Costco-áhrifin

Pistlar

Sverrir H. Geirmundsson's picture

Í efnahagshruninu lenti stór hluti af atvinnulífinu í fanginu á bankakerfinu, Seðlabankanum og lífeyrissjóðakerfinu. Tveir fyrstnefndu eignuðust m.a. gríðarstór fasteignasöfn sem þeir hafa mjatlað út hægt og bítandi eftir því sem fasteignamarkaður hefur lifnað við. Lífeyrissjóðirnir eru enn umsvifamiklir fjárfestar í skráðum félögum í Kauphöllinni og eiga mikla hagsmuni m.a. á smásölumarkaðinum. Eftir hrunið var keppikeflið hjá þessum aðilum að hámarka virði eigna. Allir þurftu að fá sitt: háa arðsemi, háa húsaleigu og háa vexti. Við bætast svo há opinber gjöld og skattar í rekstri fyrirtækja.

Þetta hefur m.a. leitt til þess að smásöluverslunin í landinu hefur verið ósamkeppnisfær um langa hríð vegna kostnaðar, þótt fleira komi reyndar til. Framan af höfðu íslenskir neytendur ekkert val þegar kom að kaupum á ýmsum vöru- og þjónustuþáttum innanlands vegna einangrunar og fákeppni. Sem dæmi má nefna eldsneytismarkaðinn þar sem olíufélögin hafa fundið álagningargrundvöll sem dugar til að reka öll félögin með góðum hagnaði.

Neytendur hafa hins vegar kosið með fótunum þegar kemur að ýmsum varningi sem hægt er að nálgast ódýrar annars staðar. Íslensk verslun kvartaði á tímabili sáran yfir verslunarferðum Íslendinga til útlanda. Þær leiddu m.a. til þess að verð á fötum og skóm lækkaði mikið hér. Þá opnaði Netverslun fyrir mörg tækifæri til að sniðganga háa álagningu íslenskra sérverslana sem leitt hefur til mikilla verðlækkana t.d. á raftækjum.

Með innreið Costco á markaðinn standa fjölmörg smásölufyrirtæki og heildsölur skyndilega á miklum tímamótum. Rekstur Costo byggir á lágri álagningu, lágum kostnaði og stærðarhagkvæmni bæði í rekstri og innkaupum. Félagið er yfir 40 ára gamalt með net verslana sem telja á áttunda hundrað. Félagsgjaldið sem viðskiptavinir fyrirtækisins greiða er skilgreint sem gjald fyrir veitta þjónustu við að ná fram bestu verðunum fyrir þeirra hönd. Matvörukeðjurnar hér á landi bjóða vissulega einnig upp á góða þjónustu en hvað felur hún í sér? Mikla yfirbyggingu, fjölda verslana, háan kostnaðarstrúktúr og langan opnunartíma?

Ljóst er að Costco-áhrifin munu ekki fjara út eins og ýmsir verslunareigendur eru líklega að vonast til. Reynslan síðustu ár sýnir að íslenskir neytendur eru miklu meira á varðbergi en áður í verðlagsmálum. Við blasir mikil hagræðing í verslunar- og þjónustugeiranum á næstu misserum, fækkun verslana og sameiningar.

Ritstjórapistill, Vísbending 20. tbl. 2017

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.