Sumarið er komið

Pistlar

Sverrir H. Geirmundsson's picture

„Nú verður aftur hlýtt og bjart um bæinn“ orti borgarskáldið Tómas Guðmundsson í kvæði sínu Austurstræti. Þessi orð eiga vel við núna þegar sól hefur hækkað á lofti. 

Tómas var iðinn við útgáfustörf, en brauðstritinu sinnti hann um nokkurra ára skeið sem lögfræðingur við málflutningsstörf. Málflutningsstörfin hafa eflaust reynt á þolinmæði skáldsins ekki síst á heitum sumardögum í Reykjavík. Enda hafði skáldagyðjan að lokum yfirhöndina og eftir að bókin Fagra veröld kom út ár árinu 1933 var framtíðin ráðin. Bókin seldist upp og orðstýr Tómasar var tryggður. Tómas var ólíkur samferðamönnum sínum á sviði ljóðagerðar að því leiti að hann þurfti ekki að leita í náttúruna til að finna yrkisefni. Borgin var hans ær og kýr. 

Á árinu 2010 afhjúpaði borgarstjórinn í Reykjavík minnisvarða um Tómas sem stendur við suðurenda Reykjavíkurtjarnar. Lengi vel stóð brjóstmynd af Tómasi í Austurstræti við Reykjavíkurapótek en hún var tekin niður og hefur nú verið komið fyrir á Borgarbókasafni Reykjavíkur. 

Nú verður aftur hlýtt og bjart um bæinn. 
Af bernskuglöðum hlátri strætið ómar, 
því vorið kemur sunnan yfir sæinn. 
Sjá, sólskinið á gangstéttunum ljómar. 

Og daprar sálir söngvar vorsins yngja. 
Og svo er mikill ljóssins undrakraftur, 
að jafnvel gamlir símastaurar syngja 
í sólskininu og verða grænir aftur. 

Og þúsund hjörtu grípur gömul kæti. 
Og gömul hjörtu þrá á ný og sakna. 
Ó, bernsku vorrar athvarf, Austurstræti, 
hve endurminningarnar hjá þér vakna. 

Hér lærðist oss að skrópa úr lífsins skóla. 
Hér skalf vort hjarta sumarlangt af ást. 
Og þó hún entist sjaldan heila sóla, 
fann sál vor nýja, þegar önnur brást. 

Þá færðust okkar fyrstu ljóð í letur, 
því lífið mjög á hjörtu okkar fékk. 
Og geri margir menntaskólar betur: 
Ég minnist sextán skálda í fjórða bekk. 

Og samt var stöðugt yfir okkur kvartað, 
og eflaust hefur námið gengið tregt. 
Við lögðum aðaláherslu á hjartað, 
því okkur þótti hitt of veraldlegt. 

Ritstjórapistill, Vísbending 17. tbl. 2017

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.