Menntun og framleiðni

Pistlar

Sverrir H. Geirmundsson's picture

Gífurleg aukning hefur orðið í námsfram­boði á undanförnum árum. Í eina tíð þótti gott að hafa háskólapróf í viðskiptafræði, lögfræði eða læknisfræði svo dæmi séu tekin. Þeir sem hugðu á starfsframa innan háskóla­geirans bættu gjarnan við sig meistaranámi og þeir allra hörðustu eyddu síðan 3 - 5 árum í viðbót í doktorsnám útí í heimi og komu til baka þjakaðir af námsskuldum. Hámennt­uðu doktorarnir enduðu svo iðulega í illa borguðum rannsóknarstörfum hjá ríkinu, en síðar í hálaunuðum störfum innan fjármála­geirans.

Aukin samkeppni um atvinnu hér á landi hefur leitt til þess að endalaust bætist við af námsleiðum fyrir þá sem vilja „auka samkeppnisfærni sína“ í atvinnulífinu. Ef heldur fram sem horfir verður almenn skyn­semi að lokum kennd á meistarastigi og þá verður búið að loka hringnum. Almenn skynsemi er ekki óverðugra rannsóknarefni en hvað annað.

Staðreyndin er sú að hér á landi eru allt of margar háskólastofnanir sem keppa um viðskiptavini með því að bjóða stöðugt fram „eitthvað nýtt“. Ekki verður séð að frum­kvæðið að þessum nýju námsleiðum komi frá atvinnulífinu sjálfu enda hefur sýnt sig að mikil þörf er á annars konar námi t.d. í iðn- og tæknigreinum. Það er merkilegt að örfáir framhaldsskólar virðast bjóða upp sérstakar tölvubrautir til stúdentsprófs á sama tíma og tölvunotkun hér á landi er með því mesta í heimi.

Yfirflæði útskrifaðra háskólanema í ýmsum greinum er þegar farið að sýna sig á vinnumarkaðinum. Viðskiptafræðingar ganga í almenn þjónustufulltrúastörf í bönk­unum, störf sem ekki kröfðust sérstakrar menntunar áður. Sama á við um lögfræðinga sem hafa leitað í ýmis almenn störf í seinni tíð eftir að ýmsir háskólar fóru að bjóða styttra lögfræðinám.

Niðurstaðan er sú að ríkið er að leggja í kostnað við menntun sem atvinnulífið hér á landi hefur ekki endilega mesta þörf fyrir. Þetta sést best á því að framleiðni í íslensku atvinnulífi er enn um fimmtungi lægri en í nágrannalöndunum og hefur lítið aukist á síðustu árum þrátt fyrir þann gríðarlega fjölda einstaklinga sem hefur verið útskrif­aður úr menntastofnunum landsins. Ef rétt væri að málum staðið myndi aukin fram­leiðni haldast í hendur við þessa stórauknu menntun.

Ritstjórapistill, Vísbending 15. tbl. 2017

 

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.