Næst eru það tollamálin..

Pistlar

Sverrir H. Geirmundsson's picture

Kjarabarátta á Íslandi hefur gjarnan snúist um þrennt. Í fyrsta lagi að ná fram leiðréttingum vegna rýrnandi kaupmáttar við aðstæður verðbólgu. Í annan stað er mikil stéttavitund á Íslandi sem leiðir iðulega til höfrungahlaups í kjaramálunum. Í þriðja lagi eru tilteknir kjarahópar í betri aðstöðu en aðrir til að knýja fram kjarabætur sem oft á tíðum eru langt umfram það sem aðrir hafa fengið. Verkföll flugumferðarstjóra voru algeng fyrir nokkrum árum. Kjarabætur til lækna voru byggðar á ótta við að þeir myndu ílengjast í störfum útí heimi vegna bágra starfskjara á Íslandi. Þeir fengu fordæmalausar launahækkanir og er nú svo komið að íslenskir læknar eru mun betur borgaðir en kollegar þeirra á hinum Norðurlöndunum samkvæmt greiningu Samtaka atvinnulífsins. Munar þar um 70% á heildarlaunum. Í kjölfar ríflegra launahækkana lækna hófst svo mikið höfrungahlaup hjá öðrum kjarahópum í samfélaginu.

Það vill oft gleymast að það er bæði debet og kredit í heimilisbókhaldinu - gjöld og tekjur. Áherslan virðist öll vera á hækkun launa en á sama tíma búa Íslendingar við ofurtolla og innflutningskvóta á ýmsar innfluttar matvörur í þeim tilgangi að veita íslenskum landbúnaði vernd fyrir samkeppni. Ekki nóg með það heldur þurfa neytendur að greiða tvöfalt fyrir verndina þ.e. bæði tollana og síðan styrki til landbúnaðarframleiðslunnar hér á landi. Tölur sýna að tollvernd fyrir mjólkur- og kjötvörur er mun meiri hér á landi en í samanburðarlöndunum eins og lesa má í fróðlegri grein sem framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda ritaði í Vísbendingu fyrir skemmstu.

Opnun bandaríska verslunarrisans Costco hér á landi er gott dæmi um kjarabætur sem aukin samkeppni leiðir af sér fyrir íslensk heimili. Sama myndi gerast ef fákeppni yrði aflétt á landbúnaðarvörur. Verð á matarkörfunni myndi snarlækka enda leggjast tollar á 40% vörutegunda í henni vegið eftir verðmæti samkvæmt tölum Viðskiptaráðs frá árinu 2015.

Hér á landi starfa ýmsar stofnanir, samtök og verkalýðsfélög sem ættu að vera að berjast fyrir þessu brýna og sjálfsagða hagsmunamáli neytenda. Lítið heyrist frá þessum aðilum. Sá eini sem virðist beita sér í málinu er Félag atvinnurekenda sem er orðinn einn helsti baráttumaður fyrir hagsmunum neytenda í landinu, svo merkilegt sem það kann að hljóma.

Nú er rétti tíminn til að taka næsta skref í hagsmunamálum íslenskra neytenda og lækka landbúnaðartollana til samræmis við nágrannalöndin. 

Ritstjórapistill, Vísbending 19. tbl. 2017

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.