Settu framtíðina á minn reikning (BJ)

Pistlar

Benedikt Jóhannesson's picture

„Ég hef einhvers staðar séð þetta nef áður“, sagði gamla konan á elliheimilinu á Dalvík við mig.

Það er gaman að því þegar maður hittir jákvætt og einlægt fólk. Á Dalbæ var nikkan þanin þegar við Betty mættum til þess að ræða við gamla fólkið og starfsmenn. Á kosningaferðalagi rekur maður ekkert endilega áróður, heldur talar við fólk. Ég spjallaði við hjón frá Hrísey, en þagnaði auðvitað undir tónlistinni. Tveir starfsmenn tóku dansspor á gólfinu og voru augljóslega engir amatörar.

Betty heitir reyndar Hildur Betty Kristjánsdóttir og er í 2. sæti á lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi. Fyrir tveimur mánuðum hafði ég ekki hugmynd um að hún væri til. Svo ákvað hún að mæta á fund sem ég hélt á kaffihúsinu Bláu könnunni (ég ruglaði henni saman við Græna hattinn, sem er auðvitað allt önnur saga og alls ekki kaffihús heldur bar, þar héldum við fund síðar og drukkum kaffi). Félagi minn sagði í lok fundarins: „Fáðu Betty á lista, hún er eldklár.“

Hann laug engu um það og nokkrum dögum seinna sló Betty til og settist í annað sæti listans. Flestir Akureyringar þekkja hana í gegnum störf hennar hjá SÍMEY, Símenntun Eyjafjarðar, en hún er nýlega byrjuð sem deildarstjóri hjá Naustaskóla.

Annars hef verð ég að segja að hópurinn sem valdist á lista Viðreisnar er einstaklega góður. Ekki bara í Norðausturkjördæmi heldur um allt land. Sumum finnst það kannski hroki, en ég fullyrði að Viðreisn hefur afburða góðan og jafnan hóp frambjóðenda. Fólk sem berst af hugsjón en ekki eintómri metorðagirnd.

Um daginn var samkoma fyrir ungt fólk í kosningamiðstöðinni í Borgartúni. Ég kom þangað eftir að ávörpum var lokið og gestir stóðu eftir og spjölluðu við frambjóðendur. Páll Rafnar er heimspekingur að mennt. Hann hefur skemmtilega og einlæga sýn á tilveruna. Þegar ég kom að sagði hann við viðmælanda sinn sem mun hafa verið Pírati: „Ég myndi aldrei svara eins og þú. Þegar einhver leggur eitthvað til sem getur aukið hamingju almennings, þá svarar maður ekki: Bullshit! heldur leggur við hlustir.“ Píratinn lagði við hlustir.

Við dyrnar stoppaði ung kona mig og sagði: „Rosalega var hann góður strákurinn sem talaði.“ Hún var að vísa til Bjarna Halldórs Janussonar og það má kalla hann strák því hann er bara tvítugur. Hann er einn af fjölmörgum ungum frambjóðendum Viðreisnar. Hún hélt áfram: „Hann talaði ekki hátt eða með stælum, en maður heyrði hvert einasta orð. Það eru allir sammála um að hann meinti allt sem hann sagði.“

Gervimennska er leiðinleg. Þess vegna er gaman að vinna með fólkinu í Viðreisn, fólki sem þarf ekki að gera sér upp fas eða skoðanir, fólki sem er hreint og beint. Fólk sem meinar það sem það segir. Þegar maður var í skóla voru til skemmtilegir bekkir og dauðyflisbekkir. Viðreisn er stuðbekkurinn í kosningabaráttunni.

Mér finnst gaman að vakna í sveitinni við Svalbarðseyri eða horfa yfir Norðfjörðinn snemma morguns. En skemmtilegast er að tala við fólkið. Sumir halda að við boðum endilok landbúnaðar eða sjávarútvegs, en í lok samtalsins er viðkvæðið oftar en ekki: „Þið eruð með miklu skynsamlegri stefnu en ég áttaði mig á!“

Ég orðaði það svo að fólk væri glaðara í lok fundanna en í upphafi. Einhver sneri út úr því og sagði að fólk væri glaðara þegar við færum en þegar við komum!

Margir eru hissa á því að við viljum ekki lofa öllu sem menn biðja um. Svoleiðis pólitíkusar eru ekki á hverju strái, en mörgum finnst það ágætt að við svörum því sem við best vitum og viðurkennum að við vitum ekki allt. Svoleiðis stjórnmálamenn hafa menn aldrei áður séð, en hafa svolítið gaman af.

Í gær keypti ég ljóðabók. Hún flæktist einhvern veginn upp í hendurnar á mér. Hún heitir Sumartungl og er eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson. Hann er orðhagur og einlægur. Tekst að koma orðum að því sem margir hugsa – og líka því sem hann hugsar sjálfur. Ég opnaði bókina og þar var þetta ljóð:

Án þess að blikna

Settu framtíðina á minn reikning

Þótt ég viti eða þykist sjá

að borgunarmaður verði ég aldrei

fyrir því sem er búið og gert.

 

Skrifaðu mig fyrir skuldabréfi

með óreglubundnum afborgunum

svíkjandi láni með svimandi vöxtum

og hlut í hríðfallandi gengi.

 

Ábyrgjast skal ég ennfremur

allt milli himins og jarðar

með því einfalda skilyrði

að þú fallir fram og tilbiðjir mig

gróðafíkilinn sem þú hefur alið

við brjóst þér án þess að blikna.

Stundum leiða tilviljanir mann á einmitt þann stað sem manni var ætlaður. Þetta ljóð finnst mér eiga við stjórnmálamann í kosningaham; aðrir skilja það kannski öðru vísi. Hann er örugglega ekki í Viðreisn þessi.

Það gekk vel á Dalbæ. Betty spjallaði við marga og síðar fréttum við að kona hefði ákveðið að kjósa okkur vegna þessarar „elskulegu ungu konu“ sem kom í heimsókn.

Gamla konan leit á nefið á mér sem hefur fylgt mér frá fæðingu. Kristinn Baldursson frændi minn sagði þegar hann sá mig á fæðingardeildinni: „Hann er með nef.“ En af því að það er ekki sérlega smálegt finnst mér alltaf vænt um ef einhver segir um mig: „Benedikt veit lengra en nef hans nær.“

„Ég hef einhvers staðar séð þetta nef áður“, sagði gamla konan að skilnaði.

„Minna má nú sjá“, svaraði ég.

Benedikt Jóhannesson

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.