Mega útlendingar bara koma, ekki eiga?

Pistlar

Sverrir H. Geirmundsson's picture

Fróðlegt hefur verið að fylgjast með umræðunni í framhaldi af kaupum fjárfestingarbankans Goldman Sachs og þriggja alþjóðlegra fjárfestingasjóða á tæplega 30% hlut í Arion banka. Fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi virðast alltaf skapa ákveðna tortryggni. Hins vegar virðast útlendingar vera velkomnir til landsins ef þeir koma á öðrum forsendum t.d. vegna fátæktar í sínu heimalandi. Í þessu felst náttúrlega mikil þverstæða.

Skemmst er að minnast þegar kínverski fjárfestirinn Hugang Nubo bauðst til að leggja 15 milljarða króna í uppbyggingu á Grímsstöðum á Fjöllum. Svo virðist sem sumir hafi haldið að nú væri fulltrúi kínverskra stjórnvalda kominn til að kaupa upp verðmætar náttúruauðlindir Íslendinga svo hægt væri að senda flokka fólks í sumarfrí til eyjarinnar fögru í Norður Atlantshafinu. Jafnvel þótt Nubo hafi lýst sig reiðubúinn til að afsala sér vatnsréttindum og leggja fram jarðnæði endurgjaldslaust til að tengja Vatnajökulsþjóðgarð og þjóðgarð við Jökulsá á Fjöllum eins og fram kom í fréttum á sínum tíma.

Fjölmargir útlendingar hafa fjárfest hér á landi á undanförnum árum bæði í fasteignum og jarðnæði vítt og breitt um landið. Lítið er rætt um það, kannski vegna þess að Svisslendingar og íbúar annarra þjóða vekja ekki upp sömu óttakenndina og stórþjóðir eins og Bandaríkin og Kína. Þegar Ísland gekk í Evrópska efnahagssvæðið fullyrtu margir að útlendingar myndu kaupa hér upp heilu dalina til að tryggja sér pláss í paradís norðursins. Sú varð ekki raunin.

Fjármagnshöft eins og lengst af voru við lýði frá efnahagshruni eru ekki síst skaðleg fyrir þær sakir að þau komu í veg fyrir að útlendingar vildu fjárfesta Íslandi. Arðsemi fjárfestinga hér á landi er mun hærri en í löndunum í kringum okkur eins og fram kom í grein Gylfa Zoega í Vísbendingu fyrir nokkru síðan. Það eru því góðar aðstæður til að laða að erlent fjármagn til landsins, auka fjölbreytni og dreifa áhættu. Í ríkjum þar sem fjármálamarkaðir eru þróaðir er daglegt brauð að alþjóðlegir fjárfestar kaupi og selji eignarhluti í fjármálastofnunum. Slíkt þykir ekki sérstakt fréttaefni. Við þurfum að komast upp úr hjólförum heimóttans þegar kemur að fjárfestingum útlendinga á Íslandi.

Ritstjórapistill, Vísbending 11. tbl. 2017

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.