Skattar og innviðir

Pistlar

Sverrir H. Geirmundsson's picture

Reiðarslag sagði framkvæmdastjóri Sam­taka ferðaþjónustunnar í kjölfar boðaðra breytinga um að færa ferðaþjónustuna í sama virðisaukaskattsþrep og almenn atvinnufyrirtæki í landinu frá og með 1. júlí á næsta ári. Almennur virðisaukaskattur er 24% um þessar mundir, en stór hluti ferðaþjónustunnar greiðir hins vegar einungis 11% virðisaukaskatt sem sem er ríf­lega helmingi lægri skattur en almennt gerist og gengur í atvinnurekstri á Íslandi. Útleiga á hótel­herbergjum og öðru gistirými til skemmri tíma en eins mánaðar fellur m.a. undir þessa ívilnun. Sama á við um veitingaþjónustu, starfsemi hóp­ferðabíla, rekstur baðstaða, ferðaleiðsögn og fleira.

Lengi vel var ákveðinn hluti ferðaþjónustunn­ar í 7% skattþrepi og hinn hlutinn þurfti ekki að greiða neinn virðisaukaskatt í ríkissjóð á sama tíma og mörg fyrirtæki í greininni högnuðust mikið í kjölfar gríðarlegrar fjölgunar ferðamanna til landsins. Frá og með 1. janúar 2016 hækkaði virðisaukaskattshlutfallið í 11% og ýmis starf­semi sem áður var ekki virðisaukaskattskyld var felld undir virðisaukaskattinn við litla hrifningu margra.

Ferðaþjónustan hér á landi hefur náð þeim sögulega áfanga að vera orðin ein stærsta atvinnu­grein þjóðarinnar. Rökin fyrir sérstökum skattaívilnunum til að örva starfsemi fyrirtækja í grein­inni eru því augljóslega ekki fyrir hendi lengur. Samkvæmt tölum sem finna má á vef fjármála­ráðuneytisins er virðisaukaskattstekjur af þeirri ferðaþjónustutengdri starfsemi sem fellur undir lægra skattþrepið einungis um 3% af tekjum rík­issjóðs af virðisaukaskatti. Með nokkrum rökum mætti halda því fram að aðrar atvinnugreinar í landinu búi við hærra virðisaukaskattshlutfall vegna þessa. Enda kemur fram í rökstuðningi með skattabreytingunum að unnt sé að lækka virðisaukaskattshlutfallið úr 24% í 22,5% frá og með 1. janúar 2019 þegar aðstöðumunur hefur verið jafnaður.

Mikið hefur verið rætt um innviðaupp­byggingu síðustu misserin, ekki síst á vettvangi ferðaþjónustunnar. Mögulega hafa lágir veltu­skattar í ferðaþjónustunni leitt til offjárfestingar í greininni enda má gera ráð fyrir að eftirspurn útlendinga minnki þegar verð á þjónustunni hækkar. Stór verkefni eru framundan t.d. í sam­göngumálum og ýmsum aðstöðumálum víða um land. Þessar framkvæmdir þarf eðli máls að fjár­magna úr ríkissjóði og ekki er óeðlilegt að ferða­þjónustan kosti þær breytingar til jafns við aðra. Þá hníga ýmis hagstjórnarleg rök að því að skatt­leggja ferðaþjónustuna í þeim tilgangi að draga úr undirliggjandi þenslu og styrkingu krónunnar. 

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.