Þess vegna eru vextirnir svona háir

Pistlar

Sverrir H. Geirmundsson's picture

Ef Íslendingar eru sammála um eitthvað þá er það líklega sú fullyrðing að vextir séu of háir hér á landi. Þrátt fyrir það virðist ekkert lát á verðhækkunum á húsnæðismarkaði og nýjum bílum fjölgar jafnt og þétt á götum borgarinnar. Ekki verður séð að almenningur setji þessa háu vexti sérstaklega fyrir sig þessa dagana, en það er mjög úr takti við almennar hagfræðikenningar.

Í húsnæðismálum eru einstaklingar og heimili að skuldbinda sig til mjög langs tíma, yfirleitt 25 ára. Vextir og verðbólga hér á landi hafa verið mjög sveiflukennd á undanförnum áratugum eins og margir þekkja á eigin skinni. Verðtryggð íbúðalán fela í sér talsverða áhættu, en það sannaðist best á árunum 2008 og 2009 þegar verðbólgan tók mikinn kipp samfara veikingu krónunnar og samdrætti á vinnumarkaði. Verðbólgan hefur tilhneigingu til að magnast ef laun hafa hækkað mikið í uppsveiflunni án þess að samsvarandi framleiðniaukning hafi átt sér stað.

Óverðtryggðir vextir eru háðir sömu áhættu. Þegar verðbólgan tekur við sér hækka stýrivextir og þar með óverðtryggðir vextir. Það er ástæðan fyrir því að viðskiptabankarnir eru ekki tilbúnir að festa óverðtryggðu vextina nema til ákveðins árafjölda. Þeir vita hvað hagsveiflan felur í sér.

Seðlabankastjóri var í athyglisverðu viðtali á Eyjunni á ÍNN fyrir skemmstu. Þar benti hann á að aðstæður í efnahagslífinu hér á landi væri með öðru móti en í nágrannaríkjunum og það skýrði m.a. hærri vexti hér á landi en annars staðar. „Erlendis er verið að reyna eftir öllum mætti og gengur ekkert allt of vel að örva atvinnulífið og efnahagslífið, að fá atvinnustigið upp, atvinnuleysi niður, verðbólguna upp og launavöxtinn upp. Bíddu, eru þetta aðstæðurnar á Íslandi. Launavöxtur er tveggja stafa tala. Við erum á allt öðrum stað … Við vorum með 7,2% hagvöxt í fyrra, það er spenna í kerfinu, þeir eru með slaka … Vextirnir sem við erum með hér eru bara að endurspegla að staðan er önnur. Vextirnir eru hér háir af því að hagvöxturinn er mikill og við erum við fulla atvinnu.“

Vextir eru að sjálfsögðu háðir aðstæðum í efnahagslífinu. Sú staðreynd virðist stundum gleymast þegar rætt er um vaxtastigið á Íslandi.

Ritstjórapistill, Vísbending 12. tbl. 2017

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.