Einkavæðing og eigendur umræðunnar

Pistlar

Sverrir H. Geirmundsson's picture

Það dylst engum að pólítísk rétthugsun ríkir á ýmsum sviðum á Íslandi. Sem dæmi má nefna umhverfismál, innflytjendamál, áfengisumræðu og einkavæðingu í ríkisrekstri. Ef minnst er á þessa málaflokka í samfélagsumræðu rýs gjarnan upp herfylking réttrúnaðarsinna, stundum kallaðir eigendur umræðunnar. Þessi rétttrúnaður á gjarnan rætur að rekja í hugmyndafræði stjórnmálaflokka sem eru nálægt jaðrinum. Hugmyndafræði er í eðli sínu ósveigjanleg skoðun. Þeir sem eru á móti virkjunum eru einfaldlega á móti virkjunum svo dæmi sé tekið. Skiptir þá engu hvaða rök liggja fyrir að öðru leiti.

Einkavæðing er annað dæmi. Að undanförnu hefur verið lífleg umræða um leyfi einkafyrirtækis í Ármúla til að reka sérhæfða sjúkrahúsþjónustu með legudeild. Eigendur umræðunnar króuðu heilbrigðisráðherrann af í umræðu á Alþingi og fengu hann til að sverja af sér öll einkavæðingaráform í heilbrigðiskerfinu. Ráðherranum ber lögum samkvæmt að taka afstöðu til starfsleyfis vegna rekstrarins en hefur vikist undan og talið að landlæknir sé búinn að veita leyfið. Þessu er landlæknir hins vegar ósammála og telur að ráðherrann þurfi að taka afstöðu til málsins, hvort sem honum líkar betur eða verr. Þarna eru stjórnmálamenn farnir að Óttast um of eigendur umræðunnar.

Langir biðlistar eru eftir bæklunaraðgerðum á Landspítalanum en Klíníkin veitir þjónustu á því sviði. Í úttekt Frjálsrar verslunar fyrir nokkrum árum kom fram að um 17 þúsund skurðaðgerðir eru framkvæmdar á einkareknum skurðstofum hér á landi eða álíka margar og á Landspítalanum. Útvistun verkefna, einkavæðing eða hvað menn vilja kalla það er því nú þegar stór hluti af heilbrigðiskerfinu. Þeir sem sækja sér þjónustu sérfræðilækna eru vel meðvitaðir um þetta, en stórar einkareknar læknastöðvar eru t.a.m. í Domus Medica, Glæsibæ, Orkuhúsinu og í Mjódd. Í úttekt Frjálsrar verslunar kom jafnframt fram að rekstur einkastöðvanna sé ódýrari og skilvirkari. Ekki er víst að svo sé í öllum tilvikum, en hins vegar er nauðsynlegt að fram fari fagleg umræða um hvaða þjónustu sé hagkvæmt að útvista og hvað ekki.

Það er engin ástæða til að gera hugtakið einkavæðingu að skammaryrði í umræðum um heilbrigðiskerfið.

Ritstjórapistill, Vísbending 18. tbl. 2017

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.