Stærstu hagstjórnarmistökin?

Pistlar

Sverrir H. Geirmundsson's picture

Íslenskt efnahagslíf hefur vaxið með ógnarhraða síðustu misseri. Landsfram­leiðslan hefur aukist stöðugt frá árinu 2011 og ekkert lát virðist vera á. Hagvöxtur á síð­asta ári mældist 7,2%. Ef marka má þjóð­hagsspá Hagstofunnar má gera ráð fyrir að hagvöxtur verði viðvarandi a.m.k. til ársins 2022. Það yrði lengsta hagvaxtarskeið í sögu þjóðarinnar.

Fjárfesting hefur aukist mikið og einkaneyslan hefur tekið við sér. Verðbólga hefur haldist lág þrátt fyrir miklar launahækkanir og spennu í efnahagslífinu. Þetta eru að­stæður sem Íslendingar hafa sjaldan staðið frammi fyrir og eru í raun þveröfugar við það sem er að gerast í nágrannalöndunum. Þar er verðbólgan lág og hagvöxtur lítill. Í þessum ríkjum er keppikeflið í hagstjórninni að örva fjárfestingu og einkaneyslu. Þarna virðist því vera mikil þverstæða milli Íslands og annarra landa.

Ástandinu hér á landi má líkja við að tvö hagkerfi séu til staðar. Í fyrsta lagi er um að ræða hinar rótgrónu útflutnings- og þjón­ustugreinar. Þessar greinar eru mjög næmar fyrir breytingum í raungengi og launakostn­aði. Í annan stað er ferðaþjónustan sem hefur náð að hrista af sér neikvæð áhrif af styrkingu krónunnar með því að auka magnið þ.e. taka á móti stöðugt fleiri ferðamönnum. Þessi víxlverkun gengur hins vegar ekki upp til lengdar því samkeppnisstaða allra atvinnu­greina verður að lokum óviðunandi. Áfram­haldandi hagstæð verðlagsþróun er síðan að miklu leyti háð því að krónan haldist sterk.

Breytingar á skattalegu umhverfi ferða­þjónustunnar voru löngu tímabærar í hag­stjórnarlegu tilliti, án þess þó að tekin sé afstaða til annarra þátta í því samhengi. Það er margt sem bendir til þess að stjórnvöld hafi verið of allt of sein að jafna aðstöðumun milli ferðaþjónustunnar og annarra atvinnugreina í skattamálunum. Þetta hefur leitt til óraun­hæfra væntinga um afkomu hjá ferðaþjón­ustufyrirtækjum, offjárfestinga og óæskilegra ruðningsáhrifa gagnvart öðrum atvinnu­greinum. Ekki síst hefur þetta leitt til þess að hendur ríkisins eru nú bundnar þegar kemur að nauðsynlegum framkvæmdum t.d. í vega­málum og ýmsum útgjaldaþáttum í grunn­þjónustunni. Ef hægt er að tala um að mistök hafi verið gerð í hagstjórninni á síðustu árum þá liggja þau líklega þarna. 

Ritstjórapistill, Vísbending 16. tbl. 2017

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.