir fegnir þeirri stundu sem þeir geta hætt að vinna og snúið sér að öðru. En fyrir aðra er starfið lífsfylling og tengir þá við félagana. Auk þess er það auðvitað einfalt að eftir því sem menn vinna lengur eru tekjurnar meiri, þeir leggja meira fyrir í lífeyrissjóð og fá hærri lífeyri eftir því sem töku hans seinkar.

En til þess að vinna verða menn auðvitað að fá störf við sitt hæfi. Því miður hefur þjóðfélagið allt verið svo gegnsýrt af „best fyrir“ hugsunarhætti að oft er erfitt að fyrir gott fólk að fá vinnu eftir að það hefur náð miðjum aldri. Rúmlega fimmtugur maður mætti í atvinnuviðtal og heyrði á tal vinnuveitendanna á leið út. „Þessi smellpassar, en hann er of gamall.“ Þessu þarf að breyta og uppræta aldursfordóma.

Viðreisn hefur í stefnu sinni tekið á þessum aldursfordómum. Þar segir: „Nýtt verði vinnuframlag allra sem hafa starfsorku og reglur og lög um ákveðinn starfslokaaldur afnumdar.“ Það er nefnilega ekki þannig að fólk verði úrelt á einhverjum fyrir fram ákveðnum aldri.

Menn geta verið veikir, úthaldslitlir, svifaseinir, önugir, úr þjálfun eða óhæfir í störf á öllum aldri, en aldurinn einn má aldrei ýta hæfu fólki af vinnumarkaði. Ef við leyfum þeim sem geta unnið að halda áfram störfum græða allir. Vinnustaðurinn, einstaklingarnir og þjóðfélagið í heild.

Benedikt Jóhannesson

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.